Útsölur.

Ég var búin að ákveða að kaupa mér einhver falleg föt, sem kynnu að freista mín í í útlandinu en ekki fann ég nú neitt slíkt.  Ég ákvað því að kíkja bara á útsölurnar í fínu búðunum hérna heima.  Ég skrapp því  með Sigurrós í bæinn í gær og notaði tækifærið þar sem hún átti erindi á Laugaveginn, að líta inn í tvær tískubúðir. Ég var ekki alveg í stuði að skoða mikið en sá svona útundan mér að margt væri nú til. Ég ákvað því að drífa mig í morgun klukkan tíu og kíkja betur á úrvalið og láta nú slag standa ef ég sæi eitthvað sem verulega freistaði mín, þó verðlagið væri kannski aðeins hærra en það sem ég hefði vænst. Ég fór því af stað með mjög jákvæðu hugarfari, ákveðin í því að verða nú smart borgargella að verslunarferðinni lokinni.  Ég mátaði og mátaði bæði sparidress og allskonar fatnað en allt kom fyrir ekki ég var bara ekki að fíla mig í því sem ég mátaði. Afraksturinn varð því harla rýr – einar hálfsíðar gallabuxur og ein skyrta. Ætli ég sé ekki eitthvað afbrygðileg að eiga svona erfitt með að láta mig langa í þau föt sem á boðstólum eru.

Ég var alveg rosalega fegin að komast heim rétt fyrir klukkan tólf ákveðin í því að ég ætti nóg af fötum til þess að hylja nekt mína (Þörfin fyrir það eykst reyndar með árunum því alltaf bætist eitthvað fleira við það sem þarf að fela).
Ég ákvað að vera bara ánægð með það sem ég ætti, þó ekkert af því tejist sjálfsagt smart það væri ýmislegt hægt að gera þarfara við peningana en að henda þeim í tískufatnað sem væri svo kominn út tísku aftur næst þegar maður sneri sér við í nýju fötunum.  Ekki veit ég hversu lengi þessi sannfæring mín við sjálfa mig virkar en á meðan ætla ég að vera syngjandi glöð í gömlu fötunum mínum.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar