Tæknin frábær.

Ég heyrði það í hádegisfréttunum að nú sé hægt að græða nýtt leg í konur, sem af einhverjum ástæðum hafa þurft að láta fjarlægja leg sitt.

Þessar fréttir snertu mig talsvert og ég hugsaði til baka til þess tíma þegar fjarlægja þurfti mitt leg þegar ég var rétt rúmlega þrítug og nýbúin að eignast mitt annað barn.  Ég velti því ekki mikið fyrir mér þá hvað það væri alvarlegur hlutur að láta fjarlægja þetta mikilvæga líffæri  heldur fylgdi því mikill léttir að losna við miklar og langvarandi kvalir alla meðgönguna. Svo komu mikil veikindi eiginmannsins í beinu framhaldi svo ég hugsaði ekki mikið um þetta þá. Ég hef hinsvegar oft hugsað um það síðan hvað það var í raun alvarlegur hlutur fyrir svo unga konu að missa legið.  

Ég hef líka fylgst með baráttu ungrar konu sem hefur lengi verið að reyna að verða ófrísk, en hún er með leg sem hefur hamlað því að draumurinn um barn hafi orðið að veruleika. Með þessari frábæru tækni á hún nú nýja von.  Svo eru auðvitað allar hinar sem maður þekkir ekki eða veit um sem nú geta horft bjartari augum fram á veginn.

Það gleður alltaf þegar maður fær þessar fáu góðu fréttir í fréttatímunum. Hinar fréttirnar eru svo yfirgnæfandi sem nánast gera mann þunglyndan að hlusta á.

Þetta voru nú vangaveltur mínar þennan morguninn.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Tæknin frábær.

  1. Sigurrós says:

    Það er stórkostlegt hvað tæknin getur gefið mörgum nýja von! 🙂

Skildu eftir svar