Vefjagigtin leiðinleg, en meðferðin í gær yndisleg.

Ég hef verið haldin ótrúlegu orkuleysi og gigtarverkjum í nokkurn tíma og svefninn í miklum ólestri. Ég hef því ekki látið mikið að mér kveða hérna á síðunni minni. það er nú svo sem ekki eins og þetta sé eitthvað sem kemur mér að óvörum og ég hafi ekki kynnst fyrr, en það er jafn pirrandi samt. Þetta er bara fylgifiskur þeirrar leiðinda kellingar Gigtarinnar sem hefur í vetur sérstaklega verið að hrella okkur sem eigum erfiðara með að berja hana frá okkur. Svona veðrátta eins og hefur verið frá því í haust er nú ekki uppáhald okkar sem sogum í okkur allar kröppu lægðirnar og leyfum þeim að ólmast í okkur og berja okkur að innan svo að undan verkjar og svefninn raskast svo að nokkrir klukkutímar á hverri nóttu fara í göngutúra innanhúss.

Þegar ég var barn þá heyrði ég ömmu mína tala um að "fjárans lægðin hefði farið svo illa í skrokkinn á sér" og stundum sagði hún fyrir um mikið rigningarveður þannig "nú er einhver ljót lægð á leiðinni, það finn ég á skrokknum á mér". Mér fannst þetta fyndið þá og hélt að þetta væri nú aðallega eitthvað sem amma var að segja en hún var stundum sérkennileg í tali.
Nú finnst mér þetta ekkert fyndið því þetta er nákvæmlega það sem gerist og ég er sko ekki ein um að vita það.

Það bætti ekki úr skák að sjúkraþjálfarinn var í fríi frá því viku fyrir jól og til 8. janúar svo ekki var hægt að leita í nálastungurnar og hvað var þá til ráða? Bólgueyðandi gigtarlyfin sem ég vil helst alltaf geyma uppi í skáp voru tekin fram en ekkert gagnaði. Svefnlyf eru á bannlista hjá mér og ég vil ekki venja mig á að taka svoleiðis. Þegar ég er í svona ham, þá sofna ég svo til um leið og ég leggstist á koddann, sef í svona klukkutíma glaðvakna þá og enda með því að ganga um gólf næstu 4 – 5 tíma án þess að finna fyrir syfju en sofna svo kannski aftur í 2 – 3 tíma eftir að hafa lesið moggann sem kemur svo snemma hérna. Ekki er um það að ræða að leggja sig yfir daginn þó vilji væri til því maður verður ekkert syfjaður bara meira og meira dofinn í hausnum.

Allar sögur enda vel og þessi gerir það vonandi líka. Sjúkraþjálfarinn er kominn úr fríi og búinn að stinga mig tvisvar og hef ég aðeins lagast við það. Svo er rúsínan í pylsuendanum sem vonandi endist mér í einhvern tíma.

Ég fór í höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð seinni partinn í gær og það virkaði svo vel á mig að ég svaf meira og minna yfir sjónvarpinu í allt gærkveldi og það sem meira er ég svaf í níu klukkutíma í nótt án þess að rumska (og án nokkurra gigtarlyfja). Vaknaði bara við klukkuna klukkan hálf ellefu í morgun og hefði sjálfsagt getað sofið í allan dag því mér fannst ég alls ekkert útsofin þegar klukkan hringdi. En það er nú best að vakna fyrir hádegið svo maður fari ekki að snúa sólarhringnum við.

Ég er svo þakklát henni Guðbjörgu Stefánsdóttur fyrir Höfuðbeina- og spjaldhryggs meðferðina í gær. Hún gaf mér svo góðan tíma og gerði þetta svo vel. Ég hef farið til hennar áður með góðum árangri, en vildi ekkert vera að trufla hana yfir jólin. Ég trúi því nefnilega að hún hefði tekið mig í meðferð þó svo að hún hefði sjálf verið búin að ákveða að gera eitthvað allt annað. Ég segi bara Takk, Takk.

—————————————

Ég ætlaði nú að sleppa því að fara að væla um þetta hér, en ef það skyldi koma öðrum sem líður illa vegna vefjagigtarinnar til góða að vita að bæði nálastungur og höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð getur gagnað, þá finnst mér rétt að miðla slíkum upplýsingum. Persónulega finnst mér allt betra en að þurfa að taka pillur.

Heyrumst hress, kát og útsofin kæru bloggvinir.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Vefjagigtin leiðinleg, en meðferðin í gær yndisleg.

  1. Linda says:

    Oohhh!! Bagalegt að heyra svona sögur.. Vildi að ég gæti gert eitthvað fyrir þig elsku Ragna..
    Gott að heyra að þér líður betur núna.. kannski ég hvísli þessar sögu í eyra ömmu minnar, sem einnig þjáist af hinum ýmsu gigtum..
    Bestu kveðjur

  2. Þórunn says:

    Ég var nú farin að undrast að heyra ekkert frá þér, Ragna mín. En mikið er gott að heyra að þú skurlir vera svo heppin að hafa þetta góða fólk þarna á Selfossi, sem býr yfir þessari sérstöku þekkingu sem getur hjálpað þér svona vel. Mér finnst endilega að fleiri eigi að fá að frétta af þessu og njóta þess líka að losna frá þrautum og svefnleysi. Líði þér sem allra best. Kveðja frá Austurkoti

  3. Svanfríður says:

    Gigtarfjandi! En gott að lesa að þú hafir orðið betri við meðferðina sem þú fékkst. Svefnleysi er eitt það versta og er ég glöð að sjá að þú hafir getað sofnað. Sofðu vel í nótt. Svanfríður.

  4. afi says:

    Ný manneskja.
    Vonandi verður þú eins og ný sleginn túskildingur eftir þesa meðferð. Þetta er alveg ótækt að hafa svona líðan. Innan tíðar verðuru ný og betri manneskja hvað heilsuna varðar. Þess óskum við bloggvinirnir.

Skildu eftir svar