Íslenskt mál.

Mikið finnst mér leiðinlegt að heyra fallega tungumálið okkar talað vitlaust. Nú er ég enginn íslenskufræðingur og lítt skólagengin og ætti því ekki að vera að setja út á hvernig aðrir fara með málið, en ég ann íslenskri tungu og reyni eftir megni að hafa hana sem réttasta og í minni bernsku var ég alltaf leiðrétt ef ég fór t.d. ekki alveg rétt með beygingar.
Nú er ég sem sé komin að kjarna málsins. Í morgun var ég sem oftar að hlusta á RUV nánar tiltekið Rás 1. Það var verið að ræða um minningarsafn Nóbelskáldsins okkar að Gljúfrasteini.
Ég kipptist við þegar í samtalinu kom þessi setning " Mörgum hefur dreymt um það ….."

Ég legg ekki meira á ykkur í bili.
Jú annars, fyrst ég er á annað borð komin i ham, þá ætla ég að nefna beyginguna á nafninu hennar Sigurrósar en það beygist eins og rós en ekki eins og rósa. Mér finnst erfitt að sitja á mér að leiðrétta ekki þegar ég er spurð hvort ekki sé allt gott að frétta af Sigurrósu.

Nafrnið Sigurrós beygist þannig:

Hér er Sigurrós

um Sigurrós

frá Sigurrós

til Sigurrósar

og nú legg ég ekki meira á ykkur – í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Íslenskt mál.

  1. Guðlaug Hestnes says:

    okkar..
    ástkæra ylhýra er gott mál, og tek undir með þér heilshugar. Í fréttum á Bylgjunni í dag var haft eftir manni sem reyndi að ræna sjoppu að „HONUM vantaði svo peninga“. Þann 23. júní var sagt á sömu rás að lengsta nótt ársins væri að renna upp með miklum „fyrirbörum“. Legg ekki meira á þig frú mín góð!.

  2. Já mikið er ég sammála þér. Svo er annað sem ég hef tekið eftir nýlega og það er að e er borið fram sem a af unga fólkinu og jafnvel í sjónvarpsauglýsingum, mikið er það hræðilegt að hlusta á! Ein var að tala um blattana í þvottinum, það voru engir blattir í þvottinum hjá henni. Er ég ein um þetta? Kveðja, Gurrý

  3. Svanfríður says:

    Ég er fyllilega sammála þér í þessum pistli Ragna. Mér þykir vont að heyra þessar málvillur og enn verra þykir mér að fólki þykja málvillur oft á tíðum vera lítilfjörlegar. En þær eru ekki lítilfjörlegar því þetta er tungumálið okkar og arfleið næstu kynslóðar. Allt er breytingum háð, einnig tungumálum sem er gott og vel en það þarf að breytast á réttan hátt. Einnig þoli ég ekki slettur og reyni nú, eftir fremsta megni, að sletta ekki því mín bíður afar verðugt verkefni en það er að íslenska börnin mín:)
    Gott að heyra að þér líður vel og ég bið svo að heilsa henni Sigurrósu:) (djók)

Skildu eftir svar