Á valdi notalegra minninga um gamlan tíma.

Ég fór í smábíltúr eftir hádegið að sinna erindum í gamla hverfinu mínu 104.  Ég fór m.a. að hitta þjónustufulltrúann  í  bankanum mínum sem ég hef haldið tryggð við frá því ég var sex ára gömul og ætla mér að gera áfram. Þetta er auðvitað ekkert í frásöguir færandi frekar en hugleiðing mín í þessari ferð.

En, þar sem ég ók Sæbrautina í átt að Holtagörðum þá helltist yfir mig einhver velllíðunartilfinning þrátt fyrir  allar áhyggjurnar af þjóðmálunum síðustu daga. Austurfjöllin voru hvít frá toppi til táar og Drottning okkar Reykvíkinga Esjan skartaði svo fallegri hvítri kórónu sem sólin varpaði geislum sínum yfir þar sem hún bar við tæran, bláan himininn í þessu sólskini og logni sem umvafði allt í dag. 

Ég fór að rifja upp í huganum gamla tímann í Kleppsholtinu. Það var ekki alltaf bjart útlit í peningamálum þjóðarinnar hérna í gamla daga og ekki á vísann að róa að fyrirvinnur hefðu atvinnu eða möguleika á að afla sér tekna.
Þegar ég  hugsa til baka þá var þetta samt svo yndislegur tími. Ég man hvað ég var hreykin að mæta í skólann í heimasaumuðu úlpunni sem mamma hafði saumað á mig og í útprjónuðu peysunni, að ógleymdri heimaprjónuðu húfunni  og vettlingunum.  Á kvöldin prjónaði eða saumaði mamma, þegar fjölskyldan sat saman og hlustaði á útvarpið í litlu stofunni í notalega 59 fermetra húsinu á K17.  þá var tekin upp handavinna eða litið í dönsku blöðin sem alltaf voru keypt, þó fjárhagurinn að öðru leyti væri oft bágur.  Dönsku blöðin voru í raun eini lúxusinn sem var eytt í.  Það voru mannkostir, manngildi og góðar samverustundir,  sem voru í hávegum höfð og gáfu lífinu gildi.

Um þetta var ég að hugsa í góða veðrinu í dag, á leiðinni í gamla bankann minn. Þegar ég kom út aftur fannst mér ég endilega þurfa að fara og heilsa upp á hana Tótu, gömlu vinkonuna mína, því hún tengist flestum mínum gömlu minningum þar sem hún bjó hinu megin götunnar og börnin hennar voru leikfélagar mínir.
Það svaraði enginn þegar ég bankaði á herbergisdyrnar hjá henni á Hrafnistu, svo ég kíkti inn en þar var engin Tóta. Ég var hrædd um að hún hefði kannski lent á sjúkradeildinni, en þegar ég kom fram á ganginn aftur þá hitti ég starfsstúlku, sem þekkir okkur Tótu báðar. Hún sagði mér að nú stæði mikið til hjá fólkinu á Hrafnistu, því forsetinn væri að koma í heimsókn og allir væru komnir inn í matsal til að drekka hátíðakaffi með honum. Hún vildi samt endilega að ég heilsaði aðeins upp á hana í matsalnum.  Þegar við komum þangað sat mín þar við borð, svo fín um hárið í fallegum kjól og allir voru svo prúðbúnir. Hún fagnaði mér eins og hún er vön og sagðíst bara sleppa þessu með forsetann og koma frekar með mér inn í herbergi, en það tók ég ekki í mál.  Hún hvíslaði þá að mér " Ég hef nú svo sem aldrei verið neitt hrifin af honum Ólafi Ragnari svo ég vil alveg eins vera með þér."  Ég sat hinsvegar við minn keip og sagðist bara koma seinna.

Ég ók svo aftur heimleiðis í sama fallega veðrinu og þegar ég kom heim þá drukkum við Haukur miðdagskaffið og fórum svo í langan göngutúr.

Með leið vel og allar áhyggjur af ástandinu í þjóðmálunum voru víðs fjarri.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Á valdi notalegra minninga um gamlan tíma.

  1. Sigrún Sig says:

    Það er eitthvað við hverfi 104 sem hefur róandi áhrif á mann…Mér þykir alltaf jafn notalegt að koma þangað og rifja upp góðar minningar.

  2. Katla says:

    Skemmtileg sagan af heimsókn þinni til Tótu: D
    Ég held það hljóti að sannast nú sem oft áður, það eru ekki peningalegu auðæfin sem færa manni hamingjuna.
    Haltu áfram að láta þér líða vel Ragna mín: )

  3. Þetta var lagið, svo haltu áfram. Kær kveðja.

Skildu eftir svar