Tvírætt?

Henni dóttur minni varð ekki um sel þegar hún sá fyrirsögn móður sinnar fyrir helgina  „Aftur með tveimur“  – Hvað er það sem hin siðprúða móðir mín er að aðhafast þarna fyrir austan fjall?  – Léttirinn var mikill þegar hún las áfram og sá að  mamma var ekki alveg búin að missa vitglóruna heldur bara orðin betri í öxlinni og gat nú skrifað með tveimur höndum í stað einnar. Ætli það sé ekki oft svona sem kjaftasögur geta myndast, það eru nefnilega sumir sem bara lesa fyrirsagnir og þessa mátti jú misskilja. En nóg með það.


 Sigurrós kom til mín á föstudaginn og við skelltum okkur í kvöldmat í Steikhúsið hérna á Selfossi. Maturinn var í einu orði frábær eins og hann er reyndar alltaf á þessum stað og ekki spillti þjónustan.  Við fórum svo heim og „skröbbluðum“  fram eftir kvöldi. Á laugardagsmorgninum kom Guðbjörg svo í morgunmatinn til okkar og þær systur skruppu upp í skóla og eitthvað fleira en ég fór að reyna að hafa mig eitthvað til fyrir árshátíðina um kvöldið.


Árshátíðin var í einu orði frábær. Það var tekið á móti gestum með fordrykk í anddyrinu á Hotel Nordica. Síðan hófst árshátíðin. Örn Árnason var veislustjóri og var hann óborganlegur sem slíkur. Síðan var Diddú aðalnúmer kvöldsins og söng hún bæði ein og með Ísalkórnum, og síðast en ekki síst með Erni Árnasyni. Þau eru frábær saman bæði svo létt og skemmtileg. Eftir glæsilegt borðhaldið var svo stiginn dans með Pöpunum. Þeir gerðu stormandi lukku, reyndar svo mikla að á gólfinu var bara ein iðandi kös. Það lá við að einhver þyrfti að koma með prik og slá í lappirnar á fólkinu á dansgólfinu til þess að vita hver ætti hvaða lappir svo allir færu nú heim með sínar eigin. Líklega erum við Haukur orðin of gömul fyrir svona rosalegan hávaða og pústra því við sátum nú mestmegnis og fylgdumst með hinni iðandi kös á gólfinu og héldum öðru hvoru fyrir eyrun þegar hávaðinn varð svo mikill að það var eins og slegið væri mað hamri í hausinn á manni. En við urðum að viðurkenna að þetta virtist það sem fólkið vildi því stuðið var mikið og svo var öskrað af lífi og sál. Við erum líklega búin að binda okkur of mikið við góðu gömlu dansana því okkur finnst ekkert ball nema gömludansaböll. En þar sem við erum ekki ein í heiminum þá gátum við vel unnt unga fólkinu þess að sleppa sér.


Við Haukur komum svo austur upp úr hádegi í gær og fengum svo Guðbjörgu & Co í kaffi og pönnukökur um miðjan daginn.  Í dag höfum við verið ýmislegt að snúast. Fórum m.a. upp í Ingólfsfjall til þess að líma málningarlímband á nokkur grjót. Nei við erum ekki orðin ga, ga. Mig vantar grjót í garðinn og hafði samband við vörubílstjóra sem mér var bent á til þess að fá hjá honum grjót. Hann benti okkur á að fara upp í fjall og velja grjótið og merkja það, síðan myndi hann fara og sækja það einhvern næstu daga. Nú bara vona ég að málningarlímbandið fari ekki af í rigningunni sem spáð er á morgun.


Ég ætla bara að láta þetta duga í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Tvírætt?

  1. Sigurrós says:

    Álfar í fjalli
    Jáá… ég hefði gjarnan viljað fylgjast með ykkur álfunum vafra um uppi í fjalli að líma límband á grjóthnullunga… 😉 hehe

Skildu eftir svar