Á 19.

Við Haukur erum nýkomin heim af jólahlaðborði í Turninum, 19. hæðinni. Það er nú kannski ekkert í frásögur færandi að segja frá því að maður fari á jólahlaðborð. Það sem var sérstakt við þetta borðhald var hinsvegar það, að stundum fannst mér ég vera á skipi. 
Við vorum á báðum áttum í dag þegar við heyrðum hvað eftir annað í útvarpinu að það væri stormviðvörun í höfuðborginni í kvöld og ég var jafnvel á því að við ættum að hætta við að fara.  Auðvitað fórum við, enda búin að hlakka svo til, en það var alveg svakalega hvasst og gekk á með regnskúrum.

Það er mjög fallegur veitingastaðurinn þarna í Turninum á Smáratorginu og betri þjónustu hef ég bara aldrei vitað. Það var tekið á móti okkur þegar við komum inn  um útidyrnar á annarri hæðinni, þar voru fötin tekin og okkur vísað í lyftuna og sagt að þau uppi yrðu látin vita. Það passaði því það var tekið á móti okkur þegar við komum úr lyftunni og svona gekk þetta allt kvöldið. Hílík þjónusta.

Það sem ég ætlaði nú að segja frá, var að Þegar aðeins leið á kvöldið þá tók ég eftir því að það var eins og mig svimaði. Ég sagði nú ekkert en hélt að ég væri kannski að verða eitthvað veik. En svo fór ekki á milli mála hvað var að, því þegar veðrið versnaði og vindstyrkurinn jókst, þá hreyfðist turninn til og frá í óveðrinu. Þetta gerðist nokkrum sinnum og mér fannst þetta líkast því að vera á skipi. 

Þegar við vorum svo að fara og vorum komin niður í andyrið þá fór Haukur að náí bílinn til að koma með hann að dyrunum. Það beið þarna líka maður eftir bíl og hann fór að tala um veðrið og hvað turninn gengi mikið til í veðrinu.  Hann taldi að hann hreyfðist um 5°.  Ekkert vit hef ég á slíkum gráðum en tók manninn trúanlegan enda samgönguráðherrann sjálfur sem upplýsingarnar gaf.

Ég  er að taka eftir því þegar ég skrifa þetta að allt í einu virðist veðrið hafa gengið niður, bara eins og hendi hafi verið veifað. Ja hérna –

Ég segi bara góða nótt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Á 19.

  1. afi says:

    Vagga og velta.
    Skemmtilegt ævintýri.

  2. þórunn says:

    Þetta hefur verið all sérstök upplifun, að rugga svona á 19. hæð. En að láta stjana svona við sig, það er bara virkilega notalegt og hefur fengið þig til að gleyma stund og stað. Hafið það gott um helgina sem endranær, kveðja úr kotinu
    Þórunn og Palli

  3. Simmi says:

    Hehe 😀 þetta hefur verið fjör. Þarf klárlega að prófa að borða þarna einhverntíman í miklu roki 😉

Skildu eftir svar