Lífið hefur upp á margt að bjóða.

Þá er nú sumrinu að ljúka, en þrátt fyrir leiðinlegt veður þá hefur þetta verið gott sumar og mikið búið að fara og gera en það er svo greinilegt að haustið er að byrja.

Það er svo margt sem gerir að maður tekur eftir þessari árstíð. Skólinn er byrjaður og Haukur var að fara í bæinn áðan til að hefja aftur störf eftir þriggja mánaða sumarleyfi. Þegar ég var orðin ein í kotinu þá fór ég að hugsa um allt sem ég gæti tekið mér fyrir hendur núna þegar ég væri orðin ein, ég segi gæti tekið mér fyrir hendur svo er bara að sjá hverju verður komið í verk. Eitt er víst, að ekki vil ég sitja ein og láta mér leiðast. Ég er búin að taka fram tuskudótið og er að spá í að sauma eitthvað til að fara með í Sælukot. Svo var ég búin að lofa sjálfri mér því að byrja snemma að búa til jólakortin svo það lendi ekki í stressi.

Ég ætla nú ekki að telja upp allt sem ég hef í huga en ég er einhvernvegin svo sátt við að það sé að koma haust og maður færist yfir í næstu árstíð. Það er gaman að kveikja á einu og einu kerti á kvöldin og nú fer að líða að því að gróðurinn fari að skarta sínum fegurstu haustlitum og þá verður nú gaman að rölta um með myndavélina sína. Vatnsleikfimin er byrjuð og það er gaman að hitta kellurnar sem ég hef ekki hitt síðan í vor. Svo er kvenfélagið að fara af stað með fundi vetrarins. Það var hringt í mig eitt kvöldið og ég beðin um að fra í nefnd sem vinnur að útgáfu Jórudagbókarinnar sem kvenfélagið gefur út á hverju ári. Þetta er skemmtileg dagbók með uppskriftum og ýmsu skemmtilegu efni auk þess að vera dagbók fyrir hvern dag ársins. Það þarf að safna styrktarlínum og auglýsingum og þeim fannst tilvalið að fá mig í að hjálpa til við það. Nú er ég á báðum áttum því ég gekk í kvenfélagið hérna með það loforð við sjálfa mig að gefa ekki kost á mér í stjórn eða nefndir því ég var búin með minn skammt af slíku í safnaðarfélagi og í sóknarnefnd Áskirkju í meira en15 ár. Svo er leitað til manns og maður veit að maður getur lagt eitthvað af mörkum og hikar að svara. Ég þarf þó að gefa svar í síðasta lagi næsta mánudag þá ætla þær í nefndinni að funda og skipta með sér verkum og ef ég vil vera með í þessu þá mæti ég til þeirra á mánudagskvöldið – ég hef allavega helgina til að hugsa mig um.

Nú ætla ég að skreppa út í Grundartjörn að kíkja á hann litla nafna minn sem tók upp á því að fá hita og vera lasinn og ég ætla að gefa honum gott ömmuknús.

Ég bæti kannski einhverju við um helgina en allavga segi ég núna

Góða helgi

og bjóðum haustið velkomið með jákvæðum huga

því það er svo gaman að vera til því lífið hefur uppá svo margt að bjóða.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Lífið hefur upp á margt að bjóða.

  1. Sigurrós says:

    Næst þegar það kemur helgi sem ég er ekki að fara í teiti eða ferðalag 😉 þá ætla ég nú að reyna að koma á Selfoss. Kannski við getum byrjað saman að föndra jólakortin 🙂 Svo var ég nú að láta mig dreyma um kleinurnar þínar um daginn og við gætum þá kannski bakað saman kleinur og ég tekið skammt með mér í bæinn 😉

  2. Mamma says:

    Ekki stendur á mér og gestaherbergið bíður fullbúið.

  3. Þórunn says:

    Góð hugvekja
    Mikið er uppbyggilegt að lesa þínar góðu hugvekjur, það er rétt að mæta öllum árstíðum með jákvæðu hugarfari, það verður allt svo mikið skemmtilegra og léttara. Við segjum líka góða helgi, það er bréf á leiðinni.
    Þórunn

  4. Svanfríður says:

    Það er gott að þér líður vel, þannig á það líka að vera-engin sorg né sút á þínum bæ. Hafðu það gott áfram.Kveðjur, Svanfríður.

  5. Linda says:

    Haustið er alveg yndislegur tími og svo kósý. Held að haustið sé uppáhalds árstíðin mín þó hitinn á sumrin sé þægilegur líka..

    Ég hef nú engar áhyggjur á að þér eigi eftir að leiðast í vetur, þú ert svo dugleg að taka þér verkefni fyrir hendur.. Þú ert ein af þeim, að ef þú snertir hluti þá verða þeir að gulli.. það sannar fallega heimili þitt, bæði að utan sem innan..

    Bestu kveðjur

  6. Haustið er fallegt
    Dálítið snemmt fyrir okkur að hugsa um haust en þetta er auðvitað fallegur árstími og svo notalegt þegar fer aðeins að skyggja. Er búin að lesa smá af fyrri pistlum og fannst alveg frábært hvað þið vinkonur gátuð komið saman og átt góðar stundir í sumarbústað, ljúft það. Rósin er alveg gullfalleg, heppin varstu að taka eitt eintak inn áður en það varð fyrir kuldakastinu. Bestu kveðjur í bili, Gurrý

Skildu eftir svar