Hver stjórnar því hvað kemur á skjáinn?

Nóttin var eins og hún er svo oft  þannig, að eftir að hafa sofið í svona 2 – 3 tíma þá glaðvakna ég  og er vakandi allt miðbikið úr nóttinni. Þetta er nú komið upp í vana svo þið skuluð ekkert vera að vorkenna mér, en á meðan ég byrjaði að vinna klukkan hálf átta á morgnanna var þetta oft erfitt. Ég er löngu hætt að vera að veltast um í rúminu og svekkja mig yfir þessu og er því farin að fara fljótlega framúr þegar ég vakna svona. 
Ég nota yfirleitt tímann til þess að ganga nokkra hringi um stofuna, inn í eldhús og aftur til baka, ganga á tánum, ganga á  hælunum , ganga með háum hnélyftum – allt til þess að verða fyrr þreytt og vonandi syfjuð aftur.  Í nótt var ég  ekkert orðin syfjuð eftir að þramma þetta á mismunandi hátt í nokkurn tíma en þá var ég svo heppin að ég heyrði Moggann detta inn en hann er alltaf komin á milli klukkan fjögur og fimm.  Ég las allan Moggann og meira segja fór ég í gegnum allt fasteignablaðið líka. Þegar þarna var komið var ég orðin svo svöng að ég fékk mér cherioos og mjólk. Síðan skreið ég aftur upp í rúm og eins og yfirleitt eftir þessa  3 tíma þá steinsofnaði ég.  Þegar ég vaknaði klukkan níu fann ég Hauk hvergi. Fyrst var ég að spá í hvort hann væri farinn í bæinn því ég vissi að hann ætlaði fyrir hádegið, en grunaði svo hvar hann væri niður kominn –  nefnilega í Styrk þar sem hann hamast eins og unglingur í tækjum og tólum á hverjum degi þegar hann er hérna fyrir austan. Ég legg það ekki í vana minn að öfunda fólk en mikið vildi ég geta sofið eins og hann Haukur. Hann bara sefur þegar hann á og ætlar að sofa, hvort sem það er vegna næturvakta að degi til eða á nóttunni eins og fólk almennt gerir, þá bara sefur hann og vaknar svo úthvíldur og hress og skilur ekkert í því af hverju ég er að þessu sprangi á næturna í stað þess bara að sofa.  Það er ekki von að fólk geti skilið svona  háttarlag, en trúið mér þetta er eitthvað sem maður kýs ekki sjálfur.

Annars var dagurinn ágætur Ég sótti krakkana, það er að segja Oddur kom með mér hérna heim til þess að fá að borða en Karlotta vildi endilega fá að fara heim með vinkonu sinni. Síðan fannst stubbnum óréttlátt að hann fengi ekki líka að vera með vini sínum svo það varð úr að ég fór með hann til Nóa vinar hans svo ég var allt í einu búin í vinnunni fyrir klukkan tvö.  Ég fór því í útréttingar og leit svo inn hjá systur minni og drakk þar miðdegiskaffið. 

Nú bíð ég spennt eftir því að horfa á Survivour klukkan níu í kvöld og á Lost  eftir kvöldfréttir og  síðan kemur auðvitað ný nótt – kannski sef ég til morguns og kannski geng ég öfugan hring á við það sem ég gekk í nótt svona til tilbreytingar.

Allt sem ég hef skrifað  núna er eitthvað sem er órafjarri því sem ég ætlaði að skrifa um en ég býst við að þið kannist við það þegar svona gerist.  Maður sest niður með hugmynd að skrifum og svo kemur allt annað á skjáinn. Svei mér þá hver er það sem stjórnar hér, er þetta ekki síðan mín ???

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Hver stjórnar því hvað kemur á skjáinn?

  1. afi says:

    Ansi margt
    Já afi kannast við æði margt af ofanrituðu. Allt frá svefnvenjum til þess er á skjáinn fer.

  2. Þórunn says:

    Svefnvenjur
    Ég varð alveg hissa þegar ég las um svefnvenjurnar þínar, það er eins og þú sért að lýsa honum Palla mínum en ég á sem betur fer mjög gott með að sofna og sofa til morguns. Svona er þetta misjafnt. Og þetta með hvað kemur á skjáinn, eða kemur ekki, það kannsat ég líka við. Við eigum líklega fleira sameiginlegt en okkur grunar.

  3. Svanfríður says:

    Þetta er ljótan Ragna að þú getir ekki sofið, en fanstu e-ð fallegt í fasteignarblaðinu?

  4. Ragna says:

    Vefjagigtin.
    Mér dettur í hug hvort Palli og Afi séu líka með vefjagigt því þetta er eitt af einkennum hennar.
    Hvimleitt en þolanlegt ef maður þarf ekki að vakna til vinnu því það er svo stressandi að vera loksins að festa svefn aftur um það leyti sem þarf að vakna til vinnu. Það er gott að geta lúrt til 9 eða 10.

  5. Linda says:

    Ótrúlegt að þú skulir vera eins brött og þú ert.. það er alveg bölvanlegt að missa svona úr svefninum og reyna að halda geðheilsunni í leiðinni..

    Svo er það hitt að maður kannast nú aðeins við ókunnugan skjáinn, það er líka oft að maður er stútfullur af hugmyndum, en einhver bölvuð ritstífla myndast þá og ekkert verður úr neinu..

  6. Gurrý says:

    Ég hef nú einstaka sinnum orðið andvaka og skil því vel hvernig þér líður, því ég vakna svo alveg ringluð eftir þannig nótt.
    Þetta með skrifin, það er eins gott að þú skulir þó vera við skjáinn því gegnum daginn er ég að skrifa langa pistla í huganum en þeir eru allir flognir í burtu þegar ég sest niður við tölvuna!

  7. Þórunn says:

    Svefntruflanir
    Nei Ragna, Palli er ekki með vefjagigt og engin ástæða hefur fundist fyrir þessum svefntruflunum. En hérna fá menn sér miðdegislúr, sem er alveg frábært, ekki síst eftir svefnlitla nótt.

  8. afi says:

    Nei ekkki er það sú giktin sem plagar stundum afa. Heldur kallast viðhaldið slitgikt og systir hennar brjóskeyðingin er trú fylgikona. Meira um svefnvenjur, afi fór að sofa eftir miðnættið en vaknaði milli 02 – 03 og sofnaði ekkert eftir það. Þannig er það nú og ekki orð um það meir.

  9. Ragna says:

    Klúbbur svefnruglara.
    Við erum greinilega á rólinu á sama tíma nætur.
    Það er verst að við búum í sitthvoru bæjarfélaginu. Hver veit nema við hefðum getað stofnað klúbb svefnruglara og gert eitthvað gáfulegt annað en að slíta hjá sér parkettinu.
    Ég sendi skilningsríkar kveðjur.

Skildu eftir svar