Góðir og skemmtilegir dagar.

Laugardagurinn var ósköp rólegur hérna í Sóltúninu. Ég notaði hann nú aðallega til þess að leika mér með saumavélina mína og tuskurnar. Ég þurfti síðan að skreppa aðeins út í Nóatún eftir hádegið, það er að segja ég hélt að það yrði bara að skreppa, en svei mér þá ég held að a.m.k. helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins hafi verið kominn í Nóatún á Selfossi því hvílíkur var mannfjöldinn. Bílastæðið var fullt, en loksins eftir nokkra hringi náði ég að koma litla Polonum mínum fyrir innan um alla stóru jeppana og afrekað síðan að komast í búðina og kaupa það sem vantaði. En þá fyrst reyndi nú á þolinmæðina að bíða við kassann með þessa tvo hluti sem ég var að kaupa, á meðan fólk með yfirfullar innkaupakerrurnar tíndi hvern hlutinn af öðrum upp úr körfunum sínum og sumum dugði ekki ein innkaupakarfa heldur ók einni fyrir framan sig og dró aðra á eftir sér. Ég býst við að þarna hafi sumarbústaðafólkið verið að kaupa í hátíðamatinn. En þegar þarna var komið sögu var bara smávegis eftir af laugardeginum og síðan páskadagur og annar í páskum eftir af þessum hátíðisdögum. Ja hérna mikill er máttur Mammons.

Mér var síðan boðið í kjötsúpu í Grundartjörnina um kvöldið, ekki slæmt það :).

Páskadagurinn rann upp bjartur og fallegur eins og mér finnst allir páskadagar hafa verið í minningunni.

Fjölskyldan úr Grundartjörninni kom í kaffi síðdegis og síðan litu Edda systir og dæturnar aðeins inn til þess að sjá hann litla Ragnar Fannberg frænda sinn.

img_1464.jpg

Síðan komu Sigurrós og Jói austur og við borðuðum síðan öll saman hérna í Sóltúninu.

paskar2.jpg

Eftir kvöldmatinn fóru svo páskagestirnir að tínast heim en sumir harðneituðu að fara og báðu um gistingu. Það var nefnilega svo gaman að spila spilið sem Sigurrós var að kenna þeim.

paskar3.jpg

Það var nú auðsótt mál að leyfa svona góðum gestum að vera nóttina hjá ömmu. Svo var voða gaman hjá okkur í morgun þegar þau komu uppí rúm hjá ömmu með bókina hans Stefáns Jónssonar "En hvað það var skrítið" og við skemmtum okkur við að lesa öll skrítnu kvæðin í bókinni.

Eftir hádegið langaði Odd síðan að leika við vin sinn en við Karlotta ákváðum að skreppa út í Eden og fá okkur ís og skoða mannlífið.

Nú eru þessir páskar liðnir og skóli og annað tekur við á morgun.

Já, það er ekki ofsögum sagt að þetta hafa verið góðir og skemmtilegir dagar.

Aðrar myndir hér

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Góðir og skemmtilegir dagar.

  1. Svanfríður says:

    Páskar
    Páskahelgin hefur verið þér og þínum góð sýnist mér en þannig á það nú að vera. Myndin er yndisleg þar sem allir kjá framan í drenginn-ég horfði lengi á hana. Hafðu það gott Ragna.

  2. afi says:

    Páskabörn.
    Fullt hús af börnum og góðir gestir. Hvað er hægt að hugsa sér það betra?

  3. Þórunn says:

    Páskar
    Ég segi eins og Svanfríður, ég skoðaði myndina lengi af konunum að kjá framan í Ragnar, svipurinn á þeim er svo skemmtilegur og sjá svo stolta pabbann standa fyrir aftan, myndin er óborganleg. Þetta hefur allt verið yndislegt hjá ykkur.

Skildu eftir svar