Meira útstáelsið.

Enn gerði Alcan vel við starfsmenn sína.  Í gærkvöldi var boðið til kvöldverðar og tónlistarveislu. Tilefnið var að það tókst svo vel að ræsa upp öll kerin eftir straumrofið sem varð í sumar. Rannveig Rist sagði í ávarpi sínu að það vekti heimsathygli hvað það tókst fljótt og vel að koma verksmiðjunni í gang aftur, hún fengi daglega fyrirspurnir um það erlendis frá hvernig þetta hafi verið gerlegt. Hún sagðist ekki í nokkrum vafa um að menntunin í Stóriðjuskólanum hafi ráðið úrslitum því allir hafi gengið ákveðið og fumlaust til verka og vitað hvað gera skyldi.  Þessi veisla væri til þess að sýna starfsfólkinu hversu vel hún mæti störf þess.

Þegar við mættum voru þrír tónlistarmenn að koma sér fyrir, einn á harmoniku annar á bassa og þriðji á fiðlu – ekki neina venjulega fiðlu því þar var komin hin fræga Stradivarius fiðla sem er nýkomin til landsins. Sá sem lék á fiðluna fór hreinlega á kostum svo flinkur og fjörugur var hann að fiðlan var eins og sjálfstætt verkfæri í höndunum á honum. Ég hvíslaði að Hauki að  fiðlarinn væri greinilega ekki enn kominn niður á jörðina eftir að hafa fengið nýju fiðluna,  því hann var í slíkri gleðivímu að hann var eins og í öðrum heimi. Þessir tónlistamenn spiluðu í klukkutíma á meðan fólk var að mæta og rölti um með  drykki áður en sest var til borðs. 

Það var boðið upp á þríréttaðan veislumat og undir borðum spiluðu og sungu "Hundur í óskilum" og voru þeir bráð skemmtilegir svo endaði þetta með því að Jónsi kom ásamt undirleikara og söng nokkur lög.  Ég segi nú bara hvílík veisla.  Þetta var búið fyrir ellefu svo við keyrðum einn rúnt um miðbæinn, síðan skilaði ég Hauki á Austurbrúnina  þar sem hann ætlaði að vaka lengi og sofa síðan fram á dag til að undirbúa næturvakt sem hefst núna í nótt en ég dreif mig hinsvegar austur og var komin uppúr miðnætti heim sæl og ánægð.

————————– 

Eftir hádegi í dag tóku Guðbjörg og Magnús svo þá gömlu með sér á Eyrarbakka til þess að fara á útsölu hjá Alpan sem senn flytur allan sinn rekstur á erlenda grund og er því að selja upp lagerinn.  Það fyrsta sem ég sá á borði þegar við komum inn var panna  sem kallast lummupanna en er hægt að baka á litlar skonsur og eplaskífur. Það virtist bara ein til svo ég þóttist nú aldeilis góð að ná í hana, tók hana strax traustataki og keypti síðan eftir að ramba með hana í fanginu allan tímann sem ég var að skoða það sem til var á staðnum.

Þegar við komum svo hérna í Sóltúnið aftur  þá var strax hafist handa við að baka eplaskífur og mikill munur var að hafa svona hólf til að setja deigið í, svo allt kom út nákvæmlega kringlótt og fínt. 

Þegar Guðbjörg og Magnús fóru heim aftur fóru strákarnir heim með þeim en Karlotta varð eftir hjá ömmu og við skemmtum okkur konunglega og fífluðumst mikið og hlógum. Tíminn flaug bara svo fljótt  frá  okkur því ég varð að skila henni heim um klukkan sex en við hefðum sko getað skemmt okkur saman miklu lengur.

Þegar ég lít til baka yfir þessa viku þá sé ég að hún hefur verið alveg rosalega fín – allt nema skemmdin á nýja bilnum mínum en það stendur til bóta að laga það. Nú er spennandi að sjá hvernig til tekst með næstu viku.  Vonandi næ ég línudansinum á morgun – Jæja,  best að fara bara að sofa á sitt græna og vera ekki að láta áhyggjur af nokkrum línudanssporum halda fyrir sér vöku.

Góða nótt og njótum öll morgundagsins.  

  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Meira útstáelsið.

  1. Svanfríður says:

    Ef ég hefði vitað af þér og Hundi í óskilum á sama stað þá hefði ég beðið þig um að senda kveðju á bassaleikarann…þeir eru svo skemmtilegir finnst mér. En það er gaman að því hvað fyrirtækið gerir vel við starfsmenn sína.

  2. Þórunn says:

    Góður vinnuveitandi
    Það er ekki amalegt að hafa svona góðan vinnuveitanda, endalausar uppákomur og fjör. Þetta hefur greinilega verið hin besta skemmtun. Takk fyrir að leyfa okkur að taka þátt.

Skildu eftir svar