Símtalið sem gladdi mig svo í dag.

Ég sat í dag og var að gera smávegis við flík sem ég var með í kjöltunni þegar síminn hringdi. Ég hentist auðvitað upp eins og ég geri alltaf þegar síminn hringir. Síðan tók ég símadansinn í smá stund því eins og venjulega þá hafði ég ekki hugmynd um hvar síminn væri. Þeir eru nefnilega svo gjarnir á það þessir þráðlausu að fela sig og geta aldrei verið á vísum stað. 
Ég er nú vön að segja til nafns þegar ég svara í símann en nú sagði ég bara í flýti "Halló". Þá var spurt hvort þetta væri ekki Ragna Kristín Jónsdóttir, þá datt mér í hug að nú væru tilbúnir eyrnalokkarnir hjá gullsmiðnum í Hafnarfirðinum. Eitthvað fannst mér ég þó kannast við röddina. Það kom svo í ljós að þetta var hún Hildur sem vann með mér í Völuskrín. Það eru líklega ein 25 ár síðan við unnum saman og við höfum ekki hittst í fleiri, fleiri ár.  Hún hefur þó eins og fleiri óvart ratað inn á heimasíðuna mína og vissi því að ég var flutt í Salahverfið, rétt hjá þar sem hún býr sjálf Reykjavíkurmegin við landamæri Kópavogs og Reykjavíkur.

Jæja ég ætla nú ekkert að rekja samtalið okkar, en við höfum sko um margt að spjalla eftir þennan langa tíma og í stað þess að enda samtalið á "Við verðum endilega að hittast"  og "Já, endilega" eins og venjan er, þá negldum við bara niður tíma strax eftir helgi og nú hlakka ég svo mikið til að fá Hildi í heimsókn til mín. 

Þegar ég var búin að láta símann á í dag, þá fór ég að hugsa til þess tíma sem ég var í Völuskríni. Eitt árið kom Hildur með mér á stóru leikfangasýninguna í Nürnberg þar sem leikföng voru sýnd í mörgum sýningarhöllum og við þurftum að heimsækja okkar viðskiptamenn og gera hjá þeim pantanir og kíkja einnig eftir nýjungum. Svo stoppuðum við í London á heimleiðinni og ég dreif hana með mér að sjá söngleikinn Cats því mér fannst að allir þyrftu að sjá Cats. En sagan af heimagistingunni hjá Rúmensku konunni í Nürnberg gleymist þó ekki Ég ætla að segja ykkur frá því eftir að við Hildur hittumst.

Með minningarnar frá þessum tíma ætla ég inn í helgina enda er nú komið föstudagskvöld.

—————————– 

Það  er nú nokkuð langt síðan ég hef opnað bókina góðu með 1000 ástæðum til gleði og hamingju.
Nú opnaði ég hana og fann þennan stutta, einfalda texta sem þó segir svo mikið.

Bara það, að geta eytt lífi sínu í félagi við
fjölskyldu sína og vini,
er næg ástæða til að gleðjast.

Svo vil ég aðeins bæta við:

Gefum hverju öðru knús og látum fjölskyldu og vini vita
að okkur þyki vænt um þau.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Símtalið sem gladdi mig svo í dag.

  1. Anna Hjaltad says:

    Knús á þig Ranga mín!

  2. þórunn says:

    Það er svo skemmtilegt að fá svona óvænt símtöl, maður mætti gera meira af því að leita uppi fólk sem maður hefur átt góð samskipti við og hefur ekki séð lengi.
    Knús á ykkur bæði frá litla kotinu með djúpu gluggana, Þórunn

  3. Veistu, mér þykir bara nokkuð vænt um þig! Njóttu heimsóknarinnar með gömlu vinkonunni. Kær kveðja í bæinn.

  4. Katla says:

    En skemmtileg og óvænt ánægja: )
    Það verður gaman hjá ykkur stöllum að hittast! Hlakka til að heyra meira!

  5. Svanfríður says:

    Gott hjá henni að leita þig uppi og það verður örugglega gaman hjá ykkur því fátt er skemmtilegra en að hitta gamla vini og rifja góða tíma upp:) Góða skemmtun og ég hlakka til að heyra söguna.

Skildu eftir svar