Aðeins meira, svo lofa ég að hætta.

Þá er þessi blessuð Evróvision keppni að baki. Aldrei áður hef ég orðið vitni að annarri eins móttöku á keppanda á sviði og Sylvíu Nótt nú. Í staðinn fyrir fagnaðarlæti þegar hún kom inn þá baulaði salurinn á hana og í lokin var ekki minna baulað. Hverju hefur nú allt glamorið og þessi dýra umgjörð skilað. Miklu minna en engu. Breski keppandinn sagði eftir að úrslitin lágu fyrir, að Sylvía Nótt hefði vanvirt keppnina með framkomu sinni. Alveg er ég honum hjartanlega sammála. Gerfið hennar var miklu meira en venjulegir stjörnustælar. Það var sko ekki dregið úr "fock you" út og suður fyrir utan allan hinn dónaskapinn sem hún jós yfir viðstadda hvar sem hún kom, fyrst hér heima og síðan margfalt við undirbúning keppninnar erlendis. Svo er fólk bara hissa og vonsvikið yfir því að við skyldum ekki komast áfram. Hvað höldum við eiginlega að við séum. Mér dettur í hug þegar krakkar eru að leita eftir athygli og beita til þess öllum brögðum bæði góðum og slæmum.

Maður vonaði að þegar hún færi út til keppninnar myndi hún draga örlítið úr mesta dónaskapnum. Þetta gerfi gat kannski verið allt í lagi, miðað við keppnina eins og hún er orðin í dag, ef það hefði ekki verið keyrt af slíkri hörku að það gekk svo gjörsamlega fram af öllum. Hann Magnús Már tengdasonur minn kemur svo vel orðum að þessu á síðunni sinni  "Umbúðir án innihalds"     

Ég er hinsvegar ekki í vafa um að þessi glæsilega stúlka og ágæta lagið sem hún söng hefði getað unnið hug og hjörtu áheyrenda/áhorfenda ef hún hefði ekki verið í þessu ýkta tilbúna dræsugerfi. Það væri fróðlegt að vita hvort söngkonunni Ágústu var í sjálfsvald sett hvernig hún skapaði og lék persónuna Sylvíu Nótt, eða hvort hún lék þetta eftir annarra handriti og stjórn.

Hér set ég punktinn í þessu máli og sný mér að skemmtilegri hlutum, en mín allrabesta æskuvinkona ætlar að koma til mín í dag og vera um helgina. Það er alltaf svo gaman að hittast, rifja upp gamlan tíma og verða aftur litlar stelpur.

Ég óska ykkur öllum

GÓÐRAR HELGAR

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Aðeins meira, svo lofa ég að hætta.

  1. Edda GG says:

    Sammála
    Þér er heitt í hamsi Didda mín eftir þessa uppákomu í Aþenu. Jú, ætli það sé ekki stefnan – með góðu eða illu – allt fyrir athyglina. Ég hef trú á að Sylvia leiki eftir handriti, greyið að fá svona leiðinlegt hlutverk.
    Vinkona þín er mjög spennt og hlakkar mikið til að koma til þín í dag, við verðum ekki lengi að koma okkur í „gamla gírinn“.
    þín Eddagg

  2. LInda says:

    Ég held að vanvirðing sé alveg rétt orð í þessu sambandi..
    Ég horfði á þessa keppni á netinu, og fann þegar ég byrjaði að síga niður í sætinu, svo mikið skammaðist ég mín.. ég var hálf fegin að Clarence var í vinnunni og þurfti því ekki að sjá þessa framkomu Íslendingsins og heyra púið frá hinum þjóðunum..
    Það er ekki oft sem að ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur en á þessum tímapunkti roðnaði ég alveg niður í tær..
    En nóg um það..

    Ég vona að þið vinkonurnar skemmtið ykkur rosalega vel um helgina..
    Góða helgi Ragna mín.

  3. Ragna á Ak says:

    Ég er svo hjartanlega sammála „nöldrinu þínu“ undanfarið og í sambandi við þetta síðastnefnda í Aþenu, að koma fram fyrir Íslands hönd með dónaskap og gífuryrði og undrast svo að aðrir skuli ekki skilja “ grínið“, en ég vona að blessuð stúlkan á bak við gervið komist heil frá þessum ósköpum og langt í frá að hægt sé að kenna henni einni um því hópur fólks hefur greinilega komið að þessari sköpun allri.Svo er það allur hópurinn sem greiddi þessu atkvæði í undankeppninni það væri gaman að vita á hvaða aldri hann hafi verið? kveðja Ragna á Ak

  4. Sigurrós says:

    Ég er mesthissa á fólkinu sem varð hissa yfir að hún kæmist ekki áfram. Við vinahópurinn vorum hæstánægð með lagið og framsetninguna á sviðinu, en við vorum líka raunsæ og bjuggumst ekki við að komast áfram. Mér finnst leiðinlegt hvað Silvía var dónaleg úti, við tæknimenn og aðra, en mér finnst sniðugt hvernig hún einmitt er að leika þessa persónu sem er eingöngu „umbúðir án innihalds“. Persónan er skopstæling á heilalausum gellum eins og Paris Hilton o.fl. Í atriðinu sínu í gær tók hún einmitt allar þessar klisjur sem hinir nota í alvöru og gerði grín að þessu öllu saman. Og þrátt fyrir allt, þá verð ég að viðurkenna að ég vil frekar senda skopfígúru sem gerir grín að hlutunum heldur en að vera eins og Andorra sem sendir hórustelpur á undirfötum og gerir það í fúlustu alvöru!

Skildu eftir svar