Góðir gestir farnir heim.

Ég hef haft góða gesti í heimsókn í nokkra daga og þess vegna ekki haft nokkurn tíma til að líta á tölvuna. Þetta voru þau Angela og Alick góðir vinir mínir frá Englandi. Þau komu síðast til okkar Odds heitins fyrir 26 árum og létu nú loks verða af því að koma til Íslands aftur. Við sóttum þau til Keflavíkur á föstudagsmorgni 4. ágúst og byrjuðum á því að fara í morgun/hádegisverð til Sigurrósar og héldum síðan áfram austur. Seinni part dagsins kom svo Grundartjarnarfjölskyldan og við borðuðum saman kvöldverð hérna. Þau hjónin höfðu sagt að það eina sem væri á listanum þeirra yfir það sem þau langaði að gera væri að vera með fjölskyldunni. Við höfðum planað að grilla öll saman á laugardagskvöldið en Sigurrós og Jói komu austur á laugardeginum. Ekki viðraði til þess að grilla og ausrigndi svo að matreiðslan á lambakjötinu fór fram á annan hátt en þann að sitja úti á palli í sólinni og grilla í góða veðrinu. En, lambakjötið svíkur aldrei og við áttum góðan dag þrátt fyrir rigninguna.

Eitt kvöldið snæddum við á Hafið bláa

hafidblaa.jpg

Þau bjuggu hérna hjá mér þessa fimm sólarhringa sem þau stoppuðu. Ekki gátum við nú fylgt þeirri áætlun sem ég hafði gert ramma að áður en þau komu því blessað veðrið sveik eins og fyrri daginn og rigningarsúldin lá hér yfir öllu svo lítið var hægt að sýna af útsýninu og ekkert hægt að sitja úti á palli og slappa af.
Þó fengum við ágætisdag á sunnudaginn til þess að fara til Reykjavíkur og skoða þær breytingar sem orðið hafa á borginni á þessum 26 árum sem eru frá síðustu heimsókn þeirra. Sigurrós hitti okkur í Perlunni eins og hún segir frá á blogginu sínu og auðvitað tók hún fullt af myndum í borgarferðinni.

Við náðum líka þrátt fyrir allt, að komast í gönguferð á Hellisheiðinni ( Reykjadal), sem Magnús Már hafði skipulagt fyrir okkur en við héldum að veðrið ætlaði ekki að gera okkur það fært. Magnús Már er líka búinn að blogga um þessa daga og setja inn myndir. Það var notalegt að koma til Guðbjargar beint úr gönguferðinni í nýbökuð horn og kaffi, en kvöldið áður voru þau Magnús Már búin að bjóða okkur öllum í kvöldmat.

Hér erum við á gönguleiðinni á Hellisheiðinni.

aa2.jpg

Hér erum við á Kaffihúsi við Rangána eftir að kíkja í Sælukot þar sem
föðurfjölskylda stelpnanna minna var með Verslunarhelgarmót.

aa3.jpg

Á þriðjudeginum eftir verslunarmannahelgina þá fór ég með þau út í Hveragerði til þess að sýna þeim sprunguna í gólfinu á Bókasafninu og leyfa þeim að fara í jarðskjálftaherminn til að upplifa suðurlandsskjálftann. Þau voru agndofa yfir því að fá tækifæri til þess að upplifa svona jarðskjálfta án þess að vera í neinni hættu sjálf. Eftir jarðskjálftann skruppum við austur í Vaðnes þar sem við kíktum inn hjá systur minni og mági í fallega sumarhúsið þeirra og drukkum þar kaffi og fengum góðar íslenskar kleinur með. Þegar við komum heim hafði Haukur svo bakað stafla af pönnukökum og þeytt rjóma.

Ég verð að játa að ég var svolítið (svoldið mikið) lúin þegar við höfðum ekið þeim aftur út á flugvöll og spennufallið sagði svo til sín og ég varð bókstaflega örmagna af þreytu og nennti engu þegar við komum heim. Nú er ég þó alla vega orðin bloggfær aftur.

Hér eru svo allar myndirnar mínar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Góðir gestir farnir heim.

  1. Þórunn says:

    Gestagangur er góður gangur
    Mikið er gott að sjá þig aftur á netinu Ragna mín, ég sé að þú hefur gefið gestunum fiskisúpuna þína góðu, hún svíkur engan. Það hefur verið í nógu að snúast og stanslausar uppákomur hjá ykkur. Það er sko hægt að hafa það gott með góðum gestum þó veðrið sé ekki eins og maður helst óskar sér. Aðalatriðið er að hittast og nóta samvistanna.

  2. Þórunn says:

    Prentvillupúkinn..
    Ég ætlaði auðvitað að segja, njóta samvistanna.

  3. Svanfríður says:

    Þið eruð höfðingjar heim að sækja sýnist mér og látið gestum ekki leiðast í eina mínútu. En eins ótrúlegt og það er þá tekur á að vera með gesti þannig að ég vona að þú hafir hvílt þig vel á eftir. En þú gafst mér hugmynd en næst þegar við hjónin komum heim þá fer ég með Bert í jarðskjálftaherminn.Takk fyrir það.

  4. Ragna says:

    Tilvalið að fá sér kaffisopa
    Já Svanfríður mín þú þarft endilega að fara með bóndann í jarðskjálftahúsið. Þegar þú ert svo komin í Hveragerði, hvert heldurðu þá að sé tilvalið að fara og fá sér kaffisopa? Já einmitt í Sóltúnið til Rögnu.

  5. afi says:

    Eftirminnileg heimsókn
    Þrátt fyrir allt erfiðið, eru það góðu minningarnar sem lifa lengi eftir svona góða gestakomu.

  6. Anna Sigga says:

    Alltaf gaman að fá góða gesti!
    Ég þori ekki lengur að lofa upp í ermina mína. Vona bara að ég drífi mig bara fljótlega í heimsókn til þín í Sótúnið, Ragna mín. Farðu vel með þig!

Skildu eftir svar