Góða helgi.

 Við gleymdum okkur yfir því að horfa á skemmtilega dagskrá í sjónvarpinu í kvöld. Útsvarið er t.d. alveg frábær skemmtun á föstudagskvöldunum.   Ég svaf hinsvegar stóran hluta af Rebus, sem er þó í miklu uppáhaldi hjá mér. 
Kannski var ég svona syfjuð af því ég hef verið að fara á fætur fyrir klukkan sjö í tvo morgna en samt verið að drolla fram yfir miðnætti. Það munar ótrúlega miklu að vakna við klukku eða vakna sjálfur upp úr átta eins og við erum vön.
En, litli snúðurinn í Ásakórnum hefur verið lasinn og þegar mamma hans var búin að vera heima frá vinnu í tvo daga þá bauðst amma til að taka við og vera hjá nafna sínum.  Hann hressist vonandi svo vel um helgina að hann verði tilbúinn í leikskólann á mánudaginn.  Hann hefur ekki verið með mikinn hita en ömmu finnst að það hljóti að vera eitthvað að, þegar þessi orkubolti vill bara dag eftir dag kúra og sækir sængina sína og koddann á miðjum morgni, setur það í sófann og fer að sofa. Mammas hans fór með hann í fyrradag til læknis sem sagði að rörin í eyrunum væru á sínum stað og allt virtist í lagi – bara smákvef.
Amma fór með til læknisins, því hún lagði til bílinn í þetta skiptið. Læknirinn heitir líka Ragnar og það fannst nú þeim litla merkilegt og byrjaði á því að gera það að umtalsefni þegar hann kom inn á stofuna. Þegar læknirinn var búinn að skoða hann nafna sinn, þá þurfti sjúklingurinn að fá að vita hvað allt hét sem var á borðinu hjá lækninum. Ha, bloðrýstingstæki? Aldrei hafði sá stutti séð svona mikið af græjum og læknirinn lánaði honum eyrnaskoðunartækið og sýndi honum, hvernig ljósið væri sett á það. Svo sneri læknirinn sér að okkur og sagði "Mikið er hann duglegur að tala bara tveggja ára".  Mamman sagði réttilega stolt, já hann er löngu farinn að tala.   

Í dag þegar ég kom frá því að vera hjá Ragnari þá fékk ég að sækja Rögnu Björk á leikskólann í Arnarsmáranum, en þar hefur hún hefur verið í aðlögun  þessa viku. Afi hennar Jens hefur verið duglegur að sækja hana og vera með henni eftir aðlögunina en nú náði amma að sækja og fékk að hafa litlu snúlluna í rúman klukkutíma þangað til mamma hennar kom úr vinnunni.

Barnabörnin eru svo miklir sólargeislar og hvað er notalegra en að láta sólina skína á sig.  Þessir sólargeislar skaða mann heldur ekkert eins og þeir heitu gera, en þessir gera mann eitthvað svo glaðan í hjartanu.

Þegar ég kom heim í dag, þá var Haukur búinn að baka pönnukökur og svo sótti hann Möggu systur sína í kaffi. Mikið er alltaf notalegt að fá heimsóknir og ekki verra þegar einmhver annar er búinn að sjá um veitingarnar.

Nú er helgin framundan. Kannski væri best að opna hvorki útvarp eða sjónvarp og útiloka sig þannig frá slæmum fréttum, en auðvitað flýr maður ekkert atburðarrásina sem er í gangi þó maður loki sjálfur fyrir skilningavitin.

Ef veðrið verður eins fallegt og í dag er auðvitað tilvalið að fara í göngutúr eða gera eitthvað annað skemmtilegt. Ætli það sé ekki best að nota aðferðina EINN DAG Í EINU. Ég ætla alla vega að eiga góðan dag á morgun.

Góða helgi kæru vinir og líði ykkur öllum vel.
Verum ekki spör á knúsið því það er svo notalegt og líknandi.

Munum að
Lífið, fjölskyldan og vinirnir eru dýrmætari 
en allir heimsins peningar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar