Enn á fullu.

Enn erum við á fullu fram eftir öllum kvöldum en  þetta er nú að klárast. Í dag voru settar fleiri hillur í litla þvottahúsið svo allt fái nú sitt pláss. Svo vorum við að setja upp gardínustangir i svefnherbergjunum og ég var, núna klukkan rúmlega eitt um nótt að klára að falda gardínur fyrir gestaherbergið.

Við höfum vegna þessara framkvæmda farið í IKEA bæði í gær og í dag. Þegar við vorum á ferð okkar í morgun þá datt okkur í hug að fá okkur morgunverð sem við sáum  auglýstan á kaffiteríunni og þar sem við höfðum bara drukkið morgunsafann sem Haukur útbýr á hverjum morgni þá settumst við að morgunverði í IKEA klukkan rúmlega 10.  Það er alveg ótrúlegt hvað þeir geta haft ódýrar veitingar þarna á kaffiteríunni. Við greiddum innan við 500 kall fyrir 4 rúnnstykki, 4 ostasneiðar 2 egg 3 skinkusneiðar, marmelaði, smjör og kaffi. Já ekki nema tæpar 250 krónur á mann.

Þar sem við sátum þarna í morgun og úðuðum í okkur þessum indæla morgunverði þá fékk ég framtíðarsýn sem fólst í því hvað við gamlingjar á höfuðborgarsvæðinu getum gert þegar harðnar á dalnum í ellinni.  Já einmitt, mæta bara í IKEA þegar opnar á morgnanna og borða þar morgunverð. Fara síðan inn í búð og finna sér góðan stól og setjast þar með Moggann. Það er nefnilega ekkert bannað að prufa að setjast í stólana þarna.  Þegar fer að líða að hádegisverði er ágætt að hreyfa sig aðeins og rölta smávegis um búðina sem býður upp á ýmsar gönguleiðir.  Síðan er mjög huggulegt eftir hádegisverðinn að rölta inn í rúmadeildina og finna sér þægilegt rúm með góðri dýnu og fá sér smá hænublund eftir matinn.  Rölta síðan  enn á ný í kaffiteríuna og fá sér kaffi og tertur og kannski er maður svo heppinn að hitta einhvern sem maður þekkir og þá er nú tíminn fljótur að líða fram að kvöldmat. Ágætt að borða svona um sexleytið því þá gæti maður náð heim til að horfa á fréttirnar – ég hef nefnilega ekki séð nein sjónvörp í gangi þarna annars þyrfti maður náttúrulega ekkert að fara heim.  Svona dagur þyrfti allt í allt ekki að kosta nema svona þúsundkall á mann og jafnvel innan við það og það sem meira er, það er líka opið á laugardögum og sunnudögum.  Ég hefði sem sé getað sparað mér að kaupa ísskáp í nýju íbúðina. Já svona er nú lífið í höfuðbiorginni.

Ég segi bara góða helgi og hafið aðeins biðlund enn eftir myndum úr Fensölunum.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Enn á fullu.

  1. Sigurrós says:

    Ekki svo vitlaust… 😉
    Ég hlakka til að koma í veislur til ykkar í IKEA, verður frumlegt að fá alltaf að sitja í nýrri og nýrri stofu í hvert sinn 😉 Og þið getið bara keypt ykkur ferðasjónvarp með batteríum og þá getið þið selt íbúðina í Fensölum á ný! 😉 hehe

    En svona til gamans má geta, að bandarískur grínisti lét í alvöru verða af þessu og bjó í IKEA í viku. Mig minnir að það hafi átt að gera eitthvað við íbúðina hans og honum datt í hug að flytja inn í IKEA á meðan og fékk til þess leyfi. Hann skrásetti reynsluna og er með myndbönd á heimasíðu frá dvöl sinni í búðinni. Nánar um málið á http://www.marklivesinikea.com/

    Já, þetta var ekki svo galin hugmynd hjá þér, mamma 😉

  2. Ragna says:

    Ja hérna, og ég sem hélt að þetta væri bara mín uppgötvun. En þetta sannar alla vega að hugmyndin er góð.

  3. Sniðug lausn..
    Á annars skemmtilegu „vandamáli“! Innilega til hamingju með þennan stóra áfanga. Slappið nú vel af og njótið daganna í dansi og leik. Kær kveðja.

Skildu eftir svar