Sumarið að koma fljúgandi.

Ég hef nú svo sem ósköp lítið að segja núna, en ætla að gamni að láta eina sögu af ömmustubbnum fylgja.

Öll 7 ára börn fá gefins reiðhjólahjálma í skólanum í fyrramálið. Oddur Vilberg er mjög spenntur því hann verður 7 ára á árinu og fyllir því þennan hóp. Það kom spurningalisti heim með ýmsum spurningum varðandi börnin og umferðina og ég var hjá þeim í gær þegar Guðbjörg var að spyrja Odd spjörunum úr. Hann var yfirleitt snöggur að svara eins og t.d. í þessu tilviki.

"Mega 7 ára börn hjóla úti í umferðinni?" Svarið hans kom um hæl.

" Nei, en ég má það því ég er 6 ára".

Ég vildi að ég hefði getað smellt mynd af honum þegar hann sagði þetta því glettnisglampinn í augum hans var alveg óborganlegur og hann leit sigri hrósandi á mömmu sína.

Hann var fljótur að finna veikleikann í spurningunni og notfæra sér hann.

—————

Veðurspá helgarinnar er alveg rosalega góð, spáð allt að 18°hita á sunnudaginn og sól, svo ég hlakka mikið til að taka fram sólstólana og annað sem á pallinn á að fara og halda þar til. Það kæmi mér ekki á óvart að einhverjir kæmu þá í göngutúr í Sóltúnið, aðrir hjólandi og enn öðrum verði ekið í barnavagni. Ég fékk eina svona heimsókn í dag – alltaf jafn skemmtilegt og ekki verra þegar hægt verður að drekka úti á palli. En, nú óska ég ykkur öllum nær og fjær

Góðrar helgar.
Þessari kveðju fylgir mynd af þessum yndislegu blómum

sem vinir minir Birgit og Hreinn færðu mér um daginn.

blom_birgit_hreinn.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Sumarið að koma fljúgandi.

  1. Magnús Már says:

    Sumarhiti ???
    Ég get eiginlega ekki tekið undir þessa tilhlökkun vegna 18 stiga hitans næsta sunnudag þegar ég þarf að húka inni við próflestur. En það verður gaman að stökkva út í góða veðrið þegar prófunum lýkur.

  2. afi says:

    Hár aldur
    Það er aldeilis munur að vera orðinn 6 ára.

  3. Svanfríður says:

    Það virðist semsagt ekki vera hægt að kveða þann stutta í kútinn eða svo sýnist mér. Gott svar hjá honum. Góða helgi Ragna mín.

  4. Gurrý says:

    Það sem dettur útúr krökkum stundum getur verið svo skondið..falleg blómin sem þú fékkst, var það í tilefni afmælis? Hef greinilega misst af einhverju. 18 stiga hiti??? Það eru 18 stiga hiti hér í Amman í dag 🙂

  5. Ragna says:

    Góðir vinir.
    Nei,nei Gurrý mín þú hefur ekki misst af neinu. Ég átti ekki afmæli. Þetta eru bara svo góðir vinir sem ég á og það er orðið langt síðan þau hafa komið austur til að heimsækja mig. Hreinn og Oddur heitinn voru góðir vinir frá því þeir byrjuðu saman í barnaskóla svo pússluðumst við saman sem kærustupör á svipuðum tíma og vinskapurinn heldur þó Oddur sé farinn.

Skildu eftir svar