Hugrenningar á mæðradaginn.

Enn einu sinni missti ég út pistil sem ég átti bara eftir að vista og senda inn, en mig langaði til að skrifa eitthvað um mæðradaginn og mæðrahlutverkið svo ég byrjaði aftur. Það er aldrei eins að þurfa að skrifa eitthvað í annað sinn, en ég læt það samt fara.

———————–

Að vera móðir er að mínu mati æðsta og mikilvægasta hlutverk sem hver kona getur óskað sér í lífinu.  Hvað getur verið mikilvægara en það að geta af sér aðra einstaklinga og sjá til þess að þeir komist heilu og höldnu gegnum barnæskuna, unglingsárin og út í lífið.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið mitt tækifæri í móðurhlutverkinu og það að fá að ala upp börnin mín á þeim tíma þegar allt var svo miklu rólegra í þjóðfélaginu. Það er ómetanlegt.

Ég er þakklát fyrir það að hafa getað alið dætur mínar upp við það, að mestu máli skipti að eiga traust og gott heimili og griðarstað þar sem hægt væri að koma með meiddið sitt, hvort sem það var af líkamlegum eða andlegum orsökum og eiga það víst að mamma kyssti á bágtið. 

Ég er líka þakklát fyrir það að dætur mínar lærðu að það skipti engu máli þó ekki væri hægt að eignast allt sem hugurinn girntist, heldur læra að vera nýtinn og þakklátur fyrir það sem hægt var að gera.

Ég er líka svo þakklát fyrir allan tímann sem við vorum saman, fyrir allar ferðirnar sem við fórum saman í sunnudagaskólann og fyrir það hvað við vorum alltaf góðar vinkonur og erum enn.

Ég vona að dætrum mínum  nýtist vel fátæklega nestið sem þær fengu í heimanmund. Þær skildu alla vega eftir mikið ríkidæmi og hamingju í hjarta mínu.

Hugurinn hvarflar til þeirra barna sem nú eru að alast upp. Þau eru mörg hver vön því að fá allt sem hugurinn girnist, en þurfa nú í breyttu þjóðfélagi að finna önnur gildi.
Þau verða að gera sér grein fyrir því að foreldrar geta ekki, hafa aldrei getað og munu aldrei geta keypt hamingju handa börnunum sínum.  Hamingjan kemur nefnilega af væntumþykju og virðingu innanfrá hjá hverjum einstaklingi.

Hamingja barna felst í því að eiga gott heimili og góða foreldra
og læra að meta það.

Ég óska öllum mæðrum
innilega til hamingju með daginn. 

Verum stoltar af dagsverki okkar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Hugrenningar á mæðradaginn.

  1. Guðbjörg says:

    Vel mælt
    Mikið er þetta allt satt og rétt mamma mín.
    Nema það að ég fékk einmitt mjög ríkulegt veganesti með mér. Held bara að ekki sé hægt að finna betri mömmu en þig, þó víða væri leitað.

  2. Edda systir says:

    frábær lesning
    Takk fyrir þennan frábæra pistil þinn um mæðradaginn ég ætla að taka mér það Bessaleyfi að benda börnunum mínum á þetta og gera hann að mínum. Eitt lítið dæmi sem getur glatt mömmuna: Simmi gaf mér matreiðslubók á mæðradaginn og inni í henni stendur : takk elsku mamma mín fyrir allan frábæra matinn sem þú hefur gefið mér gegnum tíðina. Yljar mömmunni um hjartaræturnar ! kv. Edda

  3. Ragna says:

    Ég þakka ykkur sem lögðuð í orðabelginn hérna og ykkur líka sem lögðuð í orðabelginn á Facebook.

  4. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Frábært hjá þér Ragna eins og allt sem þú skrifar. Ég fylgdist með pistlunum frá Hveragerði og vona svo innilega að þú farir að fá einhverja bót og vonandi getur Aron eitthvað gert fyrir þig. Ætlaði að vera búin að skrifa til þín fyrir löngu. Vonandi getum við fengið okkur göngutúr um hverfið einhverntíma þegar þú trystir þér til. Eins er líka alltaf heitt á könnunni í Kórsölum 1. Alltaf velkomin. Við vorum með hreinsunardag síðasta laugardag og vorum einstaklega heppin með veður. Svo er nú aldeilis búið að blása síðan. Vonandi er nú bara sumarið komið, hlakka mikið til að komast út í sólina á eftir.

    Hafðu það sem allra best og njóttu helgarinnar.

    Bestu kveðjur

    Hafdís Baldvinsd.

  5. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Hafdís mín. Já ég hélt að ég myndi fara að spássera með þér þegar ég kæmi úr Hveragerði en ég kom hinsvegar heim verri en nokkru sinni. það er aldrei að vita nema ég kíki við í Kórsölum einhvern daginn en ég geri mesti lítið þessa dagana nema bíða eftir því að komast í bakaðgerðina.
    kær kveðja til þín

Skildu eftir svar