Litið yfir farinn veg og lögð drög að nýjum.

Nú er kominn sá tími sem maður lítur yfir farinn vel og hugsar um það sem liðið er og kemur þá margt í ljós og allur tilfinningaskalinn verður virkur. Sumt vekur gleði, annað sorg, svo kemur eftirsjá yfir að hafa ekki áorkað meiru og að lokum tilhlökkun.
Sumt er ekki spurning um að verði geymt í minnisbankanum um alla framtíð en annað fer ekki á milli mála að þurfi að sópa í burtu. Já, þetta er tími hreingerninga í sálinni. Það þarf að halda í það góða en losa sig við það slæma og strengja þess heit að reyna enn eina ferðina að verða betri manneskja, hugsunarsamari, tillitssamari við aðra, heiðarlegri og betri á allan hátt en á síðasta ári og á öllum árunum sem á undan eru gengin. Það má víst með sanni segja að þetta er eilífðarverkefni sem stundum virðist ganga vel en stundum illa.
En ég vona alla vega að ég fái plús fyrir viðleitnina og ætla því áfram að reyna og reyna og ……

Þetta ár hefur verið mér gott eins og flest mín ár hafa verið. Nokkur ár hafa þó verið með sárum undantekningum, en einhvernveginn komst maður nú með Guðs hjálp í gegnum þau líka.

Það sem stendur hæst á þessu ári sem nú er að líða er auðvitað fæðing þriðja barnabarnsins míns sem fæddist í mars. Þá fæddist Guðbjörgu og Magnúsi Má heilbrigður og fallegur drengur sem er okkur öllum hvílíkur gleðigjafi og ekki spillir að hann ber nú nafn mitt og ömmu sinnar á Akureyri og heitir Ragnar Fannberg

Það er svo ótal margt sem ég er þakklát fyrir en of langt mál yrði að tíunda það hér í minni kæru dagbók, enda hef ég samviskusamlega tíundað allt slíkt rækilega hverju sinni.

Ég vil þó nefna Bloggvinina mína sem alltaf eru nærtækir og mér alveg ómissandi. Þeir eiga miklar þakkir skilið fyrir heimsóknirnar á síðuna mína og öll góðu samskiptin.

———————

Nú ber að líta fram á árið sem bíður handan við hornið. Það verður ekki langt farið inn í nýja árið eða aðeins inn í febrúar, en þá fáum við heimsókn frá Danmörku. Hugljúf og Eiki ætla að koma með alla fjölskylduna sína frá Jótlandi og stoppa í vikutíma á Íslandinu góða.

Svo bíð ég í ofvæni eftir því að nýtt barnabarn fæðist í mars, en Sigurrós mín og Jói sjá um þessa fjölgun. Það er annars merkilegt að þrjú af fjórum barnabörnum mínum eigi afmælisdag í marsmánuði. Það er bara Oddur ömmustubbur sem er ljónið í hópnum og er fæddur í ágúst.

Í raun veit ég ekki um fleiri fasta atburði á nýja árinu, en ég efast ekki um að þeir verða margir, góðir og skemmtilegir. Ef það koma hinsvegar dagar sem falla ekki inn í þessa skilgreiningu þá vona ég að ég hafi vit og þroska til að takast á við þá.

Er ekki sagt að ef maður vonar og trúi nógu stíft á eitthvað, þá verði manni að ósk sinni?
Er ekki líka sagt að hver sé sinnar gæfu smiður?

Nú ætla ég að reyna að vanda mig eins og ég get til að vera góður smiður og takast á við þá smíði sem bíður mín á næsta ári. Vonandi auðnast mér sú viska og útsjónarsemi sem þarf til þess að gera hana vandaða úr því efni sem ég fæ upp í hendurnar hverju sinni. Ég vonast líka til að ná því markmiði að vinna að smíðinni af heiðarleika og samviskusemi svo ég, í lok næsta árs, geti með ánægju litið yfir smíðina og verið sæmilega sátt með verkið.

Svo geri ég mér grein fyrir því að á vinnustað þarf allt að vera snyrtilegt og ekkert óþarfa drasl svo ég ætla að reyna að taka til jafnóðum í hugskotinu svo þar safnist ekkert sem er til óþurftar og ama.

ÉG ÓSKA YKKUR ÖLLUM GLEÐI OG GÆFU Á ÁRINU 2007.

Um leið þakka ég ykkur öllum fyrir skemmtilegu samskiptin
á árinu sem nú er að kveðja og hlakka mikið til
að fá að eiga samleið með ykkur á nýja árinu.


FÖRUM VARLEGA UM ÁRAMÓTIN
HITTUMST HEIL Á NÝJU ÁRI.

aramot06.jpg

 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Litið yfir farinn veg og lögð drög að nýjum.

  1. Sigurrós says:

    Góð lesning hjá þér, mamma 🙂 Já, það verður gaman að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér.

  2. Þórunn says:

    Gleðilegt ár!
    Elsku Ragna, ég vildi nú gjarnan fá að gera þín orð að mínum, hvað varðar áform um gerðir og hugsanir á næsta ári. Ég þakka innilega fyrir góð og skemmtileg samskipti á árinu 2006 og vona sannarlega að við eigum eftir að halda þessu áfram, lengi, lengi. Bestu kveðjur til ykkar Hauks frá okkur Palla í Asturkoti

  3. Svanfríður says:

    Elsku Ragna mín.
    Þú ert eitt af mínum uppáhöldum:) þannig að ég óska þér alls hins besta á nýju ári með kærri þökk fyrir góða rafveru á árinu. Vonandi sé ég þig áður en við fljúgum heim til Chicago. Svanfríður

  4. Takk Ragna!
    Um leið og ég óska þér og þínum gleði og birtu á komandi ári, vil ég þakka þér fyrir yndislega netvináttu og vonast eftir áframhaldandi vináttu árið 2007.

    Nýjársbloggið þitt er einstaklega fallegt og fær mann til umhugsunar um það sem skiptir mestu máli í lífinu.

    Takk fyrir að vera til

    Kærleikskveðja Jólanta/Jóhanna

  5. afi says:

    Nýárssól
    Vonandi gefur hin fallega nýárssól góð fyrirheit um komandi ár. Þakka bloggvináttu á nýliðnu ári. Óska þér og þínum stormandi lukku á þessu herrans ári 2007

  6. Ragna says:

    Er afi skyggn???
    Ég þakka kærlega fyrir góðu kveðjurnar. Þegar ég las kveðjuna frá afa, fyrst í tölvupóstinumí morgun, þá brá mér og hélt að ég hefði óvart sett inn hálfgerðan pistil sem ég skrifaði í gær en þar kemur nýárssól við sögu. En pistillinn hafði ekkert farið óvart inn en er bara í vinnsluminninu ennþá. Nú er ég hinsvegar alveg viss um að afi sé skyggn.

Skildu eftir svar