Konuhelgin

Já það var konuhelgi hjá okkur mæðgum en hann litli nafni minn fékk þó að ver með okkur. Magnús Már var í fjallgöngu á Þríhyrning með kennurunum í Vallaskóla og Jói var skilinn eftir í Kópavoginum. Þið getið lesið um fjallgönguna hans MM hér og skoðað myndirnar úr fjallgöngunni.

Við Sigurrós byrjuðum laugardaginn á því að fara í Grundartjörnina með nýbakað brauð úr Vilbergsbakaríi og drukkum með þeim Guðbjörgu og Magnúsi Má morgunkaffið. Síðan skiptust leiðir og Magnús fór í kennaraferðina en við konurnar og sólargeislinn byrjuðum á því að fara í Kjarnann og síðan í Sóltúnið þar sem við grilluðum saman um kvöldið eftir að hafa haft það huggulegt hérna yfir daginn og horft á myndband úr ferð Sigurrósar og Jóa í brúðkaup hollenskra vina í fyrrasumar. Það er gaman að sjá hvað það eru mismunandi siðir í hverju landi. Sigurrós og Jói eru búin að vera að klippa þetta myndband í vetur og setja inn valda tónlist og fleira svo það var reglulega gaman að horfa á þetta.
Eftir kvöldmatinn horfðum við svo á myndina Maid in Manhattan sem er svona í anda Pretty Woman sem við mæðgur höfum oft horft á saman.

Við skiluðum þeim Guðbjörgu og litla nafna heim um tíuleytið og skömmu seinna kom Magnús Már úr ferðalaginu sínu svo þetta passaði allt.

Ég keyrði Sigurrós svo heim á sunnudaginn og fór á Austurbrúnina. Það voru gestir hjá Hauki svo ég fékk mér kaffisopa með þeim og um fjögurleytið voru gestirnir farnir svo við fórum  í Ráðhúsið til að ná í restina af harmonikutónleikum sem þar voru. Síðan röltum við út á Austurvöll og skoðuðum gömlu ljósmyndirnar og svo var komið að því að Haukur þyrfti að fara að undirbúa næturvaktina með því að  sofa í nokkra klukkutíma og ég ók heimleiðis yfir Hellisheiðina.

Þannig lauk nú þessari skemmtilegu helgi.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Konuhelgin

  1. Sigurrós says:

    Já, það var sko gaman hjá okkur! 🙂 Takk fyrir mig!

Skildu eftir svar