Dagur fjögur.

Eins og síðustu daga byrjaði ég á köldu bununum og skaust svo í morgunmatinn. Ég hef enn ekki fengið þann kjark að mæta með myndavél og taka mynd af þessu bunustandi, en koma tímar og koma ráð.  

Eftir morgunmatinn var ég kölluð í línurit svo ég skaust aftur þessa 300 metra til að mæta í það.  Það er tafla inni í sjúkraþjálfun sem segir að á milli herbergis 143 og sjúkraþjálfunarsalarins séu 300 metrar og ég er akkúrat í herbergi 143 svo það er auðvelt fyrir mig að reikna út hvað ég geng marga kílómetra hérna innanhúss á hverjum degi. Yfirleitt er það a.m.k. fjórum sinnum á dag fram og til baka sem ég fer þessa leið, svo það eru líklega a.m.k. 2 kílómetrar í slíkar ferðir á dag, fyrir utan annað rölt fram og til baka  í matsal og þess háttar.

 

Vatnsleikfimin í morgun féll niður vegna fundarhalda hjá kennurunum svo ég dreif mig í heitu pottana í staðinn.  Svo kom ég hérna inn og ætlaði aðeins að líta í bók á milli atriða og steinsofnaði á fyrstu opnunni og missti af fyrirlestri í Kapellunni klukkan 10. Ég hef nú grun um að það sé eitthvert samsæri í gangi hérna og það séu svefnlyf í teinu eða hafragrautnum því ég er bara stanslaust syfjuð síðan ég kom hingað – og ég sem kom til að leita að orku.  Kannski er byrjað á því að draga úr manni þessa litla orku sem maður hafði við komuna hingað og síðan fær maður splunkunýja orku í staðinn.  Það er það sem ég er að bíða eftir og sætti mig því við þetta orkuleysi fyrstu dagana.

 

Jæja, ég dreif mig upp úr drunganum og mætti á námskeið í stafagöngu klukkan ellefu.  Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt að læra stafagönguna og ég hringdi hið snarasta í Hauk sem ætlaði að koma í heimsókn í dag og bað hann að koma með stafina mína svo ég gæti æft mig í næstu morgungöngu..

 

Eftir hádegið þegar Haukur kom í heimsókn, þá tók syndin yfirhöndin. Við fórum nefnilega í kaffi til Eddu systur minnar og það vita nú allir sem til þekkja að það þýðir ekkert að bryðja bara bruður á því heimili, nei þar fengum við  marenstertu og fleiri krásir  og að sjálfsögðu kaffi sem hér er ekki boðið uppá, ekki einu sinni spari.

 

Mér var sagt að skila herbergislyklinum þegar ég fór út í dag og hafði á orði við stúlkuna í afgreiðslunni, að það væri eins gott að ég myndi þá eftir að taka hann aftur þegar ég kæmi heim.  Eins og ég hef sagt með að orkunni sé eytt úr gestunum fyrstu vikuna, þá virðist minni fólks eytt líka. Það eru nefnilega fleiri en ég sem tala um að hafa gleymt að mæta í eitthvað eða hreinlega sofið af sér að mæta í hitt og þetta.

Jæja þegar ég kom heim úr Selfossferðinni, klædd mínum leðurstígvélum með hæl,  því auðvitað fer maður ekkert í fjallgönguskóm þegar maður bregður sér af bæ, heldur langar mann þá til að breyta til og pjattast smávegis. Nema hvað, þegar ég kom heim þá tiplaði ég sem leið lá inn alla ganga, alla leið inn í innsta enda á ströndinni minni og ætlaði að fara að ná í lykilinn í veskið, en þá mundi ég hvar lykillinn var.
Auðvitað gekk það sem sagt eftir sem mig hafði grunað, að ég myndi gleyma að taka lykilinn í afgreiðslunni þegar ég kæmi heim. Það var því ekkert annað að gera en byrja tiplið á hælastígvélunum til baka aftur, alla ganga út að afgreiðslu  trip, trap, trip, trap – nema hvað að þegar ég kom þangað þá var afgreiðslan lokuð og ekki nokkra hræðu að sjá.  Þegar betur var að gáð stóð á skilti að afgreiðslan lokaði klukkan fimm. Já, já, nú var hún fimm mínútur yfir – Ætli ég verði þá að sitja hérna í stól til morguns?  Ekki leist mér vel á það svo ég byrjaði aftur tiplið og í þetta sinn alla leið inn á hjúkrun. Þar var elskuleg stúlka sem gekk með mér til baka að afgreiðslunni og fann lykilinn minn.  Hún sagði mér að vera ekkert að skila lyklinum nema þegar ég færi yfir nótt. Gera bara ekkert viðvart í afgreiðslunni þegar skryppi svona aðeins út.  Ég var fegin að fá lykilinn og ánægð þegar ég tiplaði til baka með hann í hendinni.  Ég sá hinsvegar að svona pjattskór eiga ekkert heima á svona stað, því þeir eru langt frá því að vera þeir bestu í göngutúrum um þetta hús og ég sá eftir að hafa ekki farið úr þeim hérna við dyrnar og skokkað á sokkaleistunum til að fá lykilinn.  En, svo lengi lærir sem lifir.  Þeir sem hafa komið hingað og vita hvernig húsakynnin eru, þeir vita um hvað ég er að tala.

Læt þetta duga í bili – heyrumst á morgun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Dagur fjögur.

  1. þórunn says:

    Ekki spyr ég nú að, ekki hægt að bregða sér bæjarleið án þess að fara í pjattskóna, sé þig í anda tipla fram og til baka gangana tipl, tipl. En stafaganga hljómar vel.
    Ég vona að þú sofir jafnvel á nóttunni og daginn. Bless þangað til næst, Þórunn

  2. Sigurrós says:

    Hvernig væri að skrá í bók alla þessa kílómetra sem þú ert að labba innanhúss? Gæti verið fróðlegt að halda því saman og finna út hversu mikið þú labbar samtals innanhúss meðan þú ert þarna 🙂

  3. Ég hef einu sinni komið á heilsuhælið í heimsókn og varð þreytt eftir. Þetta eru sko gangar. En…bíddu.. ekkert kaffi eftir bununa? Blessaður sopinn! Ég held að orkuleysið sem þú kallar svo sé ekki endilega það. Nú ertu að vinda ofan af þér eftir langan andlegan undirbúning og þá ertu einfaldlega þreytt. Gangi þér vel mín kæra.

  4. Edda systir says:

    gönguslór
    Hæ Didda mín og takk fyrir síðast. Þú skalt bara koma í gönguskóm til mín næst. Þú hefðir örugglega ekki haft þetta af ef ég hefði ekki gefið þér marengstertu fulla af orku !!

Skildu eftir svar