Smá heilabrot.

Jæja, þá er lífið svona að færast í eðlilegt horf eftir ferðalög sumarsins og gestakomuna frá Englandi.

Ótrúlegt hvað það hefur orðið mikið úr sumrinu þó ekki hafi nú gefist margir dagar til þess að sitja á blessuðum pallinum okkar. Þó fékk ég tækifæri til þess þegar Linda bloggvinkona kom í heimsókn með góða veðrið frá Ameríkunni í farteskinu.

Ég verð að játa að þegar ensku vinirnir mínir voru farnir heim þá var ég eins og sprungin blaðra. Við komum heim eftir að hafa skilað þeim í flugstöðina og ég settist niður í Lazyboy stólinn minn og steinsofnaði bara strax og svaf í góða stund. Ég reyndi svo að halda mig frá Lazyboynum til að hanga nú vakandi yfir hádaginn, en settist síðan aftur til að horfa á fréttirnar í sjónvarpinu eftir kvöldmatinn og viti menn ég svaf allt kvöldið og rétt náði að færa mig inn í rúm til að halda áfram að sofa þar um nóttina. – Hvílíkt og annað eins.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en eftir á hvað það er ótrúlega mikið álag að vera með erlenda gesti sem ekki víkja frá manni í fimm sólarhringa nema rétt á meðan þeir sofa yfir blánóttina. Maður verður jú að skipta alveg alveg um tungumál og hafa alltaf klárt hvað eigi að borða og hvað eigi að hafa með kaffinu og hvað eigi að gera þann og þann daginn (líka þegar rignir og rignir) og vera svo auðvitað alltaf í góðu skapi og skemmtilegur. Það var reyndar enginn vandi því þetta er einstaklega skemmtilegt og gott fólk og auðvitað tók fjölskyldan mín líka þátt.

Þið megið alls ekki misskilja mig – ég er EKKI að kvarta. Það kom mér bara svo á óvart að ég skyldi vera svona úrvinda þegar þau voru farin.

Líklega er maður bara orðinn svona gamall því þegar ég rifja upp dvölina í Englandi á sínum tíma þá vorum við nánast alltaf með einhverja gesti að heiman og ekki man ég eftir að vera þreytt eftir slíkar heimsóknir. Það kom oft fyrir að ég ók með gestina okkar á Heathrow flugvöll til að taka flugið heim til Íslands og ók svo heim aftur með nýju gestina sem höfðu komið út með sömu vél.

Þegar ég hugsa um það, þá gerði maður sér eiginlega ekki grein fyrir því þá hvað maður átti allt í einu rosalega marga "vini" og merkilega marga sem vantaði gistingu í útlandinu í svo og svo langan tíma. Eftir heimkomuna höfðum við hinsvegar lítið að segja af mörgum þessum "vinum".

Ég held ég sé komin út á hálan ís og ætla þess vegna að slá botninn í þetta í snatri.
Auðvitað á maður ekki að hugsa svona upphátt og allra síst á netinu.

Ég bið ykkur vel að lifa og njótið vel ykkar sönnu vina.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Smá heilabrot.

  1. Svanfríður says:

    Þetta er alveg satt sem þú segir, það tekur á að fá gesti inn á sig en svo fer það líka eftir hverjir það eru sem koma, eins og ég held þú meinir. En þó svo það geti tekið á þá er það alltaf svo gaman og vona ég að húsið mitt hér eigi eftir að vera mikið notað af fólki að heiman (ef svo verður þá á ég alltaf von á lakkrís:)

  2. Ragna says:

    Ég VIL fá gesti – það er sko ekki nein spurning um það og Svanfríður mín þú manst að kíkja á þá gömlu þegar þú kemur í vetur. Ég setti vini í gæsalappir í blogginu mínu því gömlum hugsunum skaut upp í kollinn á mér. Það er nefnilega svo að þegar maður áttar sig á því að fólk er bara vinur manns tímabundið til þess að hafa gott af manni en síðan ekki söguna meir þá sárnar manni. Ég var búin að grafa þetta í gleymskukistuna en svo dúkkaði það upp á meðan ég var að blogga. Þessu er hér með pakkað neðst niður á botninn aftur.

  3. Þórunn says:

    Gestir
    Já víst breytist heimilishaldið á meðan það eru gestir á heimilinu, en það er bara svo óskaplega gaman að hafa gesti, það erum við Palli búin að reyna í sumar. Já, hvenær ætlið þið Haukur að koma í Austurkot?

  4. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Þórunn mín. Mikið rosalega langar mig til þess að heimsækja ykkur, en ekki verður það nú þetta árið sem Portúgalsferð er á dagskránni.

Skildu eftir svar