Til hamingju Ingunn mín og John

Í dag á hún Ingunn mágkona mín, systir Odds heitins, 60 ára asfmæli og ég óska henni hjartanlega til hamingju með daginn.  Nú er hún í háloftunum ásamt John sínum, sem líka fagnar sömu tímamótum innan skamms, á hraðri leið heim til Íslands frá Bandaríkjunum þar sem þau búa nálægt Kanadísku landamærunum. En, þó hratt sé flogið þá nær hún ekki að vera heima á afmælisdaginn. En hún lætur það nú ekki á sig fá.

Ingunn lét sig ekki vanta í fimmtugsafmæli Lofts bróður síns,
þó hún þyrfti að koma um langan veg.
Hér ræðir hún við frændsystkini sín í veislunni. 

ingunn7jpg.jpg

 Svo er hérna mynd af John en ég átti þau ekki saman á stafrænni mynd
– verð snarlega að bæta ur því á næstu dögum.

john2_1.jpg

Við upplifðum sjokk lífs okkar við Oddur heitinn þegar þau giftu sig Ingunn og John, ekki af því við værum ráðahagnum mótfallin – öðru nær. Það var hinsvegar þannig, að við áttum  svo fína myndavél að það lá beinast við að við tækjum að okkur alla myndatöku bæði í kirkjunni og veislunni.  Sjokkið fengum við síðan þegar myndirnar komu úr framköllun, því þá kom í ljós að filman var auð  – þræðingin hafði mistekist.  Hjónabandið hefur aftur á móti staðið traust og gerir enn og sannar það,  að þó eitthvað misfarist í umgjörðinni við brúðkaupið  þá er það innihaldið sem gildir.

Ég bara verð að tala aðeins meira um hana Ingunni. Ég held, er reyndar alveg viss um, að hún Ingunn geri hvern dag að glöðum degi því hún er svo lagin við að laða að sér fólk og ná fram því besta sem það býr yfir.  Hún átti góðan vinahóp í Tacoma sem hún varð að yfirgefa þegar hún flutti um langan veg á nýjan stað.  Ekki leið þó á löngu þar til hún var m.a. búin að bjóða nýju nágrönnunum í heimsókn, stofna spilaklúbb, kynna sér félagsskap Vestur Íslendinga og taka þar þátt af fullum krafti.   Ég bæti því við að ekkert af þessu er oflof – þetta er bara Ingunn.

Það er reyndar svo ótrúlegt að hún sé 60 ára, því hún er alltaf sami unglingurinn og þegar ég  kynntist henni árið 1961.  Það er aldrei nein lognmolla í kringum hana og ef henni tekst ekki að koma fjöri í þá sem í kringum hana eru þá er þeim sömu ekki viðbjargandi. Hún var sú sem kenndi mér að tjútta. Mér fannst ég svo mikill klaufi og þjáðist af feimni og þorði því lítið að hafa mig í frammi á dansgólfinu með kærastanum mínum, stóra bróður hennar sem var svo mikill dansmaður.  Ingunn var hinsvegar líka svo flink eins og bróðirinn og hvað var þá nærtækara en að biðja hana að  kenna sér réttu sporin. það var auðsótt mál eins og annað hjá henni Ingunni minni  og á ég henni mikið að þakka því feimnin fauk fljótt af og tjúttsporin hafa komið sér mjög vel í gegnum tíðina og gera enn þó örlögin hafi hagað því þannig til, að ég hef nú fengið annan dansherra. 

Það var svo margt brallað þarna á síðustu öldinni  og varla hittumst við  Ingunn svo að ekki rifjist upp eitthvað skemmtilegt frá þeim árum. Ég set hinsvegar punktinn hér því annars gæti ég ekki stoppað mig af og sæti að skriftum í allan dag.  Ég er hinsvegar á leið í mitt fyrsta Kvennahlaup – ætla reyndar bara að ganga rösklega en ég vil bara ítreka hamingjuóskir mínar og segi.

TIL HAMINGJU
elsku Ingunn og John
með afmælin ykkar.
 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Til hamingju Ingunn mín og John

  1. Guðbjörg says:

    Hamingjuóskir
    Elsku Ingunn mín til hamingju með afmælið. Flott myndasería af litla rafmagnsmanninum, hann hefur væntanlega látið tilheyrandi hljóð fylgja úttektinni.
    kveðja
    Guðbjörg jr.

  2. Ragna says:

    Já Guðbjörg mín þú þekkir litla gaurinn þinn vel – það fylgdu sko miklar upphrópanir og OOO.

  3. Svanfríður says:

    Að eiga svona vini er gulls ígildi og er áreiðanlega gaman hjá ykkur þegar þið náið saman.
    veistu, ég vildi óska að ég kynni að tjútta alminnilega-og tvista. Sá sem ræður best við mig í dansi er pabbi og hef ég séð hann tvista og verð ég að viðurkenna að þá er karlinn flottur:)
    Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Skildu eftir svar