Enginn titill.

Ég má nú ekki alveg gleyma dagbókinni minni þó mikið sé að gera hjá mér þessa dagana.

Ég ætla að athuga hvort þið getið fundið út hvað það er sem ég er að fást við.  Ég ætla að gefa ykkur upp í fáum orðum hvaða eiginleika þarf til þessa starfs.

Starfið er án efa skemmtilegasta starf sem hægt er að hugsa sér og fátt meira gefandi en að fá að hafa slíkt starf með höndum. 
Það krefst mikillar orku, miklu meiri en  maður á til, bæði andlegrar og líkamlegrar.  Maður þarf nefnilega að vera þolinmóður, sprettharður á stundum og sjá við því þegar það á að leika á mann. Það er nú reyndar ekki nóg því það þarf að vera fastur fyrir þegar upp koma  kröfur um það sem ekki er í boði, en vera þó sveigjanlegur og snöggur að breyta aðstæðum með því að upphugsa í flýti eitthvað sem beinir huga í aðra átt.  Sérstaklega þarf að vera var um sig þegar allt í einu ríkir alveg þögn og viðfangsefnið er horfið úr augsýn, því slíkt boðar oft einhver vandræði. Það þarf sem sé að vera með vökul augu og öll skilningavit virk alla vaktina.  Og umfram allt þá þarf maður að vera skemmtilegur, en maður fær nú góða hjálp við það á vaktinni – ekki vantar neitt uppá það.

Ég veit að ég verð ekki í þessu starfi til lengdar enda ekki lagt upp með það og vonandi fær viðfangsefnið mitt  mun skemmtilegri félagsskap og betri þjónustu áður en langt um líður.

Bókin mín góða um hamingjuna segir þetta,
sem ég ætla að hafa í huga þegar ég mæti til starfa á morgnanna:

Ekki gera lítið úr því sem þú leggur af mörkum.
Gleðstu yfir að vita að allur afrakstur vinnu þinnar
eða gerða hefur jákvæðar breytingar í för með sér.

Góða helgi !

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Enginn titill.

  1. Katla says:

    Þú ert vafalítið að hugsa um hann Ragnar Fannberg, fallega nafna þinn: )
    Njóttu vel og orðin úr bókinni góðu eiga vel við.
    Kær kv. frá Kötlu.

  2. þórunn says:

    Orðaleikur
    Þessi orðaleikur þinn í kringum starfið sem þú gegnir þessa dagana, er svo sannur og réttur. Það þarf meira að segja að hafa augu í hnakkanum stundum. Gangi þér vel í fóstrustarfinu.
    Góða helgi til ykkar Hauks,
    Þórunn

Skildu eftir svar