Góðir dagar í Dymbilviku.

Þessi vika hefur verið góð og skemmtileg, byrjaði með skírninni á sunnudag og síðan erum við Haukur búin að vera á alls konar flakki, fá góða gesti og heimsækja skemmtilegt fólk.

Nú er skólafríi hjá krökkunum svo amma gamla á líka alveg frí. Nú bíð ég ekkert fyrir utan skólann í hádeginu eða ek til og frá íþróttahúsinu eða til kóræfinga í kirkjunni. Haukur er búinn að vera í frí síðan á sunnudag en fer að vinna aftur aðra nótt. Við höfum notað tímann vel og skroppið út og suður okkur til ánægju.

Í gær fengum við svo góða heimsókn þegar foreldrar Magnúsar Más, sem hafa verið í bústað á Flúðum síðan fyrir síðustu helgi komu og borðuðu með okkur kvöldmat. En í dag héldu þau svo aftur norður yfir heiðar. Það verður erfitt hjá þeim að vera svona langt frá nýja barnabarninu sínu honum Ragnari Fannberg. Það eru ekki allir eins heppnir og ég að hafa barnabörnin nærri því í bakgarðinum.

Ég gleymdi auðvitað, eins og svo oft þegar einhver kemur í heimsókn, að taka myndir en í dag tók ég mynd af fallegu blómunum sem þau Magnús og Ragna færðu okkur í gær.

paskablom.jpg

Veðrið var svo yndislega fallegt í dag að við Haukur ákváðum eftir hádegið að skreppa og heimsækja Rut systurdóttur mína og Smára í sumarbústaðinn þeirra. Þegar maður er staðsettur hérna á Selfossi þá tekur ekki nema svona korter að fara í heimsókn til þeirra sem eru í Grímsnesinu og þar í kring.
Það er alltaf svo skemmtilegt að koma til þeirra Rutar og Smára og þau eru búin að gera svo fallegt í kringum sig bæði úti og inni. Það var gaman að sjá hvað gamla sófasettið hennar mömmu sómir sér vel í stofunni hjá þeim og saumavélina sína hefur Rut á gamla eldhúsborðinu hennar ömmu sinnar.

Hér ræða þeir málin Haukur og Smári

raeda_malin.jpg

Svo hringdi Guðbjörg og sagði að þau Magnús væru í bökunarstuði og okkur væri boðið í miðdegiskaffi og eplaköku þegar við kæmum aftur á Selfoss.

Við vorum því mætt í þetta fína eplaköku og skonsukaffi um fjögurleytið og hér er mynd af bakaranum í Grundartjörninni

bakarinnjpg.jpg

Svo vorum við bara í letikasti þegar við komum heim, settumst í Lazy boy og fórum að horfa á Dr. Phil sem enn einu sinni var að taka á vandamálum fólks. Í þetta sinn var eiginkona búin að gera manninn sinn gjaldþrota með því að geta ekki án þess verið að versla og versla og því betur leið henni sem hún keypti dýrari merkjavöru og meira og meira af henni og þó að þau væru um það bil að missa húsið sitt þá gat hún ekki fengið sig til að hætta að nota öll þessi frábæru kreditkort sem hún hafði undir höndum. Svo var það eiginmaðurinn sem keypti allt sem hugurinn girntist af tölvum og tækjum og tilheyrandi leikjum bæði fyrir sig og börnin en það var daglegt brauð að lokað væri fyrir rafmagnið hjá þeim og símann því hann geymdi alltaf að greiða reikningana sem söfnuðust upp því það var miklu skemmtilegra að nota peningana í annað. Ég segi bara aumingja fólkið að vera ekki heilbrigðara en þetta, enda fengu þau að heyra það hjá honum Dr. Phil að svona ætti forgangsröðin í lífinu ekki að vera.

Það má eiginlega segja að það hafi verið honum Dr. Phil að kenna að við gleymdum svo alveg að elda mat enda pakksödd af fíneríi kaffitímans og Haukur vildi endilega sækja handa okkur Pizzu. Ég lét tilleiðast í þetta sinn að samþykkja Pizzu en það er ekki matur sem er oft á borðum hér.

Nú situr Haukur að horfa á Zorro í danska sjónvarpinu og ég sá mér leik á borði að setjast við tölvuna á meðan. Ef ég set ekki inn fleiri pistla fyrir páska þá óska ég ykkur

GLEÐILEGRA PÁSKA.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Góðir dagar í Dymbilviku.

  1. Þórunn says:

    Að njóta lífsins
    Þakka þér fyrir þennan góða pistil Ragna mín, mikið er gaman að heyra hvað þið eruð dugleg að njóta lífsins. En þetta væri ekki svona gaman og áhyggjulaust hjá ykkur ef þið hefðuð hagað ykkur eins og fólkið í sjónvarpsþættinum. Innilegar óskir um Gleðilega Páska.

  2. afi says:

    Njótið þess að vera til.
    Gaman þegar vel gengur. Gleðilega páska.

  3. Linda says:

    Gott hjá þér að laumast í tölvuna, af því að við bloggvinirnir njótum góðans..

    Gleðilega Páska elsku Ragna og fjölskylda.

Skildu eftir svar