Á Kanarí – eða hvað?

Gamla konan hefur verið slæm af gigt og einhverjum vesaldómi í vetur. Sjúkraþjálfarinn benti henni á að fara í nokkra ljósatíma því hitinn myndi vera svo góður fyrir hana. Hún var á báðum áttum því húðsjúkdómalæknir hefur skipað hana í áhættuhóp og bannað henni að fara í ljósabekki vegna gamals sólbruna, sem hún varð fyrir uppi á jökli á unglingsárunum.
Eftir nokkra umhugsun ákvað sú gamla þó að gleyma þeirri ráðleggingu í bili og ákvað að fara frekar að ráðum sjúkraþjálfarans.

Á ljósastofuna mætti hún því galvösk. Þar uppgötvaðist svo að hún átti eftir tvo tíma af fimm tíma korti sem hún hafði átt fyrir um það bil ári síðan. Hún varð hissa þegar stúlkan bauð henni að nota þessa tvo tíma ef hún borgaði hundrað krónur í viðbót fyrir hvorn tíma. Þetta var sú gamla fljót að samþykkja enda hélt hún að þessir tímar væru löngu glataðir.

Hún var nú komin inn í klefann og komin úr þeim spjörum sem tilheyrir að afklæðast fyrir slíkt bað sem þetta. Hún hafði líka vafið stórri slæðu um höfuð sér til að verja fíngert hárið sem vill verða þurrt og brennt í slíkum ljósum. Einnig hafði hún klemmt milli augna sinna tvær dökkar glyrnur sem eiga að verja augun.
Sú gamla var ákveðin í því að fara í góða slökun og ímynda sér að nú væri hún komin til Kanaríeyja þar sem sólin léki sér um auman kroppinn. Hún hefur heyrt að það sé oft vindgjóla á Kanarí svo hún lét það ekkert á sig fá þó hálfgert rok væri inni í ljósabekknum til að kæla mesta hitann. Þetta lofaði allt góðu.

Sú gamla var rétt búin að hagræða sér á bekknum og var að byrja að láta sig dreyma um suðræna sól þegar önnur svarta glyrnan nánast fauk af auganu. Slökunin sem var um það bil að nást, fór út í veður og vind og sú gamlal þeyttist aftur til veruleikans. Nú var vandi á höndum því það mátti auðvitað ekki opna augað til að leita að glyrnunni en það var sama hvað sú gamla þreifaði allt í kringum sig hún hafði ekki árangur sem erfiði. Þá áræddi hún að kíkja aðeins í skerandi bjart ljósið og viti menn, jú glyrnan var alveg niður við hné. Ekki hafði þeirri gömlu dottið í hug að hún hefði fokið svo langt.

Loks var nú glyrnan komin aftur á sinn stað og sú gamla fór á ný að hugsa um Kanarí. Nú beindist hugurinn að því hvað það væri nú gott að vera svona heitur á kroppinn og láta heita goluna leika um hárið á sér.
Hárið! Bíddu við var því ekki pakkað inn í slæðuna?
Nei aldeilis ekki, því í rokinu í bekknum hafði slæðan fokið af svo nú þurfti að teygja hendurnar upp og laga hana. Ekki vildi þá betur til en svo, að hin fjárans glyrnan datt úr og lengi vel fann sú gamla hana ekki þrátt fyrir að strjúka með höndunum um allan bekkinn alla leið niður fyrir hné. Þá datt henni í hug að hún hlyti að hafa flækst í slæðuna og fór að fálma eftir henni þar og jú, þarna var fjárans glyrnan. Nú var slæðan fest undir litla koddann sem var undir höfðinu svo hún fyki nú ekki aftur í þessu mikla roki og glyrnurnar voru nú klemmdar fastar en nokkru sinni í augngrópina.

Loksins var allt fullkomið og tilbúið að njóta og njóta – nema hvað?
Nú lægði snögglega storminn og allt myrkvaðist. Sólmyrkvi? Nei, tíminn var búinn. Sú gamla lá bara þarna eins og illa gerður hlutur á einhverjum glerbekk sem nú kólnaði með hraði. Hún sem var ekki enn búin að komast fullkomlega í Kanarífílinginn átti nú ekki um annað að velja en að hætta allri ímyndun, snúa sér að veruleikanum og staulast fram á gólfið. Ekkert Kanarí í þetta sinn.

Það er stór spurning hvort sú gamla gerir aðra tilrlaun og notar hinn tímann sem hún á inni, eða kannski hættir hún bara alveg að hugsa um þetta blessað Kanarí sem á að vera svo gott fyrir kroppinn. Kannski er þetta bara allt saman blekking.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Á Kanarí – eða hvað?

  1. Sigurrós says:

    Það getur greinilega verið hættulegt fyrir gamalt fólk í áhættuhópi að bregða sér í ljós 😉 Passaðu bara að rota þig ekki í bekknum ef þú áræður að fara aftur 😉

  2. afi says:

    Sólarraunir
    Þær raunir eru greinilega ekki betri en aðrar raunir. Lát eigi hugfallast, reyndu aftur og láttu reyna á hvort ekki gangi betur næst.

  3. Jóhanna/Jólanta says:

    Alltaf eru hrakfallasögur skemmtilegar:-) Já ég er nú sammála afa um að þú eigir að gera aðra tilraun, en farðu varlega mín kæra!

  4. Stefa says:

    Já ef komast má svo dónalega að orði þá pissaði ég nánast á mig af hlátri! Ragna þú segir alveg einstaklega skemmtilega frá….

    Ég man eftir að hafa lent í svona glyrnu-eltingarleik því ég hef ekki farið í ljós í mörg ár en síðast þegar ég fór var viftan voðalega kraftmikil og ég mátti halda mér allri við svo ég hreinlega héldist í bekknum.

    Hlakka til að heyra meira frá þér.
    Kveðja,
    Stefa

  5. Svanfríður says:

    Fyrirgefðu Ragna mín en ég verð að viðurkenna að ég hló svolítið við þennan pistil-þetta hefur ekki verið þinn dagur í ljósum. Ætli að það jafnist nokkuð við það ekta? Það er sólarstrendur….en ef þú ferð aftur í ljós þá gangi þér vel. Eitt gott við að vera á svona iði-þú kannski brennur minna?

  6. Jens says:

    Ljósalampinn lúmskur hann er
    losaði næstum allt af þér
    líkt og í honum væri kröftug lægð
    sólar-lampinn gaf þér engva vægð
    það verður örugglega löng bið á því
    að þessi lampi verði heimsóttur á ný.

    (varstu ekki bara í falinni myndavél)

    kv Jens.(jóapabbi).

  7. Ragna says:

    Alltaf gott að geta hlegið.
    Það er alltaf gott að geta hlegið og þó að þetta hafið auðvitað verið hádramatískt á meðan á því stóð þá hló ég nú með sjálfri mér og sá að einn kostur væri þó við svona uppákomu. Ég hefði þá eitthvað til að skrifa um.
    Jens, þakka þér kærlega fyrir kveðskapinn.
    Kær kveðja til ykkar allra.

  8. Þórunn says:

    Ljósabekkurinn
    Það er gott að sjá alltaf björtu hliðarnar á öllu sem manni finnst fara miður og það er auðvitað svo bjart í ljósabekknum að það er ekki hægt annað en sjá björtu hliðarnar þar. En þetta var nú annars meira baslið á þér Ragna mín, vonandi getur þú slappað betur af í næsta tíma. Annars kemur ef til vill annar pistill um „Hvað gerðist í ljósabekknum í dag?“

  9. Ragna says:

    Stjórnborðið fundið.
    Ég tók í gær hinn tímann sem ég átti inni og það gekk allt betur. Ég veit núna að ég get sjálf stjórnað blæstrinum svo þetta var bara fínt. Ég held samt að ég láti nú þessa tvo tíma duga í bili. Þori ekki alveg fara of oft. Sé til með einu sinni í viku það er kannski ekki svo hættulegt.

  10. Linda says:

    Jeminneinikleini.. ég sá þetta allt svo ljóslifandi fyrir mér og nappaði sjálfa mig af að hlægja upphátt.. þú vonandi fyrirgefur..

Skildu eftir svar