Gamall tími rifjast upp.

Það er stundum sem eitthvað hreyfir við minningum okkar. Svo fór fyrir mér þegar ég tók eftir því að hann Ingi Þorsteinsson væri látinn en hann var jarðsettur í dag.

Kynni mín af Inga og föður hans hófst Þegar ég hóf vinnu hjá þeim eftir að ég lauk gagnfræðaprófi. Ég var þá ákveðin í því að fara í Handavinnudeild Kennaraskóla Íslands. Það voru hins vegar aðeins teknir inn nemendur annað hvert ár og þannig hittist á að nýbúið var að taka inn nemendur og ég þurfti því að bíða í rúmt ár eftir því að komast inn.  Ég var hinsvegar svo heppin að fá vinnu hjá Inga Þorsteinssyni sem þá rak fyrirtækið Everest Trading Company  en það  flutti inn alls kyns handavinnu- og tómstundavörur. Ég átti að sjá um pantanir og innkaup á þessum vörum.  Ég er í dag alveg hissa á því að 16 ára krakka væri falin svona mikil ábyrgð en tímarnir voru aðrir og maður var eitthvað orðinn svo fullorðinn og ábyrgur á þessum aldri.

 Ég hafði unnið með skólanum við að kenna á kvöldnámskeiðum leðurútskurð og ýmis konar föndur hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur og fannst það því kjörinn starfsvettvangur að vinna hjá fyrirtækinu sem seldi allt efni til þessa föndurs, áður en ég færi í Kennaraskólann.
Til þess að gera langa sögu stutta þá var ég komin í svo gott starf, að ég fór aldrei í Kennaraskólann. Ég hef aldrei séð eftir því þar sem ég var mjög heppin með bæði vinnu og vinnuveitendur alla mína starfsævi og hefði ekki getað haft það betra þó ég hefði orðið handavinnukennari.

Á þessum tímamótum þegar Ingi Þorsteins er allur þá fór ég að rifja upp ýmislegt sem á dagana dreif þann tíma sem ég vann þarna í gamla virðulega húsinu í Grófinni 1, í hjarta Reykjavíkur.

Hver veit nema ég deili með ykkur fleiri minningum ungu stúlkunnar sem hóf þarna störf árið  1962.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Gamall tími rifjast upp.

  1. afi says:

    Heppin
    Það hefur verið mikið lán hjá ungu stúlkunni að lenda hjá svona góðum atvinnurekendum. Og hún býr að því enn þann dag í dag.

  2. Þórunn says:

    Liðin tíð
    Það er mikið lán að lenda hjá góðum vinnuveitendum. Maður sér það eftir á hvað það hefur þroskað mann og hjálpað gegnum lífið. Eitt leiddi af öðru. Það er notalegt að líta til baka og rifja upp góðar minningar.

  3. Svanfríður says:

    Minningar eru lífið.

  4. Gurrý says:

    Já, á þessum tíma voru hæfileikar fólks frekar metnir heldur en prófskírteini. Nú þykir það nauðsynlegt að hafa fyrst prófið, aðrir tímar..

Skildu eftir svar