Jólin að baki og mál að snúa til hollara lífernis.

Nú er komið fram yfir miðnætti þann 6. janúar 2007 og því hægt að segja að jólin hafi verið kvödd að þessu sinni. Enn má þó heyra sprengingar úti fyrir. Það er greinilegt að talsvert er til af púðrinu ennþá hjá sumum. Við Haukur vorum í mat í kvöld hjá Guðbjörgu, Magnúsi Má og krökkunum. Einnig var Birkir bróðir Magnúsar í helgarheimsókn hjá þeim. Maturinn var unaðslegur og góð tilbreyting eftir allt kjötátið undanfarið. Grillaður humar með hvítlaukssmjöri, Cuc,cus og salati – alveg hreint unaðslega gott. og ostaterta, kaffi og líkjör á eftir. Er hægt að hugsa sér það ljúfara?.

Að máltíð lokinni drifum við okkur út og gengum upp í Gestsskóg til að vera við þrettándabrennu og flugeldasýningu. Við fórum öll nema Guðbjörg og Ragnar Fannberg sem var heima hjá mömmu enda enn of ungur til að fara á svona samkomu.
Mér finnst alltaf svo gaman að fara á brennuna og flugeldasýninguna á þrettándanum – einhvern veginn alveg ómissandi þáttur í því að loka endanlega þessum hátíðahöldum. Á morgun verður svo hafist handa við að pilla allt niður og koma því í réttar umbúðir og síðan í kassa sem geymdur er á efstu hillu til næstu aðventu.

Eins og tilhlökkunin er alltaf mikil á aðventunni að setja smám saman upp meira og meira af jóladóti þá er tilhlökkunin eftir áramótin jafn mikil að taka þetta allt niður og koma því í geymslu. Taka síðan upp það sem þurfti að víkja yfir hátíðirnar, koma því á sinn stað og þrífa vel.

Svo finnst mér líka tilhlökkun að fá þessa venjulegu daga aftur. Komast í vatnsleikfimina, til sjúkraþjálfarans, fara kannski að kíkja á tuskurnar og saumavélina, að ekki sé nú talað um að fara að borða hollari mat. Ég gerði það nú strax á milli hátíða að losa mig við sælgætið sem ég hafði keypt en skildi þó konfektið sem ég fékk á jólunum eftir, en það fer í frost fram að páskum. Svo er spurning hvort ég losa mig ekki við afganginn af smákökunum svo maður sé ekki að narta í þær í kaffitímum – en það gerir maður oft án þess einu sinni að langa í kökur – þetta er bara til og er sett á borðið.
Laufabrauðið kláruðum við hinsvegar á meðan við horfðum á Taggart í kvöld og sömuleiðis Camembert ostinn sem ég átti eftir. Ég elska allar þessar ostategundir og á mjög erfitt með að vita af slíku í ísskápnum. Núna verður hinsvegar eingöngu keyptur brauðostur – nema auðvitað sé von á gestum. Humm, ætli ég þurfi ekki að bjóða einhverjum í heimsókn á næstunni ???

Já nú er svo sannarlega tímabært að snúa við og bæta svefn og heilsu svo um munar.

Ég hlakka líka til á venjulegu dögunum sem eru framundan því þá trúi ég að meiri samskipti verði á milli okkar bloggaranna. Það hefur verið frekar dauft yfir bloggsamskiptum hjá okkur þennan tíma enda flestir á ferð og flugi, innanlands og utan.

Nú er best að koma sér í rúmið enda klukkan að verða hálf eitt. Ég stakk mér í tölvuskápinn á meðan Haukur er að horfa á einhverja stríðsmynd sem ég nennti ekki að horfa á í imbanum.

Nú kem ég hinsvegar út úr skápnum og loka á eftir mér. Góða nótt og góða alla dagana sem framundan eru.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Jólin að baki og mál að snúa til hollara lífernis.

  1. Linda says:

    Já, það er eins gott að koma út úr skápnum.. hahahaha..
    Ég er alveg sammála, það er alltaf tilhlökkun að fá hversdaginn eftir allt þetta hátíðarstúss og matarát..

    Takk fyrir öll samskiptin á síðasta ári elsku Ragna..

  2. Ragna says:

    Gleðilegt árið Ragna mín,

    það er alltaf gaman að lesa frá þér pistlana – og sérlega áhugavert að þú hafir ákveðið að koma út úr skápnum svona eitt kvöld til tilbreytingar. Þó hef ég á tilfinningunni að þú sækir fljótt í skápinn aftur…hahahaha…

    Bestu kveðjur,
    Stefa

  3. afi says:

    Heilsurækt
    Nú eru rauðu dagarnir á enda og svörtu dagarnir teknir við. Ja nú er það svart maður allt orðið hvítt. En framundan er heilsuátakið. Nema að maður vilji halda í aukaforðann ögn lengur. Hversdagslíf er líka líf. Svo það er að drífa sig útúr skápnum og fara að trimma. Áfram gakk.

  4. Ragna says:

    Skrítið
    Ég var að kíkja á orðabelginn hjá mér og sé þá að það er eins og ég hafi sjálf skrifað kommentið frá Stefu. Hér er eitthvað mjög undarlegt í gangi???

Skildu eftir svar