Upphaf ferðasögunnar.

Við lögðum upp í Danmerkurferðina okkar á sjálfan þjóðhátíðardaginn í sól og blíðu. Loksins kom sem sé 17. júní með góðu veðri og þá rjúkum við í burtu til landsins sem lengst réði yfir okkur Íslendingum. En þær gömlu syndir eru nú löngu fyrirgefnar og nú eru allir vinir. 

Við lentum í Billund um hálf tíu um kvöldið. Þar tók Magnús Már á móti okkur og síðan var ekið að sumarhúsinu sem þau Magnús og Guðbjörg höfðu tekið sér á leigu og voru búin að vera í í nokkra daga þegar við komum.

Fyrsta daginn okkar fórum við öll á víkingasafnið í Ribe og skoðuðum okkur um í bænum. Þar rákumst við á þessa sérkennilegu kirkjubyggingu.

 Takið eftir turnunum – Hvílíkt arkitektaslys.
Ætli þeir hafi drukkið of marga bjóra á meðan unnið var við hönnunina? 

ribe1.jpg

Daginn eftir fórum við til Kolding og röltum um bæinn og fórum í sundhöllina þar.
Það kom nú svolítið kómískt upp í sundhöllinni. Þannig var nefnilega að um morguninn var ekkert búið að ákveða að fara í sund svo amma gamla  fór í sturtu og hafði mikið fyrir því að gera fínt á sér hárið og setja á sig andlit – síðan var ákveðið að fara í sund.

Við fórum auðvitað í sápuþvottasturtu án sundfata eins og við gerum hérna heima, en hárið datt ömmu ekki í hug að bleyta enda ætlaði hún ekkert að synda – búið að banna slíkt út af bakinu svo það stóð aldrei til. Karlotta og Oddur voru svo spennt að leyfa ömmu og afa að sjá hvað þau væru flink að fara í allskonar heljarstökk af háa stökkpallinum. Nú kom sér nefnilega vel að hafa verið í fimleikum. 

Við völdum okkur að sitja á brúninni á vaðlaug þarna úti í horni, þar sem Ragnar Fannberg lék sér, og við höfðum bara fæturna ofaní. Þaðan sáum við vel á stökkpallinn.  Ég tók mig síðan til og gekk nær til að segja krökkunum hvað mér þætti þau flink.  Veit ég þá ekki til fyrr en starfsmanneskja kemur til mín og segir með nokkrum þjósti að ég verði að fara inn og í sturtu. Ég varð mjög undrandi á þessu og sagðist hafa farið í sturtu án sundfata eins og ég sé vön heima á Íslandi. "Þú verður að þvo á þér hárið". Nei það geri ég ekki sagði ég og bætti því við að ég hefði þvegið það áður en ég kom og ég ætlaði ekki í sundlaugina.  Reglurnar segja að þú verðir að þvo á þér hárið. Ég sagðist bara ætla að sitja þarna í smá stund og fylgjast með barnabörnunum mínum og hárið á mér kæmi ekki við neitt nema mitt eigið höfuð. Ég væri með hreint hár. "Reglurnar segja…. "  Ég sagðist þá bara verða að fara, því ég þvægi ekki á mér hárið.  Svo labbaði ég aftur að vaðlauginni þar sem þau hin voru og settist þar. Starfskonan, þessi með lummmó hárið sem greinilega öfundaði mig af því hvað ég var fín, lufsaðist í burtu og ég ákvað að bíða átekta.  Eftir nokkra stund kom yngri starfskona og sagði það sama við mig, að ég yrði að þvo á mér hárið.  Hún fékk sömu skýringu en þar sem hún sá að ég var ekkert á leið í sundið þá sagði hún að þetta væri allt í lagi ef ég færi ekki í sundlaugina. 
Ég gat nú ekki annað en hlegið að því hvað ég, pjattrófan frá Íslandi, olli miklu uppnámi þarna bara fyrir það að ég var með fína hárgreiðslu og meira að segja varalit. Sem sé algjör skandall á danska vísu.  Það er ekki alveg allt búið. Þegar við fórum uppúr og sóttum fötin okkar lenti ég í vanda.  Við vorum með svona merki til þess að opna með skápana með fötunum okkar í. Merkinu átti að þrýsta á læsinguna á skápnum og þá átti hann að opnast. Auðvitað opnuðust skápar allra nema skápur pjattrófunnar hann opnaðist ekki hvað sem gert var við merkið. Það endaði með því að sækja þurfti starfskonu og loks kom sú sem í seinna skiptið sagði mér að fara í sturtuna. Þetta var ung stúlka ósköp elskuleg. Ég spurði hana hvort það væri nokkuð verið að "straffa" mér fyrir að hafa ekki þvegið á mér hárið. Þá brosti hún bara og sagði nei,nei ekkert svoleiðis. Hún sótti svo græjur til þess að opna með og ég fékk fötin mín. Ég var fegin að gribban sem fyrst talaði við mig kom ekki til að opna skápinn því hún hefði örugglega látið mig dúsa áfram á sundbolnum af því ég hafði ekki viljað gegna henni.

Svona fór um sundferð þá.

Nú er þessi pistill sem átti að spanna alla ferðasöguna orðinn svo langur út af einni sundferð, að ég legg ekki meira á ykkur í bili og verð að koma með framhaldið síðar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Upphaf ferðasögunnar.

  1. þórunn says:

    Sundferð án sunds
    Já Ragna mín það getur stundum verið erfitt að vera pjattrófa, en sinn er siður í landi hverju og á það við um sundferðir líka. Þú varst heppin að vörðurinn skipaði þér ekki að setja á þig sundhettu, þá hefði verið útséð um fínu hárgreiðsluna.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla
    Þórunn

  2. Ragna says:

    Sundhettan OK
    Veistu Þórunn mín að ég hefði reyndar alveg verið til í sundhettuna en bara alls ekki að fara að þvo mér upp á nýtt. Ég var ekki með neitt shampo, ekki froðu í hárið eða neitt sem til þurfti og við ætluðum ýmislegt að gera þarna og langt heim.

  3. Svanfríður says:

    Það yrði gaman að gefa út bók með sundreglum hinna ýmissa landa því þær eru afar ólíkar. Á meðan þetta eru reglurnar þarna þá þarf ekkert að sturta sig áður en stigið er í sundlaugarnar í öðrum löndum.

Skildu eftir svar