Óvenjuleg Brúðkaupsnótt – Minningar 3. hluti.

Við mættum í rútuna í Tjarnargötunni fyrir klukkan hálf tvö full eftirvæntingar og síðan var ekið suður á Keflavíkurflugvöll. Á þessum tíma var nú engin Leifsstöð heldur var farið inn á hersvæðið og þaðan í einhvern skála sem notaður var sem flugstöð. Það voru nokkrir stólar þarna upp við vegg en ekki nærri nógu margir fyrir alla til að sitja á, enda ekki lagt upp með það í byrjun að það þyrfti að sitja og bíða eftir fluginu því þetta átti allt að smella saman.

En margt fer öðruvðisi en ætlað er. Nokkru eftir að við mættum í flugstöðina var okkur sagt að vélin væri biluð úti í Svíþjóð en það væri verið að gera við hana og hún ætti að geta verið komin svona um klukkan átta um kvöldið. Jæja ætlaði brúðkaupsdagurinn þá að fara í það að standa upp á endann í gamalli flugstöð og bíða eftir flugvél sem væri biluð úti í heimi. Það var ekki um það að ræða að fá að fara út því búið var að tékka inn í flugið. Við sáum fljótlega að það voru fleiri ung pör þarna og áður en varði vorum við búin að kynnast tveimur öðrum hjónum sem við vorum síðan mikið með alla ferðina og í mörg ár á eftir.

Þegar klukkan fór að nálgast átta um kvöldið kom önnur tilkynning. Ekki hafði enn tekist að gera við flugvélina en það ætti að reyna að finna aðra flugvél. Líklega yrði því aldrei farið í loftið fyrr en um klukkan tvö um nóttina í fyrsta lagi. Biðin var nú orðin nokkuð löng og erfið þar sem ekki voru sæti fyrir fólkið og eldra fólk hafði vitanlega forgang að sitja. Svo voru þeir sem höfðu fundið sér sæti á barstólunum en þeir voru nú orðnir alveg hundleiðinlegir eftir að hafa notað sér það óspart að kaupa ódýra drykki.

Um níuleytið var okkur sagt að við fengjum samlokur og kaffi og síðan ætti að fara með hópinn í bíó á vellinum. Frábært þá gæti maður a.m.k. sest aðeins niður. Þetta braut nú aðeins upp þessa löngu bið, en ekki gæti ég unnið mér til lífs að muna hvaða kvikmynd ég horfði á þarna á brúðkaupsdaginn minn.

Til að gera þessa löngu sögu stutta þá lengdist biðin og lengdist og út í vél var loksins farið klukkan að verða sex um morguninn og þá var spurning hvort það yrði að skilja hluta af hópnum eftir sökum ofurölvunar þeirra, sem ekki viku frá barnum allan tímann en þeir voru studdir út í vél og komið þar fyrir, nokkuð sem ekki yrði gert í dag.

Ekki var svo fararskjótinn traustvekjandi, þetta var eldgömul vél frá flugfélagi sem mig minnir að hafi heitið Flying Enterprise en þetta flugfélag fór síðan á hausin rétt eftir að við komum heim aftur og það undraði okkur ekki.
Þó þetta væri fyrsta flugferð okkar beggja þá þóttumst við vita að svona ættu góðar flugvélar ekki að líta út. Sætin voru slitin og vélin var svo óþétt að manni fannst gusta alls staðar inn og það hrikti í öllu, svo mikið að maður hélt að vélin myndi liðast í sundur . Það segi ég satt að ekki átti ég von á fleiri lífdögum en þem sem ég hafði átt fram að þeim tíma sem ég steig inn í þessa vél. En dvölin í Kaupmannahöfn var skemmtileg og heim komum við heil á húfi og góðum vinum ríkari.

En talandi um brúðkaupsnótt þá veit ég að það er ekki svona sem þeim er ætlað að vera.

————————————-

Ég er búin að leita og leita að mynd sem var tekin af okkur sofandi í flugvélinni og einhver sendi okkur síðan nafnlaust. Ég ætlaði að ganga að þessari mynd og skanna hana inn en finn hana ekki.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Óvenjuleg Brúðkaupsnótt – Minningar 3. hluti.

  1. Þórunn says:

    Brúðkaupsnótt!!
    Þetta hefur verið meiri brúðkaupsnóttin, eða ferðin í þessari lélegu flugvél. Ég hef aldrei vitað annað eins. En þegar maður er ungur og ástfanginn þá er lífið leikur einn og gott var að heyra að þið nutuð ferðarinnar og komuð heil heim.

  2. afi says:

    Minningin lifir
    Það er eins og þú segir, margt fer öðruvísi en ætlað er. En er það ekki minnistæðast sem er ekki alveg eftir kortinu? Þakka þér fyrir að fá að fljóta með. Úff satt segirðu, þetta er nú ljóta rellan.

  3. Svanfríður says:

    Þetta hefur verið meiri brúðkaupsnóttin:) En er ekki sagt að fall sé fararheill? Og þið stóðuð við heitin ykkar…skemmtileg frásögn.

  4. Linda says:

    Ég held að það sé alveg óhætt að segja að þið hafið átt allsérstaka brúðkaupsnótt og líklega hefur enginn leikið hana eftir..
    En það er þó gott að heyra að brúðkaupsferðin hafi verið farin þó svo að biðin hafi verið hálfgerð endaleysa..

Skildu eftir svar