Með vor í hjarta á föstudegi í febrúar.

Það var fallegur dagur i dag. Hitinn var um frostmark, sólin skein og það var alveg logn. Ég ákvað að opna úr þvottahúsinu og út á pallinn, síðan sótti ég mér stól og settist í gættina. Það var yndislegt að láta sólargeislana leika um sig og vita að í hverjum þeirra væri ögn af því D-vítamíni sem líkamann hefur vantað úr dagsbirtunni í vetur. Þar sem ég sat þarna þá fannst mér svo stutt þangað til vorið kæmi og ég lét mig dreyma um tímann sem framundan er. Tímann þegar náttúran vaknar á ný, þegar trén laufgast og rósir og önnur blóm koma með knúppa og opnast síðan fagurlega hvert á sinn hátt. Þegar hægt verður að drekka morgunkaffið á pallinum og nágrannar bjóða hver öðrum glaðlega góðan dag og spjalla aðeins saman þegar þeir líta upp frá garðverkunum.

Ég var ekki ein um að láta mig dreyma þarna í dyragættinni í dag, því lítill snjótittlingur sat  á einum stólpanum rétt fyrir framan mig. Þessi litli vinur minn haggaðist ekki allan tímann sem ég sat þarna þó að kunningjarnir sem sátu og gæddu sér á korninu með honum flygju allir burt þegar ég opnaði dyrnar. Ég efast ekki um að hann lét sig líka dreyma um vorið og útsprungin tré og gróður.

fugl1jpg.jpg

Það er endalaust sem sólin útbýr ný og ný mynstur 

vetrarsol3.jpg

 

Mikið eigum við nú gott að búa í landi með svona breytilegum árstíðum sem hver hefur sinn sjarma. Stundum er maður ekki nógu þakklátur fyrir það.  Ég kveð ykkur með vor í hjarta.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Með vor í hjarta á föstudegi í febrúar.

  1. Svanfríður says:

    Það er rétt Ragna-við eigum að vera þakklát fyrir hluti eins og árstíðirnar og mér sýnist þú vera það:)

  2. Linda says:

    Vorið er yndislegur tími, ilmurinn af nýslegnu grasi, nýútsprungin blóm, nýfædd laufblöð á stóru trjánum..
    Reyndar hafa allar árstíðirnar sinn sjarma, hver á sinn hátt..

  3. afi says:

    Sjarmi
    Það er ekki nóg með að hver árstíð hafi sinn sjarma heldur hafa mismunandi veður það líka. Við bíðum vorkomunnar með tilhlökkun. Ekki spurning.

  4. Helga E. Kristinsdóttir says:

    Þakkir.
    Heil og sæl! Ég leitaði að góðri kleinu-uppskrift á netinu og endaði inni á síðunni þinni – varð svo hrifin, glæsileg síða og ljósmyndirnar þínar af fuglunum og náttúrunni eru svo undur fallegar. Þær minna mann á að líta sér nær og njóta litlu einföldu hlutanna sem gleymast svo oft á þessari vegferð okkar sem lífið er. Lærdómsríkt að sjá konur á mínum aldri nýta sér tölvutæknina á þennan hátt.
    Uppskriftirnar þínar eru frábærar, ég bauð mínum ágæta eiginmanni upp á Sælkeraýsuna – vakti bara lukku þann daginn. Hafðu þökk fyrir að deila þeim og síðunni allri með okkur hinum.
    Kveðja, Helga.

  5. Ragna says:

    Gott að geta aðstoðað.
    Mín er ánægjan ef uppskriftasafnið mitt kemur einhverjum að notum. Til þess er leikurinn gerður að sitja ekki einn að góðum hlutum.
    Kær kveðja til allra sem koma hérna í heimsókn.

  6. Simmi says:

    Sumarið
    Flottar myndir hjá þér 🙂

    Við förum heim um miðjan júní og komum aftur út ca í lok ágúst.

    kv/Simmi

  7. Kolla frænka says:

    kveðja..
    Sæl kæra frænka, mér finnst alltaf gott að lesa skrifin þín, þú ert svo bjartsýn og glöð. Já það er gott að vera til…. knús frá Kollu

Skildu eftir svar