Dagur minninga.

Sumir dagar minna svo rækilega á sig og koma af stað minningaflóði og alls konar atvik löngu liðinna ára streyma fram. Einn slíkur dagur var í dag því fyrir 43 árum, þ.e. árið 1964 gekk ég 18 ára gömul í hjónaband og mannsefnið var 19 ára. Ekki eina mínútu þeirra ára sem okkur voru gefin til að vera saman í þessu lífi fannst okkur að við hefðum gift okkur of snemma og misst af einhverju. Við fengum oft spurningar um það hvort við hefðum ekki misst af því að vera ung og frjáls við að binda okkur svona snemma. Svar okkar beggja var einfalt NEI við misstum ekki af neinu, ferðuðumst mikið, bæði ein og með vinum okkar, skemmtum okkur saman og þegar við vorum 27 og 28 ára urðum við foreldrar. 
Það er ekki síst núna þegar Ingunn mágkona mín er á landinu að enn meira rifjast upp því það eru svo margar minningar frá okkar fyrstu árum sem tengjast henni. Oddur stóri bróðir sá nefnilega til þess að hún kom oft með okkur í ferðalög á þessum tíma – honum fannst hann alltaf þurfa að  passa upp á litlu systur svo  engir strákabjánar færu eitthvað að reyna við hana. Ha, ha, ha hún var bara tveimur árum yngri en ég. En það var alltaf rosalega gaman í þessum tjaldferðalögum okkar. 

Mikið er nú gott þrátt fyrir það hvað maður er að verða ferlega gleyminn, að maður skuli muna eftir löngu liðnum atburðum eins og þeir hafi gerst í gær. 

Bókin mín góða um hamingjuna segir að:  

 

Besta lækningin við elli
séu góðar minningar um
skemmtilegar stundir í
félagsskap vina.

Já, hve sönn eru þau orð.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar