Gamlar minningar um 16. nóvember

Hún föðuramma mín Símonía Jónsdóttir var fædd á þessum degi 16. nóvember árið 1885 en dó í mars 1964 eftir að drukkinn ökumaður ók á hana þegar hún var að ganga yfir götu á leið í strætó.

Afi minn dó tveimur árum áður en ég fæddist og reyndar voru báðir foreldrar móður mnnar líka dánir þegar ég fæddist svo ég hef alla tíð verið afalaus og átt þessa einu ömmu.

Hún var skapstór kona hún amma mín og bar það einhvernveginn með sér og alltaf klæddist hún íslenskum búningi dags daglega. Ég man ekki nokkrurn tíman eftir að hafa séð ömmu mína öðruvísi en í peysufötum eða upphlut. Ég man líka að maður fíflaðist ekkert í henni og ekki man ég eftir að hafa nokkurn tíman setið í fanginu á henni en kannski hefur það nú verið þegar ég var ungbarn. En hún var alltaf góð við okkur hún amma og það var gaman að spila við hana Marías. Alltaf hlakkaði ég til þegar hún kom og ekki var það verra þegar hún kom með kisa í leðurtöskunni sinni. Hún ferðaðist eingöngu með strætó því hún "þoldi ekki að troðast inn í þessa smábíla eins og hún orðaði það ".

Ég er ekkert oft að hugsa um hana ömmu en í dag hefur hún verið svo mikið í huga mér og ég hef verið að hugsa til baka til gamla tímans. Pabbi minn átti bara eina systur sem er látin fyrir mörgum árum og engan bróðir svo við frændsystkinin í föðurættinni vorum ekki mörg, en mér er svo minnisstætt hvað það var alltaf gaman þegar við hittumst í afmælinu hennar ömmu í Þingholtsstrætinu.

Æ, maður getur stundum dottið inn í einhverjar svona minningar frá löngu liðinum tíma og það er svooo notalegt að rifja ýmislegt upp sem maður var búinn að gleyma.

Best að snúa sér aftur að nútímanum og slökkva á tölvunni og skríða svo upp í rúm og svífa inn í draumalandið.

Ég segi þvÍ GÓÐA NÓTT

P.S. Ekki kæmi það mér á óvart að hún amma mín sáluga kæri sig ekkert um þessi skrif mín og sé eitthvað að hringla í tölvunni hjá mér því mér er ekki með nokkru móti mögulegt að vista þetta og það sem meira er, það er ekki heldur mögulegt að afrita textann til þess að prufa að færa hann í nýtt skjal. Ég get samt farið inn á póstinn og það er ágætur styrkur á ADSL-inu. Þetta hefur aldrei komið fyrir áður.

Ég ætla ekki að slökkva á tölvunni og athuga hvað gerist í fyrramálið en þá verður reyndar ekki 16. nóv. lengur heldur kominn sá 17.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Gamlar minningar um 16. nóvember

  1. Ragna says:

    Vann í þetta skiptið
    Jæja þetta tókst í morgun svo amma mín verður að sætta sig við að ég vann í þetta skiptið. 🙂

  2. Svanfríður says:

    Kannski að það sé rétt hjá þér-stríðnisdraugur í tölvunni?

  3. Jói says:

    Tæknilegar orsakir
    Betra.is var að drukkna undan álagi vegna reglubundinnar vefsöfnunar Landsbókasafns Íslands á íslenskum vefjum.

    Búið að breyta stillingum þannig að vefþjóninum sé ekki drekkt.

  4. Ragna says:

    Æ, þurftu þetta nú að vera tæknileg mistök. Mér fannst miklu skemmtilegra að halda að hún amma mín sú ákveðna kona hefði stoppað þetta hjá mér.

Skildu eftir svar