Rifsberjahlaup

Í dag, laugardag höfum við mæðgur verið í sultugerð og bjuggum til ógrynni af Rifsberjahlaupi. Aðferðin okkar er mjög einföld og fljótleg en fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í sultugerðinni, þá setti ég hana inn á uppskriftarvefinn því ég tók eftir því í gær þegar ég ætlaði að skoða uppskriftir af rifsberjahlaupi á netinu, að þar var ekki mikið af uppskriftum af þessu gamaldags hreina hlaupi sem er ekki kryddað eða með öðrum aukaefnum í. Svo þurfa þeir sem eru byrjendur líka að fá í hendurnar meira en bara uppskrift. Margar spurningar koma strax upp þó það eigi bara að sjóða saman kíló af berjum og kíló af sykri þá þarf að vita meira svo ég reyndi að lýsa undirbúningnum vel. Ég veit að það er alltaf hægt að hringja til mömmu og fá upplýsingar, en oftar en ekki langar fólk til að bjarga sér og gera hlutina sjálft.

Það væri gaman að heyra frá ykkur sérfræðingar hvernig þið gerið ykkar rifsberjahlaup og kannski mætti ég þá setja uppskrift og aðferð ykkar inn á netið og merkja hana bara vel viðkomandi.

Mér finnst unga fólkið svo oft stranda á því að það vantar betri lýsingu á öllu verkinu og hvað þarf að hafa til verksins.

Hér er mynd af okkur Guðbjörgu í sultugerðinni.
Við erum ekki í sérstökum sultu-einkennisbúningi.
Það hittist bara svo skemmtilega á að við vorum báðar í skyrtum í dag.rifs1.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Rifsberjahlaup

  1. Sigurrós says:

    Sem örverpi fjölskyldunnar sem hefur ekki komist í berjamó og er ekki búin að prófa að fara eftir leiðbeiningunum góðu um sultusuðu, þá vona ég að þið aumkið ykkur yfir mig og gefið mér tvær litlar krukkur 😉

  2. Ragna á AK says:

    Sæl nafna mín, ég get ekki orða bundist eftir að ég las þessar fínu leiðbeiningar um sultugerð. Finnst þær eigi að fara beint á Morgunblaðið,því nú fara uppskriftirnar að birtast þar um meðferð haustuppskerunnar. Það verður aldrei of vel brýnt fyrir ungum sem eldri hreinlæti við matargerð og hefur mér oft fundist á það vanta í sumum tv þáttum þar sem puttar eru sleiktir í gríð og erg. Nóg um það. Bið að heilsa öllum og þú mátt gjarnan knúsa litla nafna frá ömmu á Ak. Þið eruð flottar mæðgurnar með krukkurnar . kveðja RM

  3. afi says:

    Myndarskapur
    Þetta er nú meiri myndarskapurinn. Þetta minnir afa á að nú þarf að fara að huga að stikilsberjunum.

  4. Stefa says:

    Allsberjasulta
    Hæhæ,

    mikið eruð þið myndarlegar í eldhúsinu mægðurnar!

    Fyrir nokkrum árum sultaði ég rétt fyrir jól úr hinum og þessum berjum sem fundust í frystikistum stórmarkaðanna. Úr varð sulta og ég gaf henni nafnið „Allsberjasulta“ þar sem ægði saman nokkrum tegundum berja.

    Þetta gekk þó ekki stórslysalaust fyrir sig. Ég var búin að safna krukkum undan barnamat til að sulta í og hafði lært að setja krukkurnar og lokin á um 50-100°C hita inn í ofn til að sótthreinsa þær eftir þvott. Lokin úr krukkunum þoldu þó ekki þennan mikla hita og brunnu öll með ógeðslegum fnyk sem fyllti íbúðina. Þannig að ég mátti kaupa mér rándýrar en sætar krukkur undir sultuna það árið.

    Ég á einhvers staðar uppskriftina sem ég fékk í heimilisfræðinni í KHÍ en þetta var voða einfalt og góð uppskrift fyrir byrjendur ;o)

    Vona að þið hafið það gott elsku Ragna mín – við Rúnar sendum okkar bestu kveðjur.
    Þín Stefa

  5. Ragna says:

    Ekki var nú þessi pistill skrifaður til að kría út hól fyrir myndarskap. Ég held hinsvegar það það blundi einhver kennari í mér því þörfin á að koma upplýsingum áfram til annarra er alltaf svo mikil. Þakka þér Stefa mín hússtjórnarkennari, fyrir þínar upplýsingar þó þær hafi ekki alveg gengið upp hjá þér hvað varðar lokin á krukkurnar þá er þetta ný aðferð sem ég hef ekki heyrt um við að sótthreinsa krukkurnar.
    Svo fær Sigurrós auðvitað krukku eða krukkur með sér heim næst þegar hún kemur á Selfoss.
    Kær kveðja til ykkar allra og takk fyrir að leggja í belginn.

Skildu eftir svar