Skeður það svona?

Eftir að Íslendingar hafa gjörsamlega gleymt sér í peningasukki undanfarin ár, flogið á einkaþotum milli heimshorna í leit að heppilegum fyrirtækjum til kaups, til auka enn á eigur sínar, og reynt að toppa bílaeign hvers annars, að ekki sé nú talað um allar glæsivillurnar og risastóru sumarhúsin,  þá ganga þeir sömu nú niðurlútir og daprir á svip,  sviptir stórum hluta auðæva sinna og sjá fram á þurfa nú að setja sig inn í að lifa allt annars konar lífi.    

Mér dettur í hug lífsreynslusaga ungrar konu,  sem ég las í norsku blaði fyrir nokkrum árum. þar segir hún frá því þegar þau hjónin  fengu risastóran lottóvinning. Ég man nú ekki upphæðina nákvæmlega, en hún var svimandi há.

Á þessum tíma sem frásögnin segir frá, þá bjuggu þau nýgift og hamingjusöm í lítilli blokkaríbúð og höfðu lagt fyrir reglulega til þess að geta flutt í stærri  húsakynni  þegar þau færu út í það að fjölga mannkyninu.
Þegar þeim hafði hlotnast þessi stóri Lottóvinningur þá byrjuðu þau á að selja litlu blokkaríbúðina sína og keyptu sér stórt einbýlishús og dýra bíla og voru ötul við að bjóða í flottar veislur og fara í dýrar utanlandsferðir og snekkjusiglingar og buðu þá gjarnan einhverjum vinum sínum með sér. Þau voru ekki alveg sammála um það hvernig farið yrði með féð. Konan vildi leggja fyrir og eyða ekki of miklu en maðurinn sagði að þetta væri svo mikið að þau gætu alveg leyft sér smá lúxus.  Líferni þeirra í lystisemdum  og peningaaustri hélt því áfram og jókst frekar en hitt. Konan spurði manninn öðru hvoru hvort það væri ekki farið að ganga of mikið á peningana en hann kvað svo ekki vera og hún trúði honum og lífið hélt áfram um hríð. Þremur árum síðar grunaði konuna sterklega að peningarnir væru að verða búnir því hún sá að það voru að koma endalaus rukkunarbréf en maðurinn hennar, en það var hann sem sá um fjármálin,  sagði henni að hafa ekki áhyggjur þetta væri allt í lagi. Síðan kom að því að hann gat ekki dulið ástandið lengur og þau misstu húsið, bílana og allt sitt og voru á endanum gerð gjaldþrota. Samband þeirra endaði síðan með skilnaði þar sem búskiptin snerust eingöngu um það hvaða skuldir hvort þeirra myndi taka á sig. Nú áttu þau nefnilega minna en ekki neitt,  því þegar peningaeignin fór að minnka hafði maðurinn farið út í það að taka lán allsstaðar sem hann gat, til þess að halda "standardinum" og láta ekki aðra sjá að þau væru ekki rík lengur. 

Konan segir þessa döpru sögu sína öðrum til viðvörunar. 
Þessi frásögn er mér mjög minnisstæð því ég vorkenndi svo þessari ungu konu.

——————————-

Það er ekki skrýtið að þetta komi upp í hugann nú þegar ástandið er svona slæmt í þjóðarbúinu. Ég hugsa að það sé eins farið um marga núna og unga fólkið sem vann í Lottóinu.  Margir hafa haft svo gengdarlaust af fé til ráðstöfunar og borist mikið á, en nú er féð bara á þrotum.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Skeður það svona?

  1. Sigurrós says:

    Þetta er svo sannarlega döpur saga og því miður á hún örugglega víða við núna.

  2. Anna Bj. says:

    Undarlegir tímar.
    Það er mikið til í þessu og margur verður af aurum api og gætir ekki að sér.

    Þetta eru undarlegir tímar sem við nú lifum á og hvar skyldi þetta enda allt saman?

  3. Ingunn L says:

    Það eru margir búnir að brenna sig á því. Hins vegar bitnar þetta líka á fólki sem hefur ekki tekið þátt í þessu, t.d. fólki eins og mér sem þó skuldar ekki neitt. Námsmenn erlendis geta ekki þessa vikuna millifært peninga fyrir mat og húsaskjóli. Allt vegna óhæfis íslenskra stjórnvalda með seðlabankann í farabroddi til að takast á við vandann, eða að leyfa þessu að ganga svona langt.

  4. Ragna says:

    Elsku Ingunn mín. Það er vísst öruggt mál, að þið hafið ekki komið þarna nærri. Ég vona bara að úr þessu leysist fljótt. það er ömurlegt að vita ykkur námsmennina og litlu börnin ykkar matarlaus á erlendri grund.
    Kær kveðja til ykkar og til Arnars Más, Ástu og strákanna

  5. Ingunn says:

    Ég náði að millifæra á mánudaginn svo ég slapp:) Takk fyrir kveðjurnar.

Skildu eftir svar