Nýtt tímabil að hefjast.

Þá eru jólin að kveðja og menn keppast við núna á þrettándanum að skjóta upp því sem eftir er af skoteldunum frá gasmlárskvöldi. það er alveg ótrúlegt hvað sumir hafa verið með mikið af þessum flottu tertum sem endalaust skjóta skrauteldum upp á dökkan himininn.  Þar sem ég sit í eldhúsinu og er að myndast við að setja færslu inn í dagbókina mína er líkast því að ég sé á sprengjusvæði því það eru endalausir skothvellir og ljósglampar. Mikið afskaplega er ég nú þakklát fyrir að vera bara á Íslandi þrátt fyrir kreppu, en ekki þar sem sprengjugnýrinn er af öðrum og alvarlegri orsökum.

Ég er byrjuð að pakka niður jóladótinu. Alltaf er ég nú jafn fegin að pakka blessuðu jóladótinu niður aftur og þrífa vel á eftir, eins og ég var eftirvæntingafull og glöð að tildra þessu öllu upp í byrjun aðventu.

Nú verður kúrsinn tekinn á bætta heilsu. Ég hitti nýja heimilislækninn minn, sem ég hef hitt nokkrum sinnum,  í dag og þegar ég nefndi Reykjalund þá sagði hann mér að ég skyldi nú bara gleyma því að komast þangað. Ég gapti, en spurði svo hvort það væri af því að það væri ekki nógu mikið að mér. "Nei fjarri því en það er árs bið eftir að komast þangað og þú þarft að gera eitthvað strax". Svo spurði hann hvort ég vildi ekki bara fara í Hveragerði. Það væri orðin svo fullkomin aðstaðan þar og ég ætti að geta fengið það góða hjálp þar að ég gæti síðan spjarað mig sjálf með sjúkraþjálfun og æfingum.  Hann lét mig síðan á enn eitt nýja gigtarlyfið og ætlar að  fara niður í Dómus og skoða sjálfur segulómmyndirnar mínar og eftir viku verður tekin ákvörðun um þetta.  Það er semsagt mitt fyrsta verkefni á nýju ári að koma mér í almennilegt form.

það var reyndar meiningin að fara til Tenerife núna á þorranum og spóka sig þar í sól og sumri en sú ákvörðun var nú tekin bæði fyrir bakvesen og kreppu og ekkert varið í að fara í slíkar ferðir núna þegar Evran er á margföldu gengi og ég sjálf ekki á neinu gengi. Maður verður nefnilega að vera sæmilega göngu og dansfær í slíkum ferðum.
Ég kem því til með að spóka mig bara á göngunum á Heilsuhælinu í Hveragerði og liggja í leirböðum í stað sólbaða á sólarströnd.  Þegar kreppunni lýkur og  ég verð búin að koma mér í fínt form þá skal sko farið til Tenerife og farið í göngutúra og dansað.

Haukur var svo sætur í kvöld að bjóða mér út að borða í Laugaás. það er sko alltaf jafn gott að borða á þeim stað.

Meira verður þetta nú ekki að sinni.  Bless í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Nýtt tímabil að hefjast.

  1. Hulla says:

    Þetta lofar góðu!
    Hann er ábyggilega góður og samviskusamur þessi nýji læknir þinn.
    Ég ligg á bæn fyrir þig, að þú verðir góð áður en langt um líður 🙂
    Knús og kossar

  2. Guðbjörg á Selfossi says:

    Líst vel á þig 🙂
    Sæl Rggna mín og gleðilegt ár. Mér líst sérdeilis vel á að fá þig bara hingað austur fyrir fjall í smá hressingu. Þú kannski hittir á tengdamömmu hún er að fara í Hveragerði 20. jan. í amk 4 vikur. Farðu nú vel með þig. Bestu kveðjur. Guðbjörg.

  3. þórunn says:

    Það er alltaf gott þegar maður hefur á tilfinningunni að eitthvað sé að gerast í heilsumálunum. Það fer margt öðruvísi en ætlað er, en vonandi rætist svo vel úr þessu að þið komist í sól og sælu áður en langt um líður. Bestu kveðjur í bæinn, Þórunn

  4. Ragna says:

    Já, já nú fer þetta vonandi að ganga. Ég svaf alla vega af þessu nýja verkjalyfi í nótt og svo er bara að bíða eftir að komast að í Hveragerði. Líklega er ekkert laust þar í janúar en þá bíð ég bara þangað til í febrúar.
    Guðbjörg mín Stefáns, ég væri nú búin að koma í Höfuðbeina og spjaldhryggs til þín ef ég hefði enn verið fyrir austan. Við sjáumst vonandi þegar ég kem í Hveragerði. Ég sendi ykkur góða kveðju.

  5. Sigurrós says:

    Ferðaskrifstofurnar eru hvort eð er allar að fara á hausinn svo að það er alveg eins gott að fara bara með Hópferðamiðstöðinni í Hveragerði…

  6. Ragna says:

    Já, já nú fer þetta vonandi að ganga. Ég svaf alla vega af þessu nýja verkjalyfi í nótt og svo er bara að bíða eftir að komast að í Hveragerði. Líklega er ekkert laust þar í janúar en þá bíð ég bara þangað til í febrúar.
    Guðbjörg mín Stefáns, ég væri nú búin að koma í Höfuðbeina og spjaldhryggs til þín ef ég hefði enn verið fyrir austan. Við sjáumst vonandi þegar ég kem í Hveragerði. Ég sendi ykkur góða kveðju.

Skildu eftir svar