Hvílík skilaboð.

Í morgun fylgdi Morgunblaðinu aukablað um menntun og kennir þar margra grasa og gaman að renna augunum yfir það sem í boði er.

Ég hrökk hinsvegar við þegar ég sá risafyrirsögn, sem hljóðar þannig:

"Vertu ekki eins og algjör lumma í vetur."

Það er auðvitað engin ástæða til þess að vera lummulegur, en mér ofbýður hinsvegar efni greinarinnar sem hefst þannig: 

"Eitt af stærstu vandamálunum við það að fara aftur í skólann er að tolla í tískunni…"

Síðar í greininni  kemur þetta:

"Sumir misreikna sig algjörlega og mæta óendanlega hallærislegir á fyrsta degi í fötum  sem fóru úr tísku í byrjun sumars."

Hvaða skilaboð er eiginlega verið að senda námsfólki? Ég hélt að stærsta vandamálið við að vera í skóla væri að hafa tíma og getu til að stunda nám og peninga fyrir skólagjöldum, bókum og öðru nauðsynlegu sem þarf til námsins. Síðan þarf vitanlega að vera hægt að fá sér eina og eina flík.  En að teljast hallærislegur og geta ekki mætt í fötum sem þóttu smart og í tísku s.l. vetur og vor er bara fyrir ofan minn skilning.

Það fylgdi mynd af stúlku í tískufötum komandi vetrar og ef myndin kemur þokkalega fram takið þá eftir verðinu. Kjóllinn á 56.900 m 50% afslætti, peysa kr. 55.590 m 50% afsl. og taska 18.500. (Ég verð nú að játa að þetta finnst mér ekki falleg samsetning)

Ég spyr, er fleirum en mér ofboðið, eða er ég bara algjör lumma?

tiska.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

14 Responses to Hvílík skilaboð.

  1. bull
    Þvílíkt andsk….. bull er þetta, svo eru þetta ljót föt!

  2. Jói says:

    Einfalt svar
    Bara segja upp Mogganum og segja þeim að þú styðjir ekki svona bull.

  3. Svanfríður says:

    Þetta er ofar mínum skilningi mín kæra Ragna og þetta er líka rangur fréttaflutningur því hvar er manneskjan án mennta? Úr tísku því hún hefur ekki efni á að kaupa sér föt:)

  4. Guðbjörg says:

    Ó mæ god
    Þetta eru nú í fyrsta lagi þau allra skelfilegustu föt sem ég hef séð, myndi ekki einu sinni láta borga mér fyrir að fara í þau. Sýnir bara hvað hægt er að ganga langt á snobbinu einu saman.
    Kennslukonan
    Guðbjörg

  5. þórunn says:

    Fatatíska
    Ertu ekki að grínast??? Þetta finnst mér alveg með eindæmum smekklaus samsetning, en kanski er ég bara svona gamaldags. Þetta eru svipuð föt og voru í tísku 1974 eða þar um bil, nema litirnir voru fallegri og samsetningar meira í stíl.
    Þetta er nú bara álit sveitakonunnar í Portúgal.
    Bestu kveðjur
    Þórunn

  6. Ragna says:

    Já ég er þá ekki ein svo lummó að finnast þetta mjög óspennandi klæðnaður. Sjáið þið líka verðið á þessu, bara af því að þetta er frá einhverjum frægum hönnuðum (ég hef reyndar aldrei heyrt á þá minnst enda engin tískukona).

  7. Sigurrós says:

    Verð að viðurkenna að ég er sammála ykkur, þetta finnst mér forljótt! Þegar ég sá myndina þá hélt ég fyrst að þú hefðir verið að skanna inn mynd úr einhverri 50 ára gamalli bók svona til að nota til háðungar með…

  8. Ragna says:

    Nei aldeilis ekki Sigurrós mín. Ég hafði fyrir því að taka mynd beint upp úr blaðinu í dag og koma henni síðan hérna á síðuna. Talar enginn um verðið á þessum flíkum, eða er ég ekki í takt við verðlag í dag?

  9. þórunn says:

    Verðið
    Ég varð auðvitað orðlaus yfir verðinu líka, mér finnst að þetta geti ekki staðist, ertu alveg viss um að þetta sé ekki grín? Hvaða nemandi getur haft efni á að kaupa föt og tösku á þessu verði??? Ég get bara ekki trúað þessu, í lavöru.

    Kveðja
    Þórunn

  10. þórunn says:

    Já og eitt enn, fötin sem stúlkan á myndinni klæðist eru að mínu mati ekki kjóll og peysa heldur pils og blússa eða stutterma skyrta. Ekki orð um það meira,
    Þórunn

  11. Ragna says:

    Já þetta er allt mjög furðulegt. En það voru miklu fleiri myndir á þessari opnu, bæði fyrir dömur og herra og sagt hvar fötin fengjust svo þetta er hreint ekkert grín. Ég valdi bara að taka mynd af þessari mynd því mér fannst að hún kæmi skýrust út eftir meðferðina. Ég undraðist samt líka að talað var um kjól og peysu. Kíkið á þetta fylgiblað sem kom með Mbl. í dag ef þið hafið tök á.

  12. Sigurrós says:

    Ég held reyndar að það sé alveg rétt að þetta sé kjóll og peysa, það er nefnilega alls ekki í tísku að vera í pilsum eða buxum sem ná svona hátt upp, svo mikið veit ég þó ég sé fáfróð um tískuna almennt 😉

  13. Anna Bj. says:

    Hvílíkt og annað eins! Ég á bara ekki orð yfir fáránleikann, og klæðnaðurinn ekki einu sinni fallegur eða passandi.

  14. Jah, ég er klárlega lumma, fatnaðurinn þykir mér óspennandi og verðið enn meira óspennandi! Hver er annars tilgangurinn með svona grein? Botna bara hvorki upp né niður í henni ef satt skal segja..

Skildu eftir svar