Bíltúr í góða veðrinu.

Haukur stakk upp á því eftir hádegið í dag að við færum í bíltúr og héldum áfram að skoða ýmsa aukavegi frá þjóðveginum. Við ókum fyrst inn afleggjara af Suðurlandsveginum sem heitir Ölvisholt, mjög fallegt þar og mikið verið gróðursett af greni. Síðan ókum við hringinn hjá Sumarliðabæ að Vegamótum, en þangað hef ég ekki komið fyrr en heyrði oft talað um Sumarliðabæ hjá tengdamömmu í gamla daga því frænka hennar bjó þar. Maður sá bæinn tilsýndar af þjóðveginum en það er svo oft sem maður er á leiðinni frá A til Ö og hugsar bara um það eitt, en gefur sér ekki tíma til að skoða allt sem er þar á milli. Þið kannist örugglega við þetta.

Þegar við vorum búin að skoða þá smávegi og afleggjara sem við áttum eftir að skoða þá vorum við komin austur að Hellu og getum nú sagt að við séum búin að aka heim að hverjum bæ frá Hveragerði að Hellu. Við höfum svona smám saman verið að afgreiða þetta með smábíltúrum.
Þar sem Haukur elskar að fara inn á kaffihús og kaupa tertu og kaffi þá fórum við í Kaffi Árhús við Hellu og fengum okkur kaffi og þessa líka fínu tertu með. Það er virkilega gaman að sitja á þessu kaffihúsi og horfa yfir Rangána, eins og þið sjáið hérna á myndunum fyrir neðan og svo eru myndirnar hér. í albúminu mínu.

Útsýnið yfir Rangána fallegt.

rangain.jpg

Haukur nýtur útsýnisins á meðan við biðum eftir kaffinu.

haukur.jpg

Á heimleiðinni skoðuðum við Urriðafoss í Þjórsá.

urridafoss.jpg

Síðan rákumst við á þetta gamla tæki sem við erum ekki viss til hvers hefur verið notað.

gamla_velin.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Bíltúr í góða veðrinu.

  1. Sigurrós says:

    Það er alltaf hægt að treysta á Hauk með að vera í stuði fyrir kaffi og köku 😉

  2. afi says:

    Áfram veginn.
    Ekki skemmir myndskreytingin. Oft er það nú þannig að við brunum áfram veginn, án þess að líta til hægri eða vinstri.

  3. Linda says:

    Mikið rosalega ertu alltaf fín á myndum Ragna. Stórglæsileg kona.

    Stórkostlegar myndirnar þínar..

    Ég var nú einmitt að hugsa um það að maður þekkir ekki landið sitt nógu vel, maður fer í ferðalög og brunar í gegnum bæji, gil og gljúfur en hefur kannksi ekki hugmynd um hvar maður er..
    Þess vegna var svo gaman að ferðast með langafa mínum, hann vissi nafnið á hverjum bæ og hverri þúfu og sagði sögur af þeim líka. Hann vissi meira að segja hvaða læk við myndum keyra framhjá næst.. Hann var ótrúlegur fróðleiksbrunnur..

    Hafðu það gott Ragna mín og takk fyrir rúntinn..

  4. Svanfríður says:

    dugleg
    Þið eruð svo dugleg að taka ykkur smárúnta um umhverfið og njóta ykkar. Enda á maður að reyna að njóta hversdagsleikans ekki satt? En íslenska náttúran er unaðsleg það sér maður á myndunum þínum.

  5. Ragna says:

    Já, íslenska náttúran er yndisleg hvort sem er sumar, vetur vor eða haust. Hver árstíð hefur sinn sjarma og núna kann maður að meta það að skoða hana hver svo sem árstíðin er. Hérna áður fyrr var ekkert verið að fara í bíltúra upp í sveit nema á sumrin.

  6. Þórunn says:

    Bíltúr og kaffi.
    Hvað er betra en að setjast inn á huggulegan veitingastað þegar maður er búinn að aka um sveitirnar. Og útsýnið frá þessum stað er alveg frábært, maður fer að þekkja landið sitt betur eftir að hafa ferðast með ykkur Hauki, lesið frásögn þína og skoðað myndirnar. Næstum því eins og að hafa verið í aftursætinu hjá ykkur. Takk fyrir mig.

Skildu eftir svar