Borgarferð /jólalok.

Þá fer nú að fækka þessum blessuðu jóladögum. Þau eru alveg einstök þessi jól. Alla aðventuna er tilhlökkunin og ánægjan allsráðandi og yndislegt að skreyta hjá sér og undirbúa. Svo koma jóladagarnir sjálfir með góðum samvistum við sína nánustu og með miklum og góðum mat og tilheyrandi. Það má segja að það sé hápunkturinn, síðan fer þetta að fara niður á við, því næstu daga heldur maður um magann sem maður er búinn að misbjóða hvílíkt. Síðan stígur maður á vigtina og þá fer geðheilsan í mola þegar í ljós kemur að það er ekki vigtin sem er biluð heldur er maður einfaldlega búinn að borða of mikið af mat, kökum og konfekti. Núna þegar einn dagur er eftir þá bara bíður maður eftir að geta farið að taka skreytingarnar niður og þrífa ærlega í kringum sig. Næst er að losa sig við sætabrauðið sem eftir er (ætli það megi mylja það niður fyrir smáfuglana???) 🙂  og frysta konfektafgangana og reyna að gleyma því að þeir séu í frystinum. Fá sér bruðu með kaffinu um miðjan daginn í staðinn fyrir sætabrauðið og borða fisk í öll mál. Svo þarf náttúrulega að ganga af sér spikið. Við ætluðum nú að byrja á því í dag systurnar en sáum að það væri lífshættulegt að ætla að ganga í þessari hálku svo við látum bara duga að fara í sundleikfimina á morgun. Annað kvöld lýkur svo blessaðri jólahátíðinni hér á Selfossi með því að haldin verður  þrettándabrenna með álfum, tröllum og tilheyrandi að ógleymdri flugeldasýningu og þá loksins er hægt að fara að pakka niður jóladótinu og taka upp dótið sem var pakkað niður í kassa yfir hátíðirnar. Ég er svo föst í hefðunum að mér finnst ég aldrei geta tekið niður dótið fyrr en eftir þrettándann.


Í gær drifum við Haukur okkur að sjá Hringadróttinssögu. Við sáum fyrsta hlutann í bíó og síðan horfðum við um daginn 2. hlutann á Video og nú var bara að drífa sig í bæinn til þess að sjá lokaþáttinn. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þetta er algjört meistaraverk að allri gerð. Það er alveg ótrúlegt hvernig þetta er útfært og framkvæmt. Það væri gaman að sjá einhverntíman aukamyndina sem búin hefur verið til um gerð þessarar myndar og tæknibrellurnar sem notaðar eru. Ég hef aldrei lesið Hringadróttinssögu eða Hobbitann. Ég er að spá í að taka Hobbitann á bókasafninu og lesa hann því mér skilst að þar sé grunnurinn að þessu ævintýri. 


Ég var nú með áform um að kíkja kannski á útsölur og gera eitthvað fleira í bænum í dag en það var farið að snjóa í Hafnarfirðinum í morgun svo mér fannst réttast að koma mér bara af stað. Ég var nú að hugsa um að stoppa í Smáralindinni þegar ég ók þar framhjá en nennti því ekki og ók sem leið lá og stoppaði ekki fyrr en í Sóltúninu en þangð var ég komin klukkan tólf. Ég er að spá í hvort bíllinn minn sé með sál og passi upp á að ég komi hvergi nálægt búðum því ég er alltaf komin heim án þess að gera neitt í bænum sem ég hef ætlað að gera, sérstaklega ef ég hef ætlað í búðir. Annars var bylur og ofsalega hált á heiðinni. Ég svoleiðis dansaði á veginum þegar ég steig á bremsurnar til þess að draga úr ferðinni sem þó var alls ekki mikil. Ég var því mjög sæl og ánægð þegar ég var komin heil heim.  Núna klukkan þrjú er hinsvegar komið hið besta veður.


Ég á ekki von á frekari tíðindum í dag og læt því punktinn hér .

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Borgarferð /jólalok.

  1. Já, passaðu þig á hálkunni!
    Sæl Ragna mín!
    Gott að þið systur létuð skynsemina ráða, það er alls ekki hentugt göngufær, a.m.k. ekki í þéttbýli, sérstaklega þar sem enginn hiti er í gangstéttum. Bið að heilsa. Anna Sigga

Skildu eftir svar