Aftur með tveimur

Jæja þá er ég aftur farin að gera skrifað með tveimur. Það hefur gengið vonum framar að koma öxlinni á mér í samt lag að þessu sinni. Bæði hjálpaði sprautan sem ég fékk á sjúkrahúsinu og meðferðin hjá sjúkraþjálfaranum sem tekur mig daglega til sín. Ég sé nú fram á að geta sjálf skorið og borðað matinn minn á árshátíðinni hjá Ísal á laugardaginn. Annars var Haukur búinn að segjast ætla að skera matinn fyrir mig og mata mig. Ég er reyndar ekki alveg viss um að ég hefði þegið það.


Það hefur svo sem ekki mikið verið að gerast hjá mér þessa daga nema að vera í læknastússi, taka pillur og halda haus. Nú er þessu að linna svo ég vonast til þess að fara að komast aftur í að gera eitthvað skemmtilegt. Ég bara bíð eftir að komast í að fikta pínulítið aftur við bútasauminn. Mig langar nefnilega svakalega mikið til að gera fallegan dúk undir jólatréð. Ég er að komast í hvílíkt jólastuð, er alltaf að spá í hvernig maður geti skreytt utanhúss og innan og get varla beðið eftir aðventunni. Þetta er það sem er svo skemmtilegt við okkar góða Ísland.  Já, það eru þessi árstíðarskipti okkar sem eru svo heillandi og hver árstíð á svo sannarlega sinn sjarma svo það er alltaf eitthvað að hlakka til.


Næsta tilhlökkun hjá mér er hinsvegar að fá Sigurrós í heimsókn á morgun til þess að vera þangað til ég fer í bæinn seinni partinn á laugardag. Það er heill mánuður síðan við hittumst síðast. Það er allt of mikið. Jói er að lesa fyrir próf og vinna svo mikið í verkefnum að hann kemur ekki í þetta sinn. Við mæðgur verðum bara að bjarga okkur karlmannslausar.


Ég finn að ég má ekki skrifa meira núna (góð afsökun ha, ha)  svo ég læt hér vangaveltum mínum lokið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar