Enn fækkar eldra fólkinu.

Það er alltaf einhver af þeim sem maður hefur þekkt í gegnum tíðina og þótt svo vænt um, að kveðja þennan heim.  Í gærkveldi hringdi Loftur mágur minn og tilkynnti mér að hann Steini frá Heiði, bróðir tengdamömmu væri nú allur. Þau fóru því bæði á sama árinu tengdamamma og Þorsteinn bróðir hennar. Ég fór eftir símtalið að hugsa um allt þetta góða fólk sem ég kynntist í gegnum Odd minn og hvað það er sorglega margt af því farið, bæði ungir og gamlir.

Það var alveg einstakt að kynnast fólkinu á Heiði, en þar var þríbýli. Afi og amma í miðjunni og tveir synir sem bjuggu með sínum fjölskyldum sitt hvoru megin við. Ég skildi það fljótt af hverju allir kölluðu Odd bónda afa því hann var alveg einstök barnagæla og svo hlýr og vandaður maður. Þessa eiginleika hafa svo börnin hans fengið í arf. Það var alltaf mikið grínast og gert að gamni sínu á Heiði og þar var nú Steini oft fremstur í flokki að prakkarast.

Þær eru margar sögurnar sem eru til af skemmtilegu prakkarastrikunum hans Steina og ekki efa ég að það verði fjör í himnaríki nú þegar þau eru bæði komin þangað systkinin Steini og tengdamamma því bæði voru hrókar alls fagnaðar þar sem þau komu.

Eftir að Steini brá búi og fluttist á Hellu þá fór hann að dunda sér við að gera upp gömul húsgögn fyrir fólk. Hann gerði m.a. upp fyrir okkur mæðgur tvær eldgamlar kistur og það er sko engin skömm að handbragðinu á þeirri viðgerð og í raun ótrúlegt hvernig hann fór að því að gera þær svona vel upp því sérstaklega önnur var nærri því farin á haugana því við héldum að aldrei yrði hægt að gera hana þannig að hún yrði stofustáss. Á þessum tíma var Steini orðinn svo illa farinn af gigt að það var eiginlega óskiljanlegt hvernig hann fór að þessu en seiglan og viljinn voru svo mikil að hann gafst ekki upp.

Síðustu ár hefur hann verið á Lundi á Hellu og eflaust hefur hann verið sami gleðigjafi þar og annars staðar.

Ég þakka Steina fyrir samfylgdina og sendi afkomendum hans og eftirlifandi systkinum innilegrar samúðarkveðjur.

————————

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Enn fækkar eldra fólkinu.

  1. þórunn says:

    Söknuður
    Já það hellist yfir mann söknuður þegar fjölskyldumeðlimir kveðja, en þá er svo gott að eiga góðar minningar til að hugga sig við. Samúðarkveðjur frá okkur Palla.
    Þórunn

  2. Já mín kæra, fólkið hverfur. Tvö af systkinum mömmu létust í þessum mánuði. Einhvernveginn finnst mér eins og ævifélagarnir eigi að vera til staðar, ALLTAF! Hafðu það gott með kærri kveðju.

  3. Anna Sigga says:

    Falleg kveðja!
    Maður er aldrei tilbúinn að taka á móti fráfallsfréttum af sínum nánustu. Ég fékk tvær sama daginn (ömmubróðir minn, fæddur 1922, dó á föstudagsmorguninn var) og þegar pabbi hringdi um kvöldið til að segja mér að Steini væri farinn… það var bara erfitt… Þessir tveir heiðursmenn, Steini og Jónas, voru pottþétt búnir að skila sínu og voru örugglega hvíldinni fegnir.
    Jólakveðjur til þín og þinna, Ragna mín.

  4. Freyr Ólafsson says:

    Þakka falleg orð og kveðjur
    Heil og sæl Ragna, þakka falleg orð um afa, langafa og aðra frá Heiði.
    Mig rak inn á síðu þína í leit að hinni einu sönnu frómas uppskrift. Um þessi jól verður því ananas frómas Böggu á borðum hjá mér.

    Með bestu jólakveðjum til þín og þinna.

    Freyr

  5. Ragna says:

    Þakka þér fyrir kveðjuna Freyr.
    Ég vona að frómasinn hennar tengdamömmu heppnist vel. Þennan frómas hafði hún alltaf á jóladag.

Skildu eftir svar við Guðlaug Hestnes Hætta við svar