Tekið móti nýju ári.

Ég þurfti að vera í bænum í dag og kom ekki heim fyrr en í kvöld. Ég átti pistil síðan í gær sem ég ætlaði að setja inn í morgun en ekki varð af því sökum fjarveru minnar. Ég ætla samt að birta hann þó hann sé saminn fyrir nýjársdag.

—————

Þá hefur árið 2007 gengið í garð. Það var mjög friðsælt yfir að líta þegar ég vaknaði klukkan níu í morgun nýársdag og engin umferð sjáanleg, hvorki akandi né gangandi. Ég ætlaði nú að sofa lengur því ég get ekki sagt að ég hafi farið snemma að sofa þó ég væri ein heima hérna eftir miðnættið.
Fyrst ég var á annað borð vöknuð þá fannst mér hins vegar tilvalið að fara snemma á fætur þennan fyrsta dag ársins og reyna að hefja nú þegar umsnúning óreglulegs svefntíma yfir hátíðarnar.

nyarsd07.jpg

Ég sá, þó rökkvað væri, að það yrði heiðskírt og fallegt veður í dag. Alveg logn og himinininn búinn að hreinsa sig aftur eftir reykmettað loftið sem fylgdi ljósadýrðinni um miðnættið.
Þegar lengra leið á dagrenninguna og árdagssólin færðist hærra á himininn, þá stráði hún geislum sínum inn um gluggan hjá mér og mér kom í hug sálmaversið

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól
hún flytur líf og líknarráð
hún ljómar heit af Drottins náð.
 
Mér finnst þessi sálmur alltaf svo einstaklega fallegur en þetta er bara fyrsta erindið af átta.
Að gömlum íslenskum sið þá hlustaði ég á morgunmessu biskupsins í útvarpinu og síðan á nýárskveðju forsetans eftir hádegið. Báðir minntust á blessuð börnin. Ég vil taka undir með þeim báðum. því það að hugsa um og elska börnin okkar á alltaf að vera forgangsverkefni. Það er talað um fátæk börn. Ekkert barn á Íslandi ætti að þurfa að líða fyrir fátækt. Við erum ekki svo fátæk þjóð að við séum ekki fær um að fæða og klæða börnin okkar, öðru nær. Það þarf hinsvegar að gera ýmsar breytingar til að jafna þann mikla mun sem er á launum fólks. Sérstaklega þurfum við að styðja betur við bakið á því barnafólki sem hefur lág laun svo börnin fari ekki að draga hvert annað í dilka eftir því hver efnahagur foreldranna er og leggja jafnvel í einelti þá sem ekki geta tekið þátt t.d. í þeirri afþreyingu sem börnum stendur nú til boða utan skólatíma, eins og tónlist, íþróttir, dans o.fl.. Það kemur nefnilega fljótt í ljós hjá vinum og skólafélögum, hver getur tekið þátt og hver getur sökum fjárskorts ekki tekið þátt.
Margar þjóðir í kringum okkur meta þann auð sem felst í fæðingu nýrra þjóðfélagsþegna og koma vel til móts við að styrkja foreldra við fæðingu barna þeirra. En hvað gerum við þessi ríka þjóð????.
Ekki er þó allt sem viðkemur börnum háð góðum efnahag foreldranna, því ást, umhyggja og samvera kostar ekki peninga. Þó þú eigir næga peninga þá gefur þú ekki barni ást og umhyggju og því síður samveru með því að gefa því nánast eingöngu allt sem kaupa má fyrir peninga og leyfa þeim allt sem þeim dettur í hug. Börn eru fljót að finna út hvort þau eru elskuð að verðleikum og hvort foreldrunum finnst þau þess virði að vilja vera með þeim. Jafnvel það, þegar börnum er bannað af foreldrum sínum að gera hluti sem eru hættulegir eða ekki við hæfi, þá skilja þau fljótt að er ekki um að kenna vonsku foreldranna heldur af því foreldrunum þykir vænt um þau og vilja þeim bara það besta.
Svo mörg voru þau orð mín þennan fyrsta dag ársins 2007.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Tekið móti nýju ári.

  1. Anna Sigga says:

    Gleðilegt ár, Ragna mín,
    …til þín og þinna. Takk fyrir allar heimsóknirnar á síðuna mína og skrifin þín þér og allar fallegu myndirnar! Farðu vel með þig!

  2. Svanfríður says:

    Jæja Ragna mín…nú erum við komin til Reykjavíkur:) gott og gaman var að sjá þig og færi ég þér þakkir fyrir kaffið og hlýlegar móttökur. Ég mæli eindregið með að við hittumst aftur og náum þá Lindu með:) Hafðu það gott og við heyrumst.

Skildu eftir svar