Nóg að gera um helgina

Ég átti að skila kærri kveðju til ykkar frá Hauki og þakka ykkur fyrir afmæliskveðjurnar.

Það hefur sko verið nóg að gera hjá mér. Við Haukur héldum áleiðis til borgarinnar um hádegi á föstudag með bæði afmælistertur og barnabörnin. Það var reyndar af öryggisástæðum aðskilið svo Haukur tók afmælisterturnar í sinn bil og ég barnabörnin sem voru að fara til pabba síns í bílinn hjá mér. Það voru reyndar góð býtti því það var svo gaman hjá okkur það var nefnilega sungið alveg út í eitt alla leiðina.
Þegar ég var búin að skila krökkunum í Kópavoginn þá hélt ég í Skipholtið til að fara í klippingu og annað snurfus og svo beint upp á Austurbrún. Við Haukur skruppum svo aðeins inn í Kringlu og síðan bauð hann mér í mat í Laugaás og eftir það þurftum við að hafa hraðar hendur til þess að leggja lokahönd á afmælisboðið, en Haukur hafði boðið systkinum sínum að koma í kvöldkaffi.

Haukur sagðist hafa lofað bróður sínum að hann myndi baka lummur eins og þær voru bakaðar heima hjá þeim í gamla daga svo hann dreif í því rétt áður en gestirnir komu. Þessar lummur eru sérstakar að því leyti að þær eru steiktar upp úr tólg. Það var því nokkuð ævintýralegt þegar hann var að baka þetta því íbúðin fylltist af brælu og reykskynjarinn pípti og pípti þangað til við náðum honum loksins niður (sem ekki var auðvelt) og rifum batteríið úr. Allt fór þetta nú vel og austfirðingarnir dásömuðu lummurnar. Ég held hinsvegar að þetta sé eitt af því fáa sem ég get bara alls ekki borðað, því þó mér finnist lummur steiktar í smjörlíki góðar þá get ég ekki sætt mig við tólgarbragðið. Ég var sem sé alveg í minnihluta hvað lummurnar varðaði. En nóg um það. Ein systir Hauks hringdi og sagði að þau yrðu aðeins í seinna lagi. Hún hringdi svo aftur klukkutíma seinna og spurði hvort afmælið hefði ekki átt að vera í kvöld. Hún væri búin að hamast á dyrabjöllunni og engir bílar á planinu – ekkert lífsmark. Æ,æ,æ hún hélt að afmælið yrði á Selfossi en þar var auðvitað ekki nokkur sála til þess að taka á móti þeim í afmæli. það er svona að eiga heima á tveimur stöðum og ýmist talað um austur eða Austurbrún. Þegar hún var svo loksins komin á rétta staðinn þá sagðist hún vilja frá skriflegt boðskort næst, en ég dáðist að því að hún skyldi koma og ekki vera neitt fúl yfir því að vera búin að keyra í tvo klukkutíma í staðinn fyrir korter.

Seinna um kvöldið kom Sigurrós og hún fór svo með mér austur því við mæðgurnar þrjár ætluðum að vera saman á laugardaginn en Haukur varð eftir því stelpurnar hans ætluðu að líta inn til hans á Austurbrúnina daginn eftir og svo er hann að byrja í vinnusyrpu núna um helgina.

Ég sé að þetta er að verða svo langt hjá mér að ég verð bara að hafa framhald enda klukkan orðin all svakalega margt núna og best að koma sér í rúmið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Nóg að gera um helgina

  1. Svanfríður says:

    Gott að afmælisbarninu þóttu lummurnar góðar. Ég sé ykkur í anda stríða við bræluna og reykskynjarann:) Góðar stundir, Svanfríður

  2. Linda says:

    Lummur og tólg.. alltaf heyrir maður eitthvað nýtt.. (ég fæ illt í bragðlaukana við tilhugsunina en þú mátt ekki segja það við Hauk)..

    Sendi þér bestu kveðjur yfir hafið..

  3. Ragna says:

    hamingjuóskir
    Sæl nafna mín og kærar þakkir fyrir síðast.Ég var að kíkja á bloggið þitt núna áðan og sá að hann Haukur hafði átt afmæli þann 11. og eg bið þig að skila innilegum afmæliskveðjum frá okkur Magga og þú mátt smella einum á kinnina frá mér.Kær kveðja Ragna á Ak

Skildu eftir svar