Gott að koma heim eftir skemmtilegt kvöld í borginni.

Það er alltaf svo gott að koma heim en aldrei eins gott og þegar ég er búin að keyra heim í myrkri úr Reykjavík. Það liggur við að ég fái svona panikk tilfinningu fyrst eftir að borgarljósanna nýtur ekki lengur við og ég ek ein áfram í myrkrinu svo smá líður þetta nú hjá eftir því sem manni miðar áfram en það er alltaf ákveðinn léttir þegar ég ek aftur inn í ljósin hérna við Selfoss. Sama gildir þegar ég fer héðan í myrkti til borgarinnar. Ég held að maður verði eitthvað kjarklausari með aldrinum. Ekki get ég kennt veðri eða hálku um í þetta skiptið því það er alveg yndælisveður í kvöld.

Þegar ég ók í bæinn um sjöleytið í kvöld þá var svo falleg kvöldbirtan yfir Hveragerði að mig dauðlangaði til að stoppa í Kömbunum og taka myndir en þorði auðvitað ekki fyrir mitt litla líf að valda þannig slysahættu svo ég lét mér nægja að horfa á fegurðina.

Það var svo gaman að hitta þær Avon ladies sem ég vann með í Borgartúninu á ýmsum tímum. Ég segi ýmsum tímum, því sjálf vann ég þar í ellefu ár en á þeim tíma kom og fór margur starfskrafturinn. Það er því einstaklega skemmtilegt að þrátt fyrir að flestar hafi verið komnar í störf annarsstaðar þá skulum við enn hittast tvisvar á ári og það er alltaf jafngaman og tíminn er bókstaflega alltaf floginn frá okkur áður en við vitum af. Svo var maður nú ekki svikinn af veitingunum hjá henni Jónu sem að þessu sinni bauð okkur heim og nú bíð ég bara eftir að fá sendar nýjar uppskriftir á morgun.

Við erum 9 í þessum skemmtilega hópi og allar voru mættar í kvöld nema ein sem var erlendis. Magnea sér um að við fáum að vita um allt það nýjasta í Avon snyrtivörunum. Alltaf gott að fá að vita hvort búið sé að uppgötva nýtt sparsl til að setja í hrukkurnar eða annað sem gæti komið sér vel á þessum síðustu og verstu tímum. Þetta hefur auðvitað ekkert með undirritaða að gera, en hins vegar ætti þessi kona sem alltaf virðist vera að þvælast fyrir mér í speglinum á baðinu  endilega að fara að gera eitthvað  í sínum málum.

Ég læt hérna tvær myndir. Á efri myndinni skoðar Valgerður Avonbæklinginn af áhuga, en Magnea bíður róleg eftir að vita hvort hún eigi að skrifa niður pöntun. Á hinni eru Laufey, Hrafnhildur og Sivva í góðum gír.

avon1.jpg avon2.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Gott að koma heim eftir skemmtilegt kvöld í borginni.

  1. Linda says:

    Það er frábært að heyra hvað þið eruð duglegar að halda hópinn..
    Svona á þetta að vera og ekkert öðruvísi..
    Það er alger synd þegar hver fer í sína áttina að uppúr öllum vinasamböndum þurfi að slitna..

    Bestu kveðjur

  2. afi says:

    Duglegar.
    Svo sannarlega duglegar að halda hópinn. En fer ekki að koma tími á lýsingu á þessari leið?

  3. Ragna says:

    Ég vona það svo sannarlega afi að það komi lýsing á þessa leið. Það myndi sko breyta miklu.

Skildu eftir svar við Linda Hætta við svar