Brúðkaupið – endurminning 2. kafli

Nú er komið að næsta hluta gömlu endurminninganna sem rifjuðust upp við andlát Inga Þorsteins.

——————————————-

Unga parið var statt í þeim sporum þegar við skildum við þau í síðasta pistli, að fyrir dyrum var fyrsta utanlandsferð beggja. Þá fæddist hugmynd. – Hvernig væri að nota tækifærið og gifta sig, láta engan nema foreldrana vita og sleppa öllum veisluhöldum en fara bara beint í ferðina og gera hana að brúðkaupsferð. Þessi hugmynd var of góð til þess að nota hana ekki.

Þar sem nú þegar mun ljóst hver stúlkan var og pilturinn þá ætla ég í framhaldinu að tala um mig og hann.

Ég hringdi til mömmu á sunnudegi og sagði henni frá þessu snjallræði sem okkur hafði komið til hugar varðandi það að breyta ferðinni n.k. fimmtudag í brúðkaupsferð. Það kom svo löng þögn á hinum enda línunnar, að ég var orðin hrædd um að það hefði liðið yfir hana mömmu mína. Svo loksins stundi hún upp -" á fimmtudaginn, meinarðu næsta fimmtudag??? Hvernig á það að vera hægt". Ég sagði henni þá frá því hvernig við hugsuðum okkur þetta. Gifta okkur fyrir hádegið og fara svo bara beint í rútuna sem átti að flytja hópinn á Keflavíkurflugvöll, en hún átti að fara úr Tjarnargötunni klukkan hálf tvö eftir hádegið. " Já en brúðkaupsveislan?" Það þurfti miklar fortölur til að sannfæra foreldra mína um að okkur finndist einmitt svo sniðugt að geta þannig sloppið við að hafa brúðkaupsveislu. Þetta væri svo góð hugmynd.

Það var sama sagan hjá foreldrum Odds sem var elstur og því fyrsta barn þeirra sem ætlaði að gifta sig, en við létum engan hafa áhrif á hvernig við sjálf vildum hafa þetta og héldum okkar striki. Tengdamamma tók ekki í mál annað en að ég fengi nýjan kjól og tók strax að sér að sauma hann og hafði hraðar hendur. Hún fékk kjólameistara sem hún saumaði fyrir í lið með sér , hvorki meira né minna en móður Sævars Karls tískukóngs, og kjóllinn var tilbúinn í tæka tíð. Fallegur látlaus hvítur kjóll.

Þetta ætlaði allt að smella saman nema hvað séra Árelíus sagðist ekki nenna að fara upp í gömlu Árbæjarkirkjuna þar sem við vildum láta gefa okkur saman og maður deilir ekki við prestinn frekar en dómarann, svo þarna urðum við að lúffa og leyfa honum að ráða.

Á fimmtudagsmorgni 25. júní 1964 klukkan tíu vorum við síðan mætt í Langholtskirkju ásamt foreldrum okkar, annarri systur minni (hin var ekki á landinu) og mig minnir að flest systkini Odds hafi verið farin í sveitina. Séra Árelíus þekkti okkur bæði enda höfðum við gengið til spurninga hjá honum og hann fermt okkur. Þarna vorum við sem sé gefin saman í heilagt hjónaband og lofuðum að verða saman þar til dauðinn skildi okkur að. Við það stóðum við.

brudarmyndin.jpg

Við skruppum svo beint til ljósmyndara og síðan buðu pabbi og mamma okkur í mat í Grillinu. Það kom okkur á óvart á meðan við vorum að borða, að þjónn kom með umslag á silfurbakka og sagðist hafa verið beðinn um að færa okkur það frá Inga Þorsteinssyni í Everest Trading. Vinnuveitendur mínir sendu okkur sem sé ríflegan gjaldeyri í brúðkaupsgjöf. Alveg einstakt hjá þeim.

Að máltíðinni lokinni fylgdu foreldrarnir okkur í rútuna og þar með hófst brúðkaupsferðin sem varð óneitanlega mjög óvenjuleg og er efni í annan pistil.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Brúðkaupið – endurminning 2. kafli

  1. Anna Sigga says:

    Þetta eru góðar minningar sem þú átt Ragna mín!
    Það er alltaf jafn gaman að „kíkja“ í heimsókn og lesa pistlana þína. Takk fyrir mig og farðu vel með þig. Kveðja. ASH

  2. afi says:

    Glæsilegt
    Þetta er glæsilegt par. Það er vel skiljanlegt að foreldrarnir hafi viljað veislu. En þetta var ykkar brúðkaup. Skil annars ekkert í Ára karlinum að vilja ekki fara með ykkur í kirkjuna sem þið völduð. ( Sr. Árelíus Níelsson fermdi afa líka.) En þá var engin kirkjan komin, bara safnaðarheimilið.

  3. Þórunn says:

    Brúðkaup
    Mikið eruð þið falleg og hamingjusöm, ungu hjónin. Þið hafið greinilega verið mjög ákveðin og fengið ykkar framgengt. Innilegar þakkir Ragna mín fyrir að fá að taka þátt í þessari upprifjun þinni.

  4. Ragna says:

    Það var líka bara safnaðarheimilið þó ég kalli það kirkju því það var jú notað sem kirkja í den. Gaman að Afi skuli líka hafa verið fermdur í þessari kirkju. Kannski verið í Langholtsskóla og Vogaskóla líka ?

  5. Sigurrós says:

    Þessi mynd hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér – þið eruð svo sæt og fín 🙂

  6. Svanfríður says:

    Mikið óskaplega eruð þið falleg á myndinni, svo brosmild og sæl enda hvað er annað hægt, nýgift, ástfangin og á leið til ÚTLANDA. Ég sit við skjáinn og brosi. Takk fyrir þetta.

  7. Linda says:

    Þið eruð stórglæsileg á myndinni, og kjólinn er æðislegur..
    Ætli hann hangi ennþá inn í skáp hjá þér??

  8. afi says:

    Séra Árelíus fermdi okkar hóp í Fríkirkjunni í Reykjavík. Við bjuggum í Kópavoginum á þeim tíma. En þessi prestur var í miklu uppáhaldi hjá mútter. Því lögðum við bræður á okkur töluvert ferðalag við fermingaruppfræðsluna. 2 – 3 strætisvagnar og eða langt labb.

Skildu eftir svar