Aðallega áminning til sjálfrar mín.

Við vorum í svo fínu fimmtugsafmæli á Selfossi í dag. Veðurspáin í gær leit nú þannig út að ég veðurhrædda konan reiknaði ekkert með því að það yrði fært yfir Hellisheiðina, en raunin varð önnur og við fórum með Guðbjörgu, Magnúsi Má og Ragnari í afmælið hans Jóa tengdasonar systur minnar.  Alltaf svo gott að koma til þeirra Selmu og Jóa og eins og venjulega voru sortirnar á veisluborðinu svo margar að ég reyndi ekki einu sinni að kasta á þær tölu 🙂 Ég segi bara takk fyrir mig.

Eftir smá sjónvarpsgláp í kvöld, þá settist ég hérna niður til þess að klára að skrifa jólabréfin til ensku vinanna minna og prenta út jólakortalistann. Ég var hvorugt farin að gera þegar ég mundi allt í einu eftir þér kæra dagbók og áttaði mig á því hversu mjög ég hef vanrækt þig. Aldrei áður hefur liðið svona langur tími sem ég hef  nánast gleymt þér 🙁
Ég veit svo sem ekki hvort ég á mér nokkrar málsbætur nema þær að hafa verið svo gjörsamlega andlaus að mig hefur vantað eitthvað til að segja þér. Það er ekkert gaman að tala bara um heilsuleysi og ferðir með sjúkrabílum. Nú vona ég að hjartalæknirinn hafi fundið réttu leiðina svo þeim kafla sé lokið og ég verði brátt búin að vinna upp góða orku og eintóm sæla sé framundan.  Það er sú framtíðarsýn sem ég kýs að hafa í dag.

Svo eru blessuð jólin framundan. Sem betur fer þá er ég er svona smátt og smátt að átta mig á því að ég get ekki ætlast til þess að hafa sömu orku núna og ég hafði fyrir einhverjum áratugum þegar mér datt í hug að morgni að mála eitthvert herbergið, keypti málningu og var búin að mála að kvöldi. Nú segi ég bara „Æ, ég geymi þetta bara þangað til vorar, því það er mikið betra að mála í dagsbirtunni“. – Svo kemur vorið. Já, já við förum ekkert nánar út í það 🙂
Jólabarnið í mér er búið að setja upp jólaljós, smá skreytingar og nóg til af kertum, púrtvínið er komið í jólaflöskuna og við mæðgur og barnabörnin búin að baka litlu piparkökurnar sem eru komnar í krukkuna við hliðina á jólaflöskunni. Ég læt svo bara ráðast hvort ég geri Sörurnar, en ætla þó helst að standa við að baka þær.  Eitt hef ég þó ákveðið og ætla að standa við – Ég ætla ekki að stressa mig umfram mína orku fyrir þessi jól.  Það er betra að njóta heldur en að gera sjálfan sig örmagna á öllum þeim kröfum sem maður gerir til sjálfs sín – Það er bara liðin tíð. Jólin koma og jólin líða hvort sem það er einni smákökusortinni fleira eða færra, eða hvort íbúðin hefur verið máluð eða ekki. Það er fyrir öllu að eiga skemmtilegan og notalegan tíma.

Ég lofa engu kæra dagbók, en vonandi  vanræki ég þig ekki í svona margar vikur aftur.

Ég var reyndar að opna Vísdómsbókina mína áðan, en hún segir nákvæmlega þetta :
„Langbest er að þegja, sé ekkert gott að segja.“  – Ég er ekki alveg sammála þessu þó auðvitað sé sagan miklu skemmtilegri þannig, en lífsins saga væri ekki sönn, ef látið er líta út fyrir að allaf sé allt gott og skemmtilegt.

Njótum aðventunnar, verum glöð og góð hvert við annað og umfram allt látum ekki stressið ná tökum á okkur 🙂

 

Posted in Ýmislegt | 6 Comments

Hugarorkan betri en allar heimsins verkjatöflur.

Það er alveg ótrúlegt hvað mér líður miklu betur í dag. Á föstudaginn þurfti ég hjálp til þess að komast út úr rúminu, náði ekki djúpa andanum og gat varla á nokkurn hátt hreyft mig án þess að æja af verkjum.  Nú ætla ég hinsvegar að komast á gömludansanámskeiðið í kvöld. – Ég hefði ekki trúað því að ég yrði bara með smá seiðing á mánudegi. Ég hef ekki hugmynd um hvað að mér gekk, en allt er gott sem endar vel.

Ég hef hins vegar alveg hugmynd um hvað hefur læknað mig því ég trúi því staðfastlega að fyrir utan almættið, þá hafi góðar batakveðjur og hugsanir mikinn lækningamátt. Þess vegna þakka ég ykkur öllum fyrir góðar kveðjur og bataóskir, sem ég vona að endist mér lengi.  Þetta innsiglaðist svo í morgun þegar ég fór í Qigong hjá honum Gunnari Eyjólfssyni, þar sem ég hlóð batteríin og gekk orkunni á hönd.
Það er afskaplega gott að fara tvisvar í viku og njóta þessarar gömlu speki sem hann Gunnar miðlar til okkar og með okkur.  Ég er spennt að lesa bókina sem hann var að gefa út, en ég kom heim með áritað eintak sem mun hjálpa mér til þess að læra æfingarnar enn betur svo hægt sé að nota þær bæði heima og heiman.

Þetta er það sem mér liggur á hjarta í dag. Hérna í restina birti ég tvær myndir sem teknar voru á Þingvöllum fyrir viku síðan, en þær sýna okkar yndislegu náttúru sem er alltaf svo falleg,  sumar, vetur, vor og haust – bara með sitt hvoru móti.

Þingvellir okt.2013 2

 

Þingvellir okt. 2013 4

Posted in Hugleiðingar mínar | 5 Comments

Skrýtin vika – Hvað er aftur síminn hjá vælubílnum?

Það var sko gott að ég tók allt í einu þá ákvörðun að koma heim úr bústaðaferðinni á mánudeginum en ekki á þriðjudeginum eins og til stóð í upphafi því ekki hefði ég viljað viljað vera í sumarbústað næstu nótt.  Mánudagurinn var hins vegar svo fallegur og það var alveg dásamlegt að aka heim í gegnum Þingvelli og ég tók margar myndir á leiðinni.

Ég var búin að vera slæm af hálsríg í bústaðnum og var fegin að eiga tíma í sjúkraþjálfun til þess að liðka hálsliðina. Ekki gat ég þó notað mér sjúkraþjálfunina því ég tók upp á því að fara í óvænt ferðalag nóttina eftir að við komum heim og ég kom ekki heim aftur fyrr en seinni part næsta dags. Já, ég vaknaði bara upp úr fasta svefni við að það sem var líkast því að einhver væri að tromma með öflugu trommusetti inni í mér. Til að stytta söguna, þá reyndist ég með svona bullandi háan blóðþrýsting og hraðan púls og var send í sjúkrabílarallí, fyrst í Fossvoginn þar sem tekin var blóðprufa og línurit og þaðan seinna með öðrum sjúkrabíl á Hringbrautina.  Mér var gefið eitthvað viðbótarlyf til þess að lækka blóðþrýstinginn. Ég lá svo þarna inni fram eftir degi á meðan púlsinn smá gaf eftir, en þá mátti ég fara heim þar sem ég hafði ekki önnur einkenni með þessu en höfuðverk og hálsríg. Var reyndar á sterku fúkkalyfi vegna smá ígerðar, en það var svona spurningamerki hvort það hefði nokkuð haft með þetta að gera.
Þetta var fyrri hluta vikunnar – svo kemur seinni hlutinn.

Á fimmtudaginn fór ég svo að finna fyrir miklum tak-verk í hægri síðunni, undir rifjaboganum á bakinu og hef átt erfitt með að hreyfa mig og ná djúpa andanum. Nokkurn veginn í lagi að sitja en ferlegt að standa upp. Ég hitti sjúkraþjálfarann minn á föstudaginn og hún setti á mig allar þær græjur sem hún átti til og mér fannst ég nú verða heldur betri. Þegar ég fór út frá henni, þá ákvað ég að kveikja aftur á símanum mínum sem ég hafði sett á hljóðlaust.  Ekki vildi þá betur til en svo,  þegar ég stóð við nokkrar flísalagðar tröppur sem ég þurfti að ganga niður, að síminn skaust úr höndum mér og skoppaði niður tröppurnar. Mér brá svo mikið að ég fékk þau ósjálfráðu en heimskulegu heilaboð að reyna að grípa símann aftur.  Það hefði ég ekki átt að gera því ég fékk svo mikinn slink á mig að ég varð aftur jafn slæm og þegar ég staulaðist inn.  Ég náði þó að hnoða mér inn í bílinn og aka sæmilega skammlaust heim. – Þetta var auðvitað ábyrgðarlaust með öllu nema fyrir það að ég passaði vel upp á hraða og vandaðí mig rosalega vel við aksturinn.
Heimilislæknirinn minn var í fríi í gær svo ég skrapp á læknavaktina í Smáranum í gærkveldi, því ég átti ekki nein verkjalyf nema Panodíl sem virkar ekkert á þetta. Það var sama sagan í þetta skiptið. Læknirinn skoðaði mig og potaði í mig svo ég æjaði, en hann gat ekki fundið út frá hverju þetta tak stafaði. Hann hjálpaði mér síðan að standa upp úr stólnum aftur, og heim fór ég með lyfseðil fyrir Parkódín Forte og loforð um að tala við heimilislækni strax á mánudag og fá myndatöku því það væri ekki hægt að fá myndatökur um helgar. Þetta gæti verið allt mögulegt, allt frá brjósklosi til  – Þá sagði ég bara „Nei takk það væri alveg nóg að vera búin að fara í þrjá bakskurði  ég ætlaði ekki einu sinni að hugsa um að bæta þeim fjórða við.“  Heim fór ég úr apotekinu með Parkódín Forte og er búin að skrönglast hér um í dag. Var reyndar ágæt um miðjan dag, en ég verð að játa að ég hlakka ekki mikið til að leggjast upp í rúm.  Ég ætla rétt að vona að ég verði á yfirnáttúrulegan hátt laus við þetta í fyrramálið og geti sprottið út úr rúminu með „elegans“ Mér finnst ég vera búin að vesenast nóg við vælubíla og lækna í þessari viku og nú vil ég bara byrja veturinn með stæl.

Við segjum Gleðilegt sumar og nú ætla ég að segja Gleðilegan og góðan vetur kæru vinir og vonandi fáum við oft eins fallegt sólarlag og var í kvöld.

Fyrsti vetrardagur 2013 008

Posted in Ýmislegt | 9 Comments

Haustfrí með fjölskyldunni – Gleði, gleði.

Það var búin að vera mikil tilhlökkun í gangi hjá fjölskyldumeðlimum ungum og eldri 🙂 og tilhlökkunarefnið var að fara saman á Reynistað í Úthlíðarlandi og eiga þar saman góða daga í árlegu haustfríi skólanna. Hér eru nokkrar myndir, sem segja  svona undan og ofan af samveru okkar í sveitinni þar sem náttúran og veðrið skartaði sínu fegursta. Logn og sólskin alla dagana. Sumarveðrið kom sem sagt, þó seint væri.

Það var afskaplega notalegt  að sitja við lestur, spil eða handavinnu,
og auðvitað alltaf gaman að tala saman.

Reynistaður október 2013 _3

Það var gaman fyrir fullorðna fólkið að fara í skemmtilegt spil þegar
litlu strumparnir voru komnir  í rúmið.  Þetta spil sem Sigurrós stjórnaði
var bara einn hlátur í gegn. Þarna er hún að skýra út á hvað spilið gengur.

Reynistaður október 2013_4

 … og svo var bókstaflega legið í krampahlátri og ljósmyndarinn sá ekki út úr
augun vegna hláturtára. Þarna er Guðbjörg að útskýra hvernig hennar orð var
orðið á endanum, eftir að það var búið að fara allan hringinn manna á milli
þar sem ýmist hafði verið skrifað eða teiknað 🙂

Reynistaður október 2013 044

 Ragnar og Ragna Björk voru alveg rosalega dugleg að perla,
svo Sigurrós hafði varla við að strauja.

Reynistaður okt. 2013_5

 Töffararnir Oddur Vilberg og vinur hans Róbert Pétur skemmtu sér vel ýmist
í heita pottinum eða á brettunum, en þeir voru búnir að útbúa sér
brettabraut út af pallinum norðan megin þar sem það truflaði engann.

Reynistaður okt. 2013_6

Svo skruppum við hina árlegu ferð að skoða Geysi.
Þetta var í fyrsta skiptið sem Freyja Sigrún er orðin nógu stór til að njóta þess,
að sá Strokk gjósa. Hún var alveg agndofa yfir þessu.

Reynistaður okt. 2013_9

Amma laumaðist svo til þess að leyfa henni að setjast upp á gamlan traktor
í Geysisstofu. Það var víst bannað, en amma gamla er orðin svo
sjóndöpur að hún sá ekki skiltið fyrr en eftir á 🙂  Hinsvegar hætti
amma strax myndatökunni þegar sú stutta gerði sig líklega
til þess að skipta um gír á þessu gamla hrói.

Reynistaður okt. 2013_7

Svona leið tíminn hjá okkur og það var alveg dásamlegt að vera svona öll saman í nokkra daga. Það eina sem skyggði á var að Karlotta var fyrir norðan og gat ekki verið með okkur, því skólafríið í MA er ekki fyrr en um næstu helgi. Enn eitt, sem er öðruvísi hjá þeim MA ingum.

Ég er afskaplega þakklát fyrir þessa samveru og hlakka til þeirrar næstu. Elsku dætur mínar og þið öll,  takk fyrir að nenna að hafa gömlu með ykkur í fríið.

Haust2013_1

Posted in Ýmislegt | 7 Comments

Allt að fara í gang þetta haustið.

Haustið hefur verið bæði fallegt og skemmtilegt.  Eins og gengur eru dagarnir auðvitað misjafnir, þó í eðli sínu séu þeir allir jafn góðir. Það er bara misjafnt hvernig maður nýtir þá hverju sinni. 

Það er svo margt sem fer í gang aftur eftir sumarleyfi, eins og gamli, góði, ómissandi saumaklúbburinn minn sem er 49 ára á þessu ári.Við erum fimm eftir kellurnar, en við misstum hana Ástu okkar s.l. vetur og söknum hennar sárt. Á borðinu við sætið hennar er nú kveikt á kerti. Við erum vitaskuld svo vanafastar að við höfum alla tíð sest í sömu sæti þar sem við erum hverju sinni og verður uppi fótur og fit ef einhver ætlar í hugsunarleysi að setjast í „vitlaust“ sæti.
Söngurinn með Gleðigjöfunum er líka byrjaður aftur, annan hvern föstudag í Gullsmáranum. Þar kemur fólk saman og syngur hver með sínu nefi,  gömlu íslensku lögin úr söngbókinni með undirleik þriggja harmonikuleikara og konu sem spilar á gítar.  Það er skemmtilegur siður, að börnin úr leikskólanum í Arnarsmára koma í heimsókn, fylgjast með og fá að syngja nokkra leikskólasöngva. Svo eru börnin send heim áður en kemur að brandarapásunni, því það eru sko ekki allir brandararnir sem þar eru sagðir fyrir ung eyru. Sérstaklega er það ein eldri prestsfrú sem segir brandara sem eru langt frá því að vera fyrir börn 🙂  Mér finnst svo skemmtilegt þegar trítlurnar hennar Sigurrósar hafa komið með leikskólanum, en þær voru báðar í Arnarsmára og Freyja Sigrún er þar enn og kemur því stundum, en Ragna Björk er komin í alvöru skóla.
Það er fleira sem er komið á haustdagskrána hjá mér, því QiGongið hjá honum Gunnari Eyjólfssyni er byrjað aftur hjá Krabbameinsfélaginu í Skógarhlíðinni og þar eru einnig í boði fjöldinn allur af skemmtilegum og góðum fyrirlestrum. Einn slíkur var í gær, þar sem Marín Björk Jónasdóttir ræddi um Markmið. Mjög flott kona og skemmtileg og fyrirlesturinn á léttu nótunum. Ég reyni umfram allt að halda mánudags og miðvikudagsmorgnum lausum fram yfir hádegið fyrir þennan hitting því hugleiðslan hans Gunnars gerir manni svo gott og svo er það góður hópur sem mætir þarna.

Í september skelltum við Haukur okkur á gömludansanámskeið í Stangarhylnum, bara svona til að koma okkur aðeins í gang eftir of langa danspásu. Þó við þykjumst nú kunna alla helstu gömlu dansana þá lærum við þarna alls konar tilbrigði sem við vissum ekki einu sinni að væru til. Ég hef oft sagt það og segi það enn, að dansinn er albesta líkamsræktin því hún er bæði fyrir líkama og sál.

Svo er auðvitað allt mögulegt fleira sem ég hef gert á þessum haustdögum, eins og að heimsækja gömul hjón í Hafnarfirði sem voru með mér í Hveragerði í vetur. Ég fór með tveimur systrum sem ég kynntist líka á HNLFÍ, en öll vorum við þar á sama tíma.
Svo skruppum viðí afmæli á Selfoss um daginn. Já það hefur sko aldeilis verið nóg að gera þetta haustið og ýmislegt sem bíður  svo ekki þarf að kvarta yfir aðgerðarleysi.

Jæja kæra dagbók, þá er ég búin að pára þetta hjá mér og set í SARPINN hjá öllum hinum færslunum..

Posted in Ýmislegt | 4 Comments

♥ Hjartað

♥ Hann Gunnar Eyjólfsson segir í Qi Gong, að það sé hjartað sem geymi tilfinningarnar en heilinn stjórni upplýsingunum.
Mitt hjartans mál er að benda á að október er tileinkaður vitundarvakningu um brjóstakrabbamein. Höfum hugfast að við megum aldrei sofna á verðinum því líkami okkar er gersemi í okkar ábyrgð og umsjá og það á að vera eins sjálfsagt og að við drögum andann að viðhalda heilsu okkar eins og við best getum. Nýtum okkur þjónustu Krabbameinsfélagsins sem kallar okkur reglubundið inn í skoðun og fylgjumst svo vel með sjálf þess á milli.
Það er mikið og óeigingjarnt starf unnið fyrir okkur sem höfum greinst með brjóstakrabbamein, eins og á Brjóstadeildinni á Landspítalanum þar sem einstök umhyggja og alúð er alltaf í fyrirrúmi. Svo býður Krabbmeinsfélagið upp á svo margt til þess að gera okkur lífið léttara og betra. Ég sendi þessum aðilum  mitt hjarta í dag og einnig öllum hinum, sem ég hef ekki kynnst persónulega, en einnig leggja mikið af mörkum.  TAKK  FYRIR  MIG ♥ ♥ ♥  Gleymum ekki að kaupa BLEIKU  SLAUFUNA. ♥ og vera endalaust glöð og þakklát fyrir allt sem fyrir okkur er gert 🙂

007

Posted in Hugleiðingar mínar | Leave a comment

Akureyrarferðin.

Það var mikil spenna að komast til Akureyrar í stelpuferð, en við mæðgur  ætluðum þrjár saman með Karlottu norður, því hún ætlar að vera áfram í MA og skólinn byrjar núna á mánudaginn.  Á föstudag var Sigurrós hins vegar komin með hálsbólgu, kvef og hita svo hún varð úr leik, en Oddur Vilberg kom í hennar stað.  Við lögðum upp í ferðina eftir hádegi á föstudag og þegar við komum norður fórum við beint í matarboð hjá tengdaforeldrum Guðbjargar sem tóku vel á móti okkur að vanda. Svo var Karlottu skilað á heimavistina. Mikið fannst mér gaman að koma og sjá skólann hennar og herbergið sem hún fékk á vistinni. Það var líka svo fallegur gróðurinn þarna fyrir utan í dásamlegum haustlitum.

Fyrir utan heimavist MA á Akureyri.

Akureyri 2013-2

 

Á laugardagsmorgninum byrjuðum við á að fara í Jólahúsið og fá svona smá jólatilfinningu, skoða aðeins allar dásemdirnar þar og krakkarnir keyptu sérstakar karamellur sem ku vera  regla að kaupa þegar fjölskyldan mætir í jólahúsið.

 

Akureyri 2013-1

Síðan röltum við niður í bæ og Karlotta þurfti að kaupa sér nokkrar skólabækur. Við fengum okkur súpu í Bakaríinu og skoðuðum „Mollið“.  Mér fannset ég vera að rölta um í útlöndum þegar ég kom í verslunarmiðstöðina þeirra, meira að segja Rúmfatalagerinn virtist voða spennandi 🙂
Það leið að kvöldmat og við ákváðum að fara á Hamborgarafabrikkuna en þar fékk ég rosalega góðan hamborgara án brauðsins en franskar sætar kartöflur í staðinn, nammi namm.  Þar sem við gátum bara fengið borð klukkan sex þá vorum við búin að borða og komin aftur  heim í hús fyrir veðurfréttirnar í Sjónvarpinu. Þar sáum við að spáin var breytt og nú sagt að veðrið sem búið var að spá að kæmi  síðdegis næsta dag, kæmi um nóttina og sérstaklega tilkynnt að ekkert ferðaveður yrði á landinu næsta dag.

Við tókum þá ákvörðun að verða á undan veðrinu og drifum okkur því af stað heim uppúr klukkan átta í gærkveldi.  Guðbjörg ók en það kom í hlut okkar Odds að reyna að vera svolítið skemmtileg til þess að halda henni vakandi, því það getur verið erfitt að berjast við syfjuna þegar kominn er svefntími og ekið er í myrkri, sum staðar slyddu og rigningu, allt í bland. Það voru greinilega fleiri en við að forðast veðrið næsta dag því það var talsverð umferð á móti og einnig á sömu leið og við. Guðbjörg stóð sig eins og hetja við aksturinn, en það var ekið án þess að stoppa til að rétta almennilega úr sér alla leiðina. Það er alls staðar lokað svo snemma á kvöldin, en við náðum þó að koma í Staðarskála klukkan hálf tólf þegar verið var að loka þar og gátum fengið að skreppa á klóið – það var allt og sumt.
Svo var bara brunað áfram án þess að stoppa nema þegar við vorum að koma í göngin, en þá stoppaði lögreglan okkur, lýsti með vasaljósi inn í bílinn og bað Guðbjörgu um ökuskýrteini. Þeir sögðust bara vera að athuga ástandið á fólki.  Þeim leist a.m.k. svo vel á okkur að við þurftum ekki frekari rannsóknar við og svo var haldi áfram þangað til við komum í Kópavoginn klukkan tvö í nótt.  Mikið var svo notalegt að skríða í bólið sitt, vitandi það að við áttum ekki eftir að vera í kapphlaupi við veður á leiðinni heim næsta dag.
Þetta er nú allt gott og blessað, en einn mínus varð vegna klaufaskapar míns.  –
Í öllu patinu um kvöldið þegar við ákváðum að drífa okkur bara strax heim, vorum búin að læsa og setja lykilinn í þar til gerðan læstan kassa, þá mundi ég að þegar við fórum í matinn þá vildi ég ekki láta I-padinn minn liggja á glámbekk og stakk honum undir sængina á rúminu sem ég svaf í. Þarna var hann svo þegar lyklinum hafði verið skilað, afgreiðslan var lokuð og ekkert að gera annað en að drífa sig bara af stað.  Á leiðinni náði ég svo símasambandi og lét vita af þessum óförum mínum.  Nú vona ég að litli I-padinn minn skili sér til mín við fyrsta tækifæri því mér bara farið að þykja svolítið vænt um hann og sakna hans.

 

Posted in Ýmislegt | 2 Comments

Ha,ha,ha.

Jæja krakkar mínr komið þið sæl. Það er gott að maður getur gert grín að sjálfum sér, en ég bæði hlæ, en skammast mín jafnframt fyrir það hvernig útgangurinn hefur verið á mér í dag, án þess að ég hefði hugmynd um. Það var ekki fyrr en seinni partinn, þegar mér varð litið í spegil, að ég sá að ég var með sitt hvora tegund af eyrnalokkum. Allt í lagi, nema nú skil ég af hverju fólk var að gjóa svona mikið á mig augum í Skógarhlíðinni í morgun, fyrst í Qi – gong og síðan í Jógaleikfimi. Ég skil líka núna,  af hverju Gunnar Eyjólfsson

010

horfði á mig, þegar hann var að segja að við yrðum að fara vel með líffærin okkar og misþyrma þeim aldrei, hvorki með reyk, sterku áfengi eða með nokkurs konar gleðilyfjum eða öðru sem sljóvgar. Mér fannst hann horfa óþægilega fast á mig þegar hann taldi upp það síðasta, ég sem vissi að ég hefði aldrei misþyrmt líkama mínum með neinu af þessu sem hann taldi upp. Ég vissi hinsvegar ekki þá að ég sæti þarna beint á móti honum með svona gjörílíka eyrnalokka í sitt hvoru eyra.
Ástæðan fyrir þessu er nefnilega sú, að þegar ég var að klára að búa mig af stað í morgun og búin að setja í mig annan eyrnalokkinn þá hringdi síminn. Ég svaraði í símann og spjallaði við vinkonu augnablik en þurfti svo að kveðja til að koma mér af stað. Mundi þá eftir að ég átti eftir að setja hinn eyrnalokkinn, fór fram á bað, greip hann úr litlu skálinni með eyrnalokkunum og setti hann svo í á leiðinni út.
Ég hefði kannski átt að skoða betur hvaða lokk ég tók úr skálinni, en það lengir jú lífið að hlæja og á meðan maður getur gert grín að sjálfum sér er allt í lagi með mann. Þetta er eitthvað sem ég á eftir að hlæja að aftur og aftur, eins og þegar ég þurfti til læknis rétt eftir stóru aðgerðina í fyrrasumar og átti að koma strax. Ég dreif mig af stað í svörtum skóm, en af sitt hvorri sort svona álíka ólíkum og eyrnalokkarnir voru í dag. Ef rétt er að allt sé þegar þrennt er þá kvíði ég samt svolítið fyrir því hvað í ósköpunum það verður sem ég rugla í þriðja skiptið.

Posted in Ýmislegt | 4 Comments

Ferð sumarsins, þó það sé komið haust og ferðin hafi bara tekið einn dag.

Veðurspáin var svo falleg og  hún stóðst alveg að þessu sinni. Mig var lengi búið að langa til þess að komast í Reynisfjöru og skoða drangana þar, svo ákveðið var að ferðinni yrði heitið til Víkur með aðalstoppinu við Reynisdranga.  Húsbíllinn er kominn í vetrarfrí og ró hans verður ekki raskað fyrr en á sumri komanda, en þar sem Haukur lumar líka á jeppa þá fórum við á honum.

Það er skemmst frá því að segja að ferðin sló öllu við og vegur það upp að við höfum  svo til ekkert ferðast í sumar.

Dagsferð í Reynisfjöru og fleira 010Fyrst stoppuðum við á Hellu til þess að taka myndir. Fjallasýnin var alveg  einstök.

IMG_0111

Síðan stoppuðum við aðeins við Seljalandsfoss og svo að Skógum þar sem við réttum aðeins úr okkur og fengum okkur snarl og kaffisopa.

Dagsferð í Reynisfjöru og fleira 021

Vestmannaeyjar reyndu að toga okkur til sín, en við fórum þangað í fyrra og nú var ferðinni heitið annað.

Dagsferð í Reynisfjöru og fleira 027

Það er bara ekki hægt að lýsa því í orðum hvað veðrið var gott og fjallasýnin falleg. Þarna sjáum við bæði Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul.

Dagsferð í Reynisfjöru og fleira 026

Þar sem við komum niður í fjöruna við Reynisdranga var gott útsýni að Dyrhólaey.

IMG_0121

Smám saman komu drangarnir í ljós og hellirinn með stuðlaberginu.

reynisfjara 5

Ekki spillti rjómaveðrið og það var örugglega 20° hiti þarna í fjörunni.

reynisfjara2

Stuðlabergsveggurinn alveg einstakur og ég er sko búin að sjá fullt af fólki þarna á steinunum þó það eigi að heita að enginn hafi verið þar, nema auðvitað Haukur fremst á myndinni, Athugið hvort þið sjáið ekki líka ýmsar verur þarna í berginu.

reynisfjara4

Svo var auðvitað upplagt að fá sér aðeins sæti þarna.

Eftir þetta ókum við inn að Heiðavatni og síðan til Víkur þar sem við skoðuðum kirkjuna og fengum okkur kaffi í Brydebúð – gömlu húsi sem var flutt frá Vestmannaeyjum.  Siðustu myndirnar hérna eru teknar í Vík.  Á heimleiðinni borðuðum við svo á Hellu og fórum svo i heimsókn til systur minnar og mágs á Selfossi. Það sést vel á myndunum hvað himininn er heiður og tær. Já miðað við sumarveðrið þá vorum við einstaklega heppin með veðrið þennan dag.

IMG_0167 Vík 6Vík7

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Leyndarmálið

Eftir að hitta jákvæða og góða vinkonu í Nauthól, þar sem við borðuðum alveg rosalega fína súpu í hádeginu,  fór ég beint inn í Kringlu til þess að kaupa mér bókina Secret eftir Rhondu Byrne. Ebbu hafði verið gefin þessi bók og hún sagði mér hvað henni finndist bókin vera bæði falleg og frábær. Hún var búin að nefna þessa bók við mig áður. Ég sagði henni að ég væri búin að kíkja eftir bókinni sem rafbók á netinu, en ekki fundið. Þá sagði hún:  “ Þetta er ekki bók til þess að lesa á rafrænu formi, það þarf að hafa hana í höndunum því hún er svo falleg.“
Ég skil vel núna þegar ég er komin með bókina í hendurnar hvað hún á við, því það er sérstök tilfinning að halda á þessari bók, fletta henni og lesa. Ég er vitaskuld ekki búin að gera meira ennþá, en að fletta henni aðeins og skoða. Af  þessum stuttu kynnum, þá sýnist mér hún fjalla um það leyndarmál lífsins, að hugsanir okkar og tilfinningar  marka fyrst og fremst líf okkar.  Ég er spennt að lesa þessa bók og allar þær frásagnir sem í bókinni eru ásamt þeirri speki  og leiðbeiningum sem þar er að finna. Mikið væri svo gott að geta síðan tileinkað sér jákvæðan og fallegan hugsunarhátt.

Posted in Ýmislegt | 3 Comments