Mál til komið.

Já það er mál til komið að láta heyra aðeins í sér. Sigurrós og Magnús Már gerðu jólunum okkar allra svo ágæt skil bæði í máli og myndum, að ég hef litlu þar við að bæta. Auðvitað tók ég líka myndir svo það fari nú ekki á milli mála.

Við höfum haft það ósköp rólegt þessa daga á milli hátíðanna. Fórum í góðan göngutúr einn daginn. Auðvitað áttum við að fara í göngutúr alla dagana en svo kom rigning og rok og þá kúrðu þau gömlu bara og nenntu ekki út.
Á þessum tímapunkti hátíðarinnar fer maður að hlakka til þegar venjulegu dagarnir koma aftur og allt fer í fastan farveg. Dagarnir þegar maður hættir að rekast á skálar með nammi í, í öllum hornum (sem auðvitað þarf að narta aðeins í svona i leiðinni) og dagarnir sem maður borðar smákökur og Sörur í hverjum kaffitíma og ísskápurinn er troðinn af afgöngum sem freistandi er að narta í. Á slíkum tímapunkti fer maður sem sagt að hafa skömm á þessum alsnægtum og maður skammast sín fyrir að hafa það svona gott þegar maður veit af þeim sem ekkert nammi eiga og enga afganga í ísskápnum og sjá ekki fram úr því hvernig þeir eigi að tóra næsta sólarhringinn. Það er ekki vafi að það eru margir slíkir í heiminum í dag.

Ég ætlaði nú ekki út í þessa sálma, en stundum skrifar maður allt annað en ætlað var í upphafi, hugurinn fer langt fram úr því sem átti að fjalla um og tekur völdin.

Ég ætlaði að segja frá því að í dag komu stelpurnar hans Hauks í heimsókn, þær sem hérlendis búa. Borghildur kom eftir hádegið með Leonóru sína og síðan kom Ev a (Jóa) með syni sína Darra og Hauk en hann kom með ensku kærustuna sína með sér.

Við Haukur (eldri) áttum því afskaplega ljúfan og góðan dag og nutum samvistanna með unga fólkinu.

Auðvitað var myndavélin tekin upp svona í restina og smellt af nokkrum myndum .

Hér eru frá vinstri

Haukur, Darri, Eva, Haukur og Miriam

evaog.jpg

Svo er hér mynd af Borghildi með Leonóru litlu

borgh.jpg

 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Mál til komið.

  1. afi says:

    Meira nammi
    Það er aldrei of mikið af nammiskálum. Málið er að ganga varlega framhjá þeim svo ekkert detti óvart útúr þeim. Hátíðisdagar eru góðir en venjulegir dagar eru síst verri. Þetta er allt gott hvað með öðru. Gleðilegt ár og þakkir fyrir bloggstundirnar á því ári sem er að líða.

  2. Sigurrós says:

    Þetta hefur greinilega verið mjög kósí hjá ykkur 🙂 enda ekki við öðru að búast!

Skildu eftir svar