Vorið alveg að koma.

Hvað er yndislegra á laugardagsmorgni en að vakna við sólargeislana og heyra ekki í rokinu sem verið hefur undanfarið. Maður finnur það betur og betur með hverjum deginum að vorið er alveg að ganga í garð. Það er orðið bjart svo lengi frameftir á´kvöldin og sólin kemur upp fyrr og fyrr á morgnana.
Strax og sólin hækkar á himninum styttist meira og meira biðin eftir útiverunni á pallinum og tilhlökkunin eykst. Af því tilefni fór ég í Blómaval í gær og keypti bakka til að sá í sumarblómum. Ég fann svo fína bakka með glæru loki, sem hægt er að hafa í glugga. Ég er með fræ sem ég ætla að gera tilraun til að sá. Mér finnst nefnilega orðið svo svakalega dýrt að kaupa þessi sumarblóm ef maður þarf mikið af þeim svo nú ætla ég að reyna að vera hagsýn húsmóðir og rækta þetta sjálf. Það væri nú ekki verra að fá góð ráð frá þeim sem þekkja til svona hluta því ég hef ekki sáð sumarblómum áður.

Nú er helgin björt og falleg framundan og mikið sem stendur til á morgun.
Góða helgi

gardblom.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Vorið alveg að koma.

  1. Sigurrós says:

    Af hverju sendirðu ekki eitthvað af myndunum þínum til Morgunblaðsins eða annarra blaða? Þetta er ótrúlega flott mynd af býflugunni á blóminu.

  2. Ragna says:

    Bara fyrir mig og bloggvinina
    Þakka þér fyrir að hafa svona mikið álit á mömmu gömlu en það eru aðrir miklu betri sem sjá um hitt.

  3. Sigurrós says:

    Best væri nú ef mamma gamla hefði jafnmikið álit á sjálfri sér og ég hef á henni 🙂

  4. Þórunn says:

    Vorkoman
    Það er svo góð tilfinning þegar maður finnur vorið koma. Mér finnst myndin af býflugunni og blóminu alveg frábær. Því miður get ég ekki gefið góð ráð með sáningu í potta, ég hendi fræjum út í beð og bíð svo eftir að blómin komi, ef þau gera það ekki þá fer ég í gróðrarstöðina og kaupi alveg helling af blómum fyrir 32€. Fékk tvo runna, fjórar Fuchiur og 14 sumarblóm fyrir þetta um daginn.

  5. afi says:

    Ræktun
    Hér áður fyrr ræktaði afi sín sumarblóm grænmeti, kryddjurtir og ýmislegt annað sjálfur. Bílskúrinn var notaður sem sáningarstöð. Því var komið fyrir lólmaljósum þar og auka borðum. þegar allar þessar tegundir komu upp þurfti að (prikkla) umplanta öllu saman. það var mikil vinna. Síðan var öllu komið fyrir í plast gróðurhúsi útí lóð. En þar var búið að gera hillur sem hægt var að raða öllum bökkunum í. Til að verjast næturfrostum og kulda þurfti afi að fjárfesta í stórum rafmagnsofni. Sumt af þessu var síðan plantað í potta og önnur ílát, áður en því var endanlega plantað út. Þetta varð töluverð vinna. Stundum meiri kvöð en gaman.

  6. Ragna says:

    Ég þakka góðar ábendingar. Ég verð nú ekki eins flott á þessu og þú Afi, er ekki með neinar græjur. Ég setti frækassana bara út í glugga í gestaherberginu, byrgði þá með því að setja blað yfir og verð svo bara að reyna að fylgjast með hvenær spírar og finna út hvenær passar að setja þetta í sér potta. Þetta er allavega tilraun en ég vona að eitthvað af þessu komist lifandi í garðinn í vor.

Skildu eftir svar