Mannlífið skoðað.

Já það má nú segja að sumarið hafi komið í dag. En sá sem kom fyrstur og gaf ömmu svo fínt sumarbros var Ragnar litli Fannberg sem fékk að vera hjá ömmu á meðan mamma fór með Karlottu á tónleika hjá Tónlistarskólanum en þar spilaði hún á fiðluna sína. Oddur þurfti að mæta upp í skóla til að fá reiðhjólahjálminn afhentan á sama tíma og Bjarki átti að mæta á æfingu í Þorlákshöfn svo það varð að skipta liði. Mikið að gera stundum á stórum heimilum. Síðan smá pússlaðist þetta nú saman nema hvað Magnús Már þurfti að sitja yfir próflestri í góða veðrinu í dag. Það var því ákveðið til þess að hann hefði frið og ró, að vera í Sóltúninu en leyfa honum að vera heima við lesturinn.

Ragnar litli var voða góður hjá ömmu og steinsvaf þegar mamma, Karlotta og Oddur Vilberg komu um hádegið. Við fengum okkur snarl saman og krakkarnir fóru svo aðeins út á pallinn að leika sér. Guðbjörg mundi svo eftir því að það var auglýst einhver uppákoma fyrir krakka í Eden svo við ákváðum að fara þangað. Við höfðum Ragnar í vagninum svo hann væri betur varinn fyrir margmenninu. Þetta er fyrsta ferðin hans í svona margmenni.

Það var mjög gaman að koma í Eden og fullt af fólki. Krakkarnir hittu krakka sem þau þekktu og síðan kom Solla Stirða úr Latabæ og trúður var þarna á flakki svo þau stóru krakkarnir hurfu út í buskann og við settumst niður og fylgdumst með mannlífinu með Ragnar steinsofandi í vagninum. Það er oft svo gaman að sitja bara og fylgjast með því sem er að gerast í kringum mann. Eftir að Guðbjörg bauð okkur upp á veitingar þá fórum við aftur heim á Selfoss.

Það var nú farið að líða á daginn og Guðbjörg og krakkarnir fóru til að athuga með próflesarann og til að elda kvöldmatinn. Ég afþakkaði gott boð um kvöldverð því ég var búin að ákveða að elda mér eitthvað úr fiski í kvöld og gerði það.

——————————-

Stundum finnst manni svo gott að eiga tíma bara fyrir sig einan, en þegar maður er einn í kotinu þá vantar oft svo mikið – aldrei hægt að gera manni til hæfis. Þrátt fyrir eirðarleysi núna eftir kvöldmatinn þá horfði ég á umfjöllun norðurlandaspekinganna um Evrovision en engan veginn nenni ég að festa mig við þessa gömlu amerísku mynd sem verið er að sýna í sjónvarpinu svo tölvan hafði vinninginn og ég ákvað að halla mér að dagbókinni minni.

Ég stóð upp áðan og tók mynd í átt að Heillisheiðinni af fallega sólarlaginu og með henni segi ég

Góða nótt

img_1554.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Mannlífið skoðað.

  1. afi says:

    Sól í Eden.
    Er hægt að hugsa sér það betra en eitt svona sólskinsbros. Það er bjartara en sólin. Já sumarið er komið.

  2. gulla says:

    takk
    Þú ert góð amma segir amma Eyjólfs snúðs í Ameríku. Þig vildi ég gjarnan hitta einhverntímann. Ömmukveðjur frá hornfiskri móður Svanfríðar og ömmu æðsta snúðs.

  3. afi says:

    Ömmur
    Hvernig væri þessi heimur, ef ekki væru þessar góðu ömmur?

  4. Ragna says:

    Góðar ömmur
    ……og afar. Ég veit að við erum öll hugsandi fólk og viljum barnabörnunum okkar það besta. Kannski eru þau heppin að við erum af allt annarri kynslóð og þekkjum líklega öll tímana tvenna. Mér finnst ég svo ósegjanlega heppin að hafa tækifæri til þess að geta hitt barnabörnin mín daglega og vera vinur þeirra. Ég sé ekki eftir því að flytja úr borginni til þess arna. Það er erfiðara hjá ykkur afa og Hornafjarðarömmunni að eiga barnabörnin í öðrum löndum.
    Ég sendi ykkur góðar kveðjur.

Skildu eftir svar