Vandræðalegur misskilningur.

Ég má til með að segja ykkur frá smá atviki sem átti sér stað hérna um helgina.

Þegar ég kom heim á föstudaginn frá því að passa hann nafna minn, þá sagði Haukur að Jóhanna hérna niðri hefði hringt og ætlað að fá mig út að ganga með sér. Hún hefði sagt að hún væri ódugleg að hafa sig út og þætti því gott að fá einhvern með sér. Mér fannst þetta einkennilegt því mér hefur fundist þessi kona hérna niðri, (sem ég þekki reyndar alls ekki neitt) vera nokkuð kvik á fæti og talsvert á ferðinni. Mér fannst líka skrýtið að hún skyldi hringja af hæðinni hérna fyrir neðan í stað þess að banka uppá.  En Haukur var alveg viss.

Í gærkveldi fór ég svo að hugsa um að hún hefði ekkert haft samband aftur og það væri nú leiðinlegt að tala ekki við hana því hún gæti haldið að ég kærði mig ekkert um að fara með henni í göngutúr. Ég ákvað því að fara niður og tala við Jóhönnu og segja henni að ég væri alveg til í að fara og ganga með henni ef hún vildi.

Raunveruleikasjónvarp getur verið skemmtilegt en mikið var ég fegin að slíkt var ekki í gangi hér í gær. 

Ég hringdi á bjöllunni og beið. Eftir smá stund kom Jóhanna, sem ég hef aðeins einu sinni hitt og skipst á orðum við hérna í stigaganginum. Mér fannst hún undrandi á komu minni.

" Sæl, ég er nú að koma vegna vegna símtals þíns við Hauk á föstudaginn"

  " Sæl ?" Konan eitt spurningamerki.

Svo ég bætti við:

"Út af því að víð færum saman út að ganga"

Konan varð ennþá meira spurningamerki, svo ég hélt áfram:

"Sko þú hringdir þegar ég var ekki heima á föstudagsmorguninn og sagðist vera löt að hafa þig í að fara út að ganga og ætlaðir að fá mig til þess að ganga með þér. "

Konan, ennþá meira undrandi:

"Ég er nú bara nokkuð dugleg að fara út að ganga þó ég geri það ekki alltaf á sama tíma dags, en ég er búin að þræða allt nágrennið og fer oft í göngutúr hérna í kringum kirkjugarðinn og svo á ég dóttur í Kórunum og ég geng oft til hennar. "´

Nú var komið að mér að vera undrandi:

" Já en, varst það þá ekki þú sem hringdir?"

"Nei,nei.  Ég hringdi ekki, en ef þú vilt þá get ég alveg komið með þér út að ganga"

Á þessum tímapunkti vissi ég ekki mitt rjúkandi ráð. Aha, hún heldur að ég sé á þennan hátt að leita mér að félagsskap, eða að konan er kannski með Alzheimer og man ekkert eftir þessu? Það gæti alveg verið án þess að við vitum af því,  því við þekkjum þessa fullorðnu konu ekki neitt og höfum bara nokkrum sinnum séð hana fara í bílinn sinn hérna úti og aðeins einu sinni átt mjög stutt orðaskipti við hana hérna í stigaganginum. Ég bætti því við:

 "Ha!  já, já  það gæti verið gaman en ég kom nú bara út af þessu símtali. Þetta er greinilega einhver misskilningur"

Konan orðin heldur brattari:

"Heldurðu kannski að þetta hafi verið konan hérna á móti mér. Ég þekki hana nú lítið"?

"Nei, það held ég geti ekki verið, hún er örugglega í vinnunni á daginn"  sagði ég. (Um er að ræða unga útivinnandi konu með tvö börn).

 "Eða kannski konan hérna niðri, þessi sem átti barnið í sumar?".

" Nei,  ég ætla bara að athuga þetta betur, kannski er ég ekki búin að þurrka símanúmerið út úr númerabirtinum hjá mér og get séð hvaðan var hringt".

Svo ræddum við bara aðeins lauslega um daginn og veginn og síðan kvaddi ég og fór upp til Hauks.  Ég þakkaði Hauki auðvitað fyrir að hafa gert mig að fífli og svo sprakk ég úr hlátri. Nú var komið að Hauki að vera eitt spurningamerki og hann sagði.
"Þetta er eitthvað skrýtið, hún sagðist vera Jóhanna hérna fyrir neðan".

Við reyndum svo að finna út hver þetta gæti hafa verið en fundum enga skýringu á því.

Svo víkur sögunni til dagsins í dag.  Ég var með saumaklúbb og þar sem við vorum í góðu skapi þrátt fyrir kreppu í þjóðfélaginu, þá ákvað ég að segja þeim söguna af heimsókninni á neðri hæðina. 

Ég var rétt byrjuð á sögunni þegar gall við í Önnu,  sem reyndar býr í húsinu sem er hérna beint fyrir neðan okkur í brekkunni.
" Ha, það var ég sem hringdi og talaði við Hauk á föstudaginn og vildi fá þig með út að ganga".

Vitanlega sprungum við nú alveg.  Þar var sem sé komin skýringin.  Anna hérna fyrir neðan í staðinn fyrir Jóhanna hérna niðri. Sem sé Anna í báðum endingunum, en Haukur bara strax svo viss um að fullorðna konan sem býr ein hérna niðri hefði verið að leita eftir félagsskap. 

Ég ætti kannski bara að drífa mig út að ganga með Önnu og Jóh- önnu ha,ha.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Vandræðalegur misskilningur.

  1. Rakel says:

    Elska svona sögur…. 🙂

  2. Svanfríður says:

    Hahahaha-this might be the beginning of a beautiful friendship:)

  3. Sigurrós says:

    Hahahaha!
    Þetta er frábær saga! Ég sé líka alveg fyrir mér hláturskastið sem þið fenguð í saumaklúbb þegar upp komst að það var Anna en ekki Jóh-anna sem hringdi! 🙂 hahahaha

  4. Hehe, helv… góð! Kær kveðja í gönguklúbbinn!

  5. Anna hérna fyrir neðan! says:

    Alveg milljón !!! já, ég hlæ enn!

  6. Guðbjörg o says:

    Ó mæ god
    Þetta er greinilega svona ,,rangur“ misskilningur, eins og einhver sagði. Kveðja til Hauks, vona að hann sé búinn að jafna sig.
    Guðbjörg

  7. Ragna says:

    Við Anna erum búnar að fara út að ganga og ég er búin að segja Jóhönnu frá lausn málsins. Hláturinn lengir lífið og þetta var alveg frábært – það er að segja svona eftir á. ha,ha.

  8. Stefa says:

    Dásamleg!
    Elsku Ragna,
    á erfiðum degi var þetta saga sem ég þurfti á að halda. Ég gjörsamlega grét úr hlátri…. Þúsund þakkir fyrir að deila þessu með okkur 🙂

    Kv,
    Stefa

Skildu eftir svar